Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Október 2023

By 01/11/2023nóvember 7th, 2023Fréttabréf, SíNE fréttir

Ávarp varaforseta SÍNE

Sæl öllsömul.

Nú þegar kólnandi fer (á mörgum stöðum allavega) og verkefni annarinnar verða stærri og erfiðari með tilvonandi prófum á næsta leyti, fer hugurinn að sækja heim til Íslands í enn frekara mæli. Þetta er annað haustið sem ég bý erlendis og það getur oft verið strembið, sér í lagi þegar veðuráttan fer að líkjast þeirri sem kunnug er heima fyrir. 

Eins erfitt og það getur oft verið að vera langt frá vinum og fjölskyldu, er að mínu mati fátt mikilvægara en að þurfa að standa með sjálfum sér í nýjum aðstæðum og læra svo margt nýtt, bæði í spennandi námi og lífinu sjálfu. Því áður en við vitum af verðum við komin aftur heim, reynslunni og menntuninni ríkari, þar sem við munum líta tilbaka á þennan tíma í lífi okkar og hugsa með hlýju til allra nýju vinanna og upplifana frá þessum tíma. Þannig að, ef skólinn og fjarlægðin frá Íslandi er erfið eins og er, þá er það afskaplega skiljanlegt, þú stendur þig vel og þetta reddast allt saman! 

Gangi ykkur vel í öllum verkefna og prófaskilum sem þið eigið fyrir höndum! Og jólin eru blessunarlega á næsta leyti.


Á heimleið – upplýsingapakki fyrir námsmenn á leiðinni heim

Flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, búslóðarflutningar, húsnæðismál og greiðslumat. Þetta eru allt atriði sem íslenskir námsmenn erlendis huga að við flutning heim til Íslands að námi loknu. Á komandi misserum mun SÍNE taka saman upplýsingar um ýmis atriði sem gott er að hafa í huga við heimkomu. Um er að ræða upplýsingapakka undir heitinu „Á heimleið” og mun upplýsingapakkinn verða aðgengilegur á heimasíðu SÍNE (sine.is).

Sjúkratryggingar við flutning heim eftir nám

Þegar flutt er aftur til Íslands er eitt af fyrstu skrefunum að flytja lögheimili sitt á nýtt heimilisfang á Íslandi. Við það dettur yfirleitt erlenda Evrópska sjúkratryggingakortið strax úr gildi og þarf því að sækja sérstaklega um að fá sjúkratryggingar hjá Sjúkratryggingum Íslands – það gerist ekki sjálfkrafa við flutning heim. 

Hægt er að sækja íslenska læknisþjónustu á meðan, og borgað eins og ósjúkratryggður – en óska má eftir að fá endurgreiðslu þegar umsóknin hefur verið samþykkt því að réttindin munu miðast við daginn sem flutt var til Íslands. 

Námsmenn sem flytja aftur til Íslands innan sex mánaða frá námslokum þurfa að skila inn eftirfarandi gögnum til að vera tryggð frá og með þeim degi er lögheimili er skráð aftur á Íslandi.

  • staðfestingu á námi 
  • umsókn um sjúkratryggingu 

Flutningur til Íslands frá Norðurlöndunum

Einstaklingar sem búa skemur en 12 mánuði á Norðurlöndunum verða sjálfkrafa sjúkratryggð á Íslandi um leið og lögheimilisskráning fer í gegn hjá Þjóðskrá við flutning heim.

Búi einstaklingur á Norðurlöndum lengur en nemur 12 mánuðum þarf fyrst að færa lögheimili aftur til Íslands hjá Þjóðskrá þar sem Sjúkratryggingar Íslands eru bundnar við lögheimilisskráningu. Sjúkratryggingum Íslands þarf einnig að berast umsókn um sjúkratryggingu, umsóknareyðublaðið má finna inná sjukra.is og umsóknina má senda í  gegnum tölvupóst eða í Réttindagátt á sjukra.is.

Sjúkratryggingar Íslands þurfa einnig staðfestingu á að einstaklingar hafið verið í almanna tryggingakerfinu erlendis fyrir flutning aftur til Íslands. Þá skal námsmaðurinn senda afrit af erlenda tryggingarkorti sínu (framhlið og bakhlið) sem staðfestir það – þessi regla á bara við um einstaklinga eru að flytja frá Norðurlöndunum.

Námsmenn á Norðurlöndunum sem koma til Íslands á meðan á námstíma varir geta óskað eftir því að vera tímabundið sjúkratryggðir á meðan þeir dvelja á Íslandi. Senda þarf inn umsókn um tímabundna sjúkratryggingu tveimur vikum fyrir komu til landsins. Henni þarf að fylgja staðfesting á námi. 

Flutningur til Íslands frá löndum innan EES

Ef námsmenn flytja heim frá löndum innan EES þá þarf að berast umsókn um sjúkratryggingar. Sjúkratryggingar Íslands senda þá fyrirspurn til fyrra búsetulands til staðfestingar á að námsmaðurinn hafi verið tryggður í því landi. Þegar Sjúkratryggingum hefur borist svar að utan verður viðkomandi tryggður frá lögheimilisskráningu, því réttindin miðast við dagsetninguna er lögheimilið er flutt. 
 

Námsmenn erlendis, utan Norðurlandanna, geta haldið lögheimili sínu á Íslandi meðan á námi stendur og haldið rétti sínum til almannatrygginga. Námsmenn þurfa þó að kynna sér vel reglur þess lands sem farið er til. 

Að lokum hvetur SÍNE fólk sem hefur spurningar að hafa samband við Sjúkratryggingar Íslands í gegnum tölvupóst á international@sjukra.is eða í síma +354 515 0000.


Yfirtökur á samfélagsmiðlum

Í október var Vera Hjördís Matsdóttir með yfirtöku á Instagram reikning SÍNE (@sambandine). Vera Hjördís er meistaranemi í klassískum söng við Konunglega tónlistarháskólann í Den Haag í Hollandi. Við þökkum Veru Hjördísi kærlega fyrir fræðandi og skemmtilegt innlit!

Yfirtökuna má nálgast í heild sinni hér.