Skip to main content

Sendiráðstaka íslenskra stúdenta í Stokkhólmi 1970 – Viðtal við Hjálmtý Heiðdal

Stokkhólmi, þann 20. apríl 1970. Ljósmynd: John Kjellström.

Á sjötta áratugi síðustu aldar byggði afkoma landsmanna að miklu leyti á sjávarútvegi. Svokallað síldarævintýri skóp mikinn auð og víða um land var mikil eftirspurn eftir starfsfólki og uppgangur víða. Síldin hvarf 1967 ásamt því að útflutningsverð á fiski snarféll og það skall á kreppa. Gengi íslensku krónunnar var handstýrt á þessum tíma og til þess að bjarga sjávarútvegnum var gengi krónunnar fellt í tvígang, alls um 60%. Í kjölfarið kom óðaverðbólga sem bitnaði illa á landsmönnum. Íslenskir námsmenn erlendis sem keyptu gjaldeyrir viðkomandi dvalarlands stóðu skyndilega frammi fyrir því að íslensku krónurnar sem þeir höfðu ætlað sér til lífsviðurværis dugðu ekki lengur nema fyrir broti af kostnaði við námið erlendis. Margir stóðu frammi fyrir því að verða að hætta námi.

Stjórn SÍNE reyndi að fá þessa skerðingu bætta en náði ekki eyrum ráðamanna og sendi því áskorun til námsmanna erlendis um að taka málin í sínar hendur. Komu fljótlega upp hugmyndir um að efna til setuverkfalla í sendiráðum Íslands í höfuðborgum Norðurlanda.

Ólga í pólitíkinni

Stjórnmálin á sjötta áratugnum voru í föstum farvegi hins svokallaða fjórflokks, þ.e. Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks, Alþýðuflokks og Alþýðubandalags. Fjölmiðlun var í föstum skorðum flokkanna fjögurra sem ráku hver sitt málgagn, dagblöð sem voru mjög lituð af stefnu flokkanna. Ríkið hafði einkaleyfi á rekstri útvarps og sjónvarps sem hóf útsendingar 1966. Konur voru fáar á þingi og nánast engar í háum stöðum bæði í opinbera geiranum og atvinnulífinu almennt. Minnihlutahópar, t.d. samkynhneigðir og öryrkjar, áttu sér fáa eða enga formælendur og voru lítt áberandi í þjóðlífinu. Réttindi fatlaðra voru skammt á veg komin.

Úti í heimi var nýlendustefnan í fjörbrotum og þjóðir í Afríku og Asíu börðust fyrir frelsi undan nýlenduveldunum. Hæst bar baráttu Víetnama gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Fjöldi ungra námsmanna bæði í Evrópu og Bandaríkjunum mótmælti nýlenduveldunum kröftulega og samtímis braust út hreyfing sem krafist meira lýðræðis í skólum og sérstaklega í háskólum. Frægust varð uppreisnin sem nefndist Vorið í París 1968. Á sama ári varð einnig alda mótmæla á yfirráðasvæði Sovétríkjanna og þar bar hæst Vorið í Prag. Þá risu Tékkar upp gegn Sovétvaldinu en sú uppreisn var brotin á bak aftur með sovéskum skriðdrekum.

Setuverkfall eða hertaka?

Ljósmynd: Åke Malmström.

Námsmenn erlendis voru ekki allir sammála hvernig ætti að koma andmælum gegn skertum kjörum á framfæri. Sumir vildu gera setuverkfall í húskynnum sendiráðanna og trufla þannig starfsemina um tíma. Ennfremur vildu margir að sendiráðsfólki yrði gert viðvart um fyrirhugaðar aðgerðir sem áttu að fara fram í öllum höfuðborgunum þ. 24. apríl 1970. En í Gautaborg og Uppsölum í Svíþjóð voru námsmenn sem höfðu lagt stund á sósíalísk fræði og töldu þeir að kurteisleg seta í sendiráðunum myndi skila litlu. Eitthvað róttækara þyrfti að koma til. Þannig varð til hópur sem ákvað að áhrifamest væri að hertaka sendiráðin 20. apríl öllum að óvörum og vekja þannig meiri athygli. Hópurinn sameinaðist í Uppsölum 19. apríl og æfði yfirtökuna vandlega. Næsta dag var farið til Stokkhólms og gengið inn í sendiráðið og starfsfólkinu sagt að það ætti frí. Það voru engar öryggisráðstafanir í sendiráðinu svo að þetta fór allt friðsamlega fram og eftir að starfsfólkið var farið úr þá var skellt í lás og læsingin gerð óvirk. Sendiráðstakan var ótímasett og höfuð þeir ellefu sem hertóku sendiráðið með sér nesti til tveggja daga. En hertakan stóð ekki nema 2 klukkustundir, sænska lögreglan fékk leyfi frá íslenskum yfirvöldum til að fara inn og fjarlægja námsmennina.

„Vegna ungs aldurs og kurteislegri framkomu“

Það varð mörgum heitt í hamsi þegar atburðurinn fréttist til íslands, eiginleg múgæsing. Mörg stór orð féllu í fjölmiðlum um að þessir námsmenn skyldu tafarlaust sviptir námslánum og fangelsaðir. En stjórnvöld töldu að harkalegar aðgerðir myndum eingöngu auka stuðning við aðgerðir námsmannanna og ákváðu að sleppa öllum málarekstri gegn þeim þrátt fyrir háværar raddir meðal almennings. Sænsk stjórnvöld ákváðu einnig að sleppa öllum námsmönnum við refsingar og sendi saksóknari þeim bréf þar sem tekið var fram að vegna „ungs aldurs og kurteislegri framkomu námsmannanna“ yrðu engin eftimál.

Ljósmynd: Åke Malmström
Hjálmtýr Heiðdal segir frá sendiráðstökunni í Stokkhólmi á jólafögnuði SÍNE þann 29. desember 2022. Ljósmynd: Gunnhildur Lind