Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Nóvember 2023

By 01/12/2023desember 4th, 2023Fréttabréf, SíNE fréttir

Ávarp meðstjórnanda SÍNE

Sæl öllsömul,

Nú nálgast hátíðarnar sem þýðir að árinu og önninni fer að ljúka. Þetta hefur líka í för með sér að undirbúningur við heimför til Íslands fer á fullt hjá mér og ábyggilega hjá mörgum ykkar líka. Hjá sumum er þetta síðasta önnin í náminu framundan en hjá öðrum er meira eftir.

Síðasta önnin í náminu markar ákveðin skil og byrjum við að gera hitt og þetta „í síðasta sinn”. Við förum á uppáhalds kaffihúsið okkar í síðasta sinn, sækjum bókasafn skólans í síðasta sinn og eyðum tíma með þeim vinum sem við kynntumst úti í síðasta sinn (vonandi einungis í bili). Þess vegna er mikilvægt að muna að njóta. Mögulega er langt í þessi augnablik hjá mörgum okkar en áður en við vitum af eru þau liðin og við búin að kveðja þennan tíma í okkar lífi. Þetta getur verið tilfinningaríkur og erfiður tími en það að njóta gerir gæfumuninn. 

En áður en allt þetta gerist, ætla ég að klára jólaprófin, njóta á Íslandi og borða íslenskar smákökur. Ég vona innilega þið njótið vel í prófatíðinni og yfir hátíðarnar.

Sara Þöll Finnbogadóttir, meðstjórnandi SÍNE


Langar þig í nám erlendis?


Nú fer að líða að umsóknarfrestum í nám víðsvegar um heim og þá er gott að glöggva sig á ferlinu og vita hvert á að snúa sér. Kíkið til okkar á huggulegan jólakynningarfund um nám erlendis þann 19. desember á Kex Hostel. Á fundinum verður kynning á starfsemi SÍNE, vefsíðunni Farabara.is og Erasmus+ styrkjum til skiptináms – ásamt pallborðsumræðum þar sem íslenskir nemendur í námi erlendis ræða um umsóknarferli, reynslu sína af námi og svara spurningum. Boðið verður upp á kaffi, kakó og kruðerí og létta kaffihúsastemningu.

Dagskrá:
16:00 Opnunarávarp: Aðalheiður Jónsdóttir, sviðsstjóri mennta- og menningarsviðs hjá Rannís

16:05 Kynning á starfsemi SÍNE

16:20 Kynning á Farabara.is, Erasmus+ styrkjum, Eurodesk og Euraxess (leitarvélar fyrir nám og styrki)

16:35 Pallborð: meðlimir í SÍNE ræða um eigin reynslu af námi erlendis í Bandaríkjunum, Danmörku, Hollandi, Írlandi og Bretlandi.

17:00 Kaffihúsastemning og opið spjall – Farabara.is og Erasmus+ / hægt að spyrja um nám í ólíkum löndum / borð tileinkað réttindum og lánamálum nemenda

18:00 Viðburði lýkur

Skráðu þig á kynningarfundinn hér!


Nýr vefur Fara Bara

Nýr og uppfærður vefur Upplýsingastofu um nám erlendis er kominn í loftið! Fara Bara er upplýsingavefur rekin af Rannís í samstarfi við SÍNE og Eurodesk á Íslandi, og þar má finna helstu upplýsingar um nám erlendis: Hvernig á að sækja um og finna styrki, kynna sér ólík lönd og lesa reynslusögur nemenda.

Kíktu á Fara Bara hér!

Fara Bara: Styrkir til náms í Kína 

Styrkirnir ná yfir skólagjöld, húsnæði, heilbrigðistryggingar og mánaðarlegt uppihald (3000 CNY fyrir mastersnema og 3500 CNY fyrir doktorsnema). Athugið að ferðakostnaður er ekki innifalinn í styrknum. 

Nánari upplýsingar er að finna hér. Hægt er að sækja beint um styrki til 31. desember en Upplýsingastofa um nám erlendis tekur einnig við umsóknum til tilnefningar, en Rannís tilnefnir árlega 2 nemendur til kínverskra yfirvalda. Frestur til þess er 15. desember og skal póstur þess efnis berast ásamt öllum viðeigandi gögnum fyrir umsókn (samkvæmt vefsíðu) á miriam@rannis.is.

Tilkynninguna má lesa í heild sinni hér. 

Á heimleið: Fæðingarorlof við flutning heim eftir nám

Á heimleið er upplýsingapakki SÍNE er varðar ýmis hagnýt atriði sem gott er fyrir íslenska námsmenn erlendis að huga að við heimkomu, t.d. flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, búslóðarflutningar, greiðslumat, o.fl. 


Eiga námsmenn erlendis rétt á fæðingarorlofi á Íslandi?

  • Já! Námsmenn uppfylla skilyrði fyrir fæðingarstyrk námsmanna ef þau hafa verið í fullu námi, 22 ECTS einingum eða meira, í a.m.k. sex mánuði á 12 mánaða tímabili fyrir fæðingu barns og hafa flutt erlendis vegna náms. Þetta á líka við um foreldra í námi sem þurftu að flytja lögheimili sitt til annarra Norðurlanda til að stunda nám. 
  • Foreldri skal eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns, frumættleiðingu eða varanlegt fóstur og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir þann tíma. Hægt er að fá undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis og hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. 5 ár fyrir flutning. Hið sama gildir þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma og hafi átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. 5 ár fyrir flutning.
  • Hafi foreldri verið búsett í landi innan EES allt að 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins er tekið tillit til þess hafi foreldri haft lögheimili hér á landi við fæðinguna og ekki má hafa liðið meira en mánuður frá því að tryggingatímabili lauk í fyrra búseturíki og umsækjandi er skráður í tryggingakerfið á Íslandi. Í þessum tilvikum skal foreldri láta S-041 vottorð fylgja með umsókn sinni sem staðfestir búsetu og tryggingatímabil í öðru aðildarríki að EES-samningnum.

Nánar má lesa um rétt til fæðingarstyrk námsmanna hér: Réttur til fæðingarstyrks | Vinnumálastofnun (vinnumalastofnun.is) 

Hvernig er sótt um fæðingarstyrk námsmanna?

Ef upp koma vafamál bendir SÍNE félagsmönnum sínum að hafa samband við Fæðingarorlofssjóð hjá Vinnumálastofnun í síma: 515-4800 eða á netfangiðfaedingarorlof@vmst.is. Einnig geta félagsmenn alltaf haft samband við SÍNE á sine@sine.is


Yfirtökur á samfélagsmiðlum

Tvær yfirtökur voru á samfélagsmiðlum SÍNE í nóvembermánuði. Það voru þau Atli Geir Alfreðsson, sem nemur fatahönnun í London, og Sóley Margrét Valdimarsdóttir, sem nemur gagnavísindi í Decorah í Iowa í Bandaríkjunum, sem sýndu frá lífi og námi sínu erlendis. Við þökkum Atla og Sóleyju kærlega fyrir fræðandi og skemmtilegt innlit!

Yfirtökurnar má nálgast í heild sinni á Instagram síðu SÍNE @sambandine