Hlutverk SÍNE

Samband íslenskra námsmanna erlendis, SÍNE, var stofnað þann 13. ágúst 1961. Æ síðan hefur félagið starfað að víðtækri hagsmunagæslu fyrir íslenska námsmenn á erlendri grund.

Aðild að félaginu er frjáls, en reynslan hefur sýnt að langflestir námsmanna sjá sé hag í að njóta þjónustu SÍNE og sýna stuðning sinn í verki. Félagsgjöld eru 4200 kr. fyrir námsárið, og eru dregin af fyrstu útborgun framfærsluláns nema merkt sé við á lánaumsókninni að menn vilji ekki vera félagar. Námsmenn sem ekki eru á námslánum verða að skrá sig sérstaklega á skrifstofu SÍNE.

  • SÍNE hefur öðlast traustan sess í íslenska stjórnkerfinu. SÍNE er ábyrgur aðili sem hlustað er á og leitað til um álit á málum er varða námsmenn almennt. Sem SÍNE-félagi getur þú því haft raunveruleg áhrif á mikilvæg málefni.
  • SÍNE er stofnaðili að Landssamtökum íslenskra stúdenta (LÍS), sem samhæfir aðgerðir og heldur uppi öflugri hagsmunagæslu fyrir námsmenn sem heild.
  • SÍNE heldur uppi stöðugum samskiptum og samstarfi við Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þetta tryggir starfsfólki SÍNE aðgang að öllum upplýsingum sem námsmenn erlendis kann að vanhaga um hjá Lánasjóðinum.
  • Í gegn um skrifstofuna er hægt að ná sambandi við fulltrúa SÍNE í stjórn og nefndum Lánasjóðsins.
  • Reynsla annarra af hagnýtum atriðum varðndi búsetu í öðrum löndum hefur oft orðið til að létta námsfólki á leið út í nám róðurinn. SÍNE getur oft komið tilvonandi námsmönnum í samband við þá sem þegar eru við nám víða um heim, sem veita námsmönnum oft upplýsingar.
  • Málgagn SÍNE, Sæmundur, kemur út 1-2 sinnum á ári og er hann sendur öllum félagsmönnum. Greinar um hagsmunamál, fréttaannálar úr starfi félagsins og aðrar gagnlegar upplýsingar eru meðal efnis í blaðinu.
  • Öflugt hagsmunapólítískt starf er forsenda fyrir viðunnandi lánakjörum íslenskra námsmanna erlendis. Því stærri hópur sem stendur að baki SÍNE, því meiri áhrif geta samtökin haft á pólitískar ákvarðanir sem snerta fjárhag hvers og eins.