Skip to main content

Annáll SÍNE 2023 og nýársávarp forseta

By 01/01/2024janúar 5th, 2024Fréttabréf, SíNE fréttir

Kæru námsmenn erlendis, lesendur fréttabréfsins og aðrir velunnendur íslenskra námsmanna erlendis, nú er árið 2024 runnið upp með tilheyrandi fögnuði. Ég vona að um allt land strengi fólk þau áramótaheit að láta drauma rætast og fara erlendis í nám og að þau ykkar sem eruð þegar í námi komist ósködduð í gegnum janúarprófin.

Árið 2023 var svo sannarlega viðburðaríkt ár hjá okkur í SÍNE. Fyrsta önnin mín sem forseti SÍNE hefur bæði verið lærdómsrík og gefandi, í byrjun annar streymdu tölvupóstar á sine@sine.is með ótrúlegustu spurningum um raunir námsmanna erlendis. Það var mér sönn ánægja að fá að hjálpa ykkur að finna út úr málunum. Ég vil nýta tækifærið og minna ykkur á að ekkert mál er of stórt eða of smátt til að við hjá SÍNE reynum að leysa það með ykkur. 

Í íslenskri tungu eigum við málsháttinn, Tveir vegir liggja til allra mennta, erfiði og framsýni. En menntavegurinn krefst þess einmitt að mínu mati að leggja á sig erfiðisvinnu og vera framsýn.  Nám er langhlaup sem við leggjum í fyrir okkur sjálf, til að auðga eigið líf en það er stundum erfitt að sjá til framtíðar og ímynda sér uppskeruna. Ýmsu þarf að fórna á meðan, stundum er eins og venjulegt fullorðinslíf sitji á hakanum og mann klæjar í fingurna að komast út af lesstofunni til að láta til sín taka. Það flækir stundum málin að læra langt frá fjölskyldu sinni og vinum. Þess vegna er mikilvægt að námsmenn erlendis fái góðan stuðning. Stuðningurinn þarf að koma frá ýmsum áttum, samfélaginu í heild sinni, hinu opinbera, skólanum sjálfum og námslandinu. 

Það er auðvitað markmið SÍNE að vera mikilvægur hluti af stuðningskerfi námsmanna erlendis, því ætlum við að halda hagsmunabaráttunni áfram á komandi ári. Að sjálfsögðu bjóðum við áfram upp á aðstoð við námsmenn í ýmsum málum en við viljum líka halda áfram að vekja athygli á að þörf er á útbótum í mörgu sem við kemur námslánamálum, skólagjaldalánum og öðrum þáttum sem tryggja okkur tækifærin til að fara í nám erlendis. 

Megi árið fara vel af stað hjá ykkur öllum, megi námið ganga sem allra best og heimþráin vera í lágmarki. 

Gleðilegt nýtt ár.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti SÍNE

Annáll 2023

25. janúar 2023 – Viðtal við Hjálmtý Heiðdal

Í Stokkhólmi þann 20. apríl 1970

Þann 20. apríl 1970 hertóku íslenskir stúdentar sendiráð Íslands í Stokkhólmi til að andmæla skertum kjörum. Gengi íslensku krónunnar hafði verið fellt í tvígang, alls um 60% og í kjölfarið stóðu íslenskir stúdentar skyndilega frammi fyrir því að eiga einungis fyrir broti af kostnaði við námið erlendis. 

Stjórn SÍNE reyndi að fá þessa skerðingu bætta en náði ekki eyrum ráðamanna og sendi því áskorun til námsmanna erlendis um að taka málin í sínar hendur. Komu fljótlega upp hugmyndir um að efna til setuverkfalla í sendiráðum Íslands í höfuðborgum Norðurlanda. 

Lesið viðtalið við Hjálmtý Heiðdal í heild sinni hér!

Frá vinstri: Unnur Lárusdóttir, Jessý Jónsdóttir og Bjarki Þór Grönfeldt.

25. febrúar 2023 – Sambandsþing LUF

Sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) fór fram þann 25. Febrúar og átti SÍNE hvorki meira eða minna en þrjá fulltrúa á þinginu, þau Bjarka Þór Grönfeldt, forseta SÍNE, Jessý Jónsdóttur í framboði til alþjóðafulltrúa LUF og Unni Lárusdóttur í framboði til ungmennafulltrúa Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda, og þær hlutu báðar kjör á sínum sviðum. 

24. mars 2023 – Hugvitið heim – málþing SÍNE

Föstudaginn 24. mars hélt SÍNE málþing undir yfirskriftinni „Hugvitið heim“ um gildi náms erlendis fyrir íslenskt samfélag. Fjöldi frummælenda tók þátt og þrátt fyrir ólíka nálgun hvers og eins á viðfangsefnið var skýr samhljómur í erindum frummælenda: Ísland getur ekki orðið að þekkingarsamfélagi án þess að hafa dyrnar opnar og hleypa inn ferskum vindum að utan.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, sagði að Ísland skorti sérfræðinga á ýmsum sviðum atvinnulífsins, því þurfi að skoða hvaða hvötum hægt sé að beita til þess að fá fólk til að velja Ísland. Ekki síst er mikilvægt að auðvelt sé að koma hugmyndum sínum sem fæddust í námi erlendis í framkvæmd á Íslandi og beisla þannig kraftinn sem felst í því að koma heim fullur af eldmóði.

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, baráttukona gegn fordómum og sérfræðingur hjá Rannís

Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur, tók í svipaðan streng og sagði að auðvelda þyrfti fólki að „hafa Ísland sem stað en heiminn sem svið“. Stórauka þurfi aðgengi að því að starfa alþjóðlega á Íslandi, fólk komi gjarnan heim úr námi en því mæti ekki aðstaða og tækifæri sem eru í samræmi við væntingar. Ísland þarf á öllum sínum kröftum að halda og það er lykilatriði að fá fólk heim. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, baráttukona gegn fordómum og sérfræðingur hjá Rannís, kom inn á það í sínu máli að nám erlendis gæti verið ein besta leiðin til að draga úr fordómum á Íslandi. Það að vera sjálfur innflytjandi í ókunnugu landi opni augu margra og hafi áhrif út lífið. Sú reynsla auðveldi fólki að setja sig í spor annarra og setja hlutina í samhengi. Þá verða fyrstu kynni margra Íslendinga af fjölmenningarsamfélagi einmitt til í námi erlendis.

Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, ræddii um nám erlendis út frá sjónarhóli háskólasamfélagsins og sagði að það að afla sér menntunnar sé eitt, en viðhorfin, menningin og fólkið sem maður kynnist sé það sem skiptir mestu máli. Menningarsjokkið við heimkomu sé merki um að við höfum breyst við þessa lífsreynslu.

Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst

4. apríl 2023 – Barátta SÍNE og læknanema skilar árangri!

SÍNE hefur gert stöðu íslenskra læknanema erlendis að umtalsefni. Meðal annars var send áskorun á stjórnvöld um að bregðast við þeirri óásættanlegu stöðu að námslán frá Menntasjóði námsmanna eru langt frá því að duga fyrir skólagjöldum í sumum af þeim löndum þar sem íslenskir læknanemar sækja sér sína menntun, t.d. Ungverjalandi og Slóvakíu. Þá setti fulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðsins umræðu um hag íslenskra læknanema erlendis á dagskrá stjórnarfundar í nóvember 2022 og bar upp að skólagjaldalánin yrðu hækkuð. Fagnar SÍNE sérstakri hækkun á skólagjaldalánum vegna læknanáms erlendis í úthlutunarreglum MSNM 2023-2024.

30. maí 2023 – Umsögn um þingsályktunartillögu um sérstaka tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána til lánþega í dýralæknanámi

SÍNE gaf frá sér umsögn um þingsályktunartillögu og tók þar undir um sérstaka ívilnun til dýralæknanema við endurgreiðslu námslána. Skortur er á dýralæknum á Íslandi og með aukinni áherslu á dýravelferð og aðbúnað dýra er æ mikilvægara að landið búi yfir sérfræðingum á þessu sviði. Það er hins vegar mikilvægt að útfært verði nákvæmlega hvaða skilyrði dýralæknanemarnir þurfi að uppfylla til að fá ívilnunina og á hvaða tímabili þau þurfi að útskrifast til að geta gengið að henni vísri.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér.

6. júní 2023 – Umsögn um þingsályktunartillögu um bætta stöðu og þjónustu við Íslendinga búsetta erlendis

SÍNE fagnar framkominni þingsályktunartillögu um bætta þjónustu við Íslendinga búsetta erlendis. Frá sjónarhóli námsmanna fögnum við sérstaklega því að tillagan leggi til að aðgengi verði auðveldað að rafrænum skilríkjum, vegabréfum auk afnáms sex mánaða biðtíma eftir sjúkratryggingum við flutning til landsins. Breytingarnar myndu því án efa auðvelda Íslendingum erlendis að halda tengslum við Ísland.

Umsögnina má lesa í heild sinni hér. 

15. júní 2023 – Útgáfa Sæmundar, málgagns SÍNE

Stórglæsilegur Sæmundur leit dagsins ljós í júní, um er að ræða eina stærstu útgáfu blaðsins. Ritstýra Sæmundar 2023 var Theodóra Listalín Þrastardóttir, meðstjórnandi SÍNE: „Í þessu blaði eru viðtöl við níu námsmenn erlendis, frá mismundandi svæðum og mismunandi námsgreinum, frá Vestur-Kanada til Japans. Hinsvegar er undirliggjandi þráður hjá þeim öllum að taka af skarið, og halda á vit ævintýra þrátt fyrir að á móti blási. Einnig höfum við útbúið efni um hvernig er hægt að uppfæra ferilskrá sína, að koma aftur heim eftir stórt ævintýri og efni til afþreyingar, persónuleikapróf og krossgátu. Að sækja nám erlendis raskar tilveru manns en maður öðlast nýja sýn á lífið. Menntun er sá þáttur sem auðgar einstaklinginn og samfélagið í heild sinni og skiptir máli að við stöndum vörð um jafnrétti til náms.“

Sæmund 2023 má nálgast hér.

11. ágúst 2023 – Sumarráðstefna SÍNE og ný stjórn kjörin

Þann 11. ágúst fór fram árles sumarráðstefna SÍNE þar sem ný stjórn SÍNE var kjörin.

Stjórnina 2023-2024 skipa: Þórdís Dröfn Andrésdóttir (forseti SÍNE), Katla Ársælsdóttir (varaforseti SÍNE), Númi Sveinsson (gjaldkeri SÍNE), Anna Þórhildur Gunnarsdóttir (ritari SÍNE), Jóna Þórey Pétursdóttir (menntasjóðsfulltrúi), Theodóra Listalín Þrastardóttir (ritstýra Sæmundar), Sara Þöll Finnbogadóttir (meðstjórnandi), Nanna Hermannsdóttir (meðstjórnandi) og Tara Sveinsdóttir (meðstjórnandi).

22. september 2023 – Fræðaþing Reykjavíkurakademíunnar 2023, Innan garðs og utan

SÍNE tók þátt og sendi fulltrúa í pallborðsumræður um ungt fólk í fræðasamfélaginu hver framtíð fræðanna væru. Þar voru aðstæður ungra fræðimanna kannaðar og rædd um hvaða tækifæri standa til boða. Einnig hvernig megi betur halda utan um fjölbreytta flóru ungra fræðimanna og rækta tækifæri þeirra til að stunda rannsóknir innan háskólanna og utan þeirra.

29. september 2023 – Könnun um reynslusögur námsmanna erlendis af MSNM

SÍNE auglýsti í september eftir reynslusögum námsmanna erlendis af Menntasjóði Námsmanna. Sambandinu berast reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum þar sem þeir lýsa stirðu regluverki, vafamálum og erfiðleikum í tengslum við Menntasjóð Námsmanna. SÍNE vinnur hart að hagsmunagæslu félagsmanna sinna og kannar nú reynslu námsmanna erlendis af sjóðinum. Svör við könnuninni nýtast í þessari baráttu SÍNE til að bæta regluverk og skilvirkni sjóðsins í þágu stúdenta erlendis.

Könnunin er opin og má nálgast á heimasíðu SÍNE hér.


1. október 2023 – Á heimleið

Flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, búslóðarflutningar, húsnæðismál og greiðslumat. Þetta eru allt atriði sem íslenskir námsmenn erlendis huga að við flutning heim til Íslands að námi loknu. Í haust hóf SÍNE að taka saman upplýsingar um ýmis atriði sem gott er að hafa í huga við heimkomu. Um er að ræða upplýsingapakka undir heitinu „Á heimleið” og mun upplýsingapakkinn verða aðgengilegur í heild sinni á heimasíðu SÍNE á vormánuðum 2024. Fyrstu færslurnar um sjúkratryggingar við flutning heim eftir nám og fæðingarorlof námsmanna erlendis hafa þegar birst í fréttabréfum SÍNE. 

17. nóvember 2023 – Nýr vefur FaraBara.is

Nýr og uppfærður vefur Upplýsingastofu um nám erlendis fór í loftið í nóvember. Fara Bara er upplýsingavefur rekin af Rannís í samstarfi við SÍNE og Eurodesk á Íslandi, og þar má finna helstu upplýsingar um nám erlendis: Hvernig á að sækja um og finna styrki, kynna sér ólík lönd og lesa reynslusögur nemenda.
Kíktu á Fara Bara hér!

24. nóvember 2023 – Farsældarþing ungs fólks
Annar leiðtogaráðsfundur Landsambands ungmennafélaga (LUF), starfsárið 2023-2024 fór fram 24. nóvember á Center Hotels Plaza undir yfirskriftinni Farsældarþing ungs fólks. Kjör nýrra ungmennafulltrúa fór fram á fundinum og var fulltrúi SÍNE, hún Sara Júlía Baldvinsdóttir kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði sjálfbærrar þróunar. Sara Júlía var kjörin til tveggja ára í samræmi við innleiðingu nýs „junior/senior” kerfis sendinefndar LUF.

Rætt var við Söru Júlíu í seinasta tölublaði Sæmundar um meistaranám hennar í sjálfbærnistjórnun í Barselóna!

19. desember 2023 – Jólakynningarfundur Eurodesk og SÍNE um nám erlendis

Þann 19. desember var haldinn huggulegur kynningarfundur með jólaívafi um nám erlendis. Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs hjá Rannís opnaði fundinn, og því næst kynnti SÍNE starfsemi sína. Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur hjá Rannís kynnti glæsilega nýja vefsíðu Farabara.is og Erasmus+ styrkjum til skiptináms. Því næst sátu meðlimir í SÍNE í pallborði og ræddu um sína eigin reynslu og upplifun af námi erlendis og sátu fyrir svörum við spurningum úr sal. Í pallborðinu sátu Þórdís Dröfn Andrésdóttir (Danmörk), Katla Ársælsdóttir (Írland), Anna Þórhildur Gunnarsdóttir (Holland), Veronika Jonsson (Bandaríkin) og Atli Geir Alfreðsson (England). Fjöldi áhugasamra stúdenta sótti fundinn og virtist áhugi á námi erlendis mikill. Flestar spurningar sneru að málum eins og inntökuskilyrðum, fjármögnun námsins og tungumálakröfur. Það má alltaf hafa samband við SÍNE á netfangið sine@sine.is með hvers kyns spurningar er varða nám erlendis.