Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Október 2022

Ávarp varaforseta SÍNE

Að fara í nám erlendis á óvissutímum

Í dag ríkja miklir óvissutímar í heiminum. Hvort sem litið er á stríðið í Úkraínu, sífellt stigmagnandi deilu Bandaríkjanna og Kína, útgöngu Bretlands úr ESB eða óviss áhrif loftslagshörmunga á mismunandi lönd heimsins þá má segja að staðan virðist ekki björt fyrir hinn almenna námsmann með ósk um að stunda nám erlendis næstu árin. Í dag virðist sem tilhneigingin sé að loka landamærum frekar en opna þau. Þrátt fyrir þessar óæskilegu vendingar vil ég ítreka þá marga kosti sem nám erlendis hefur í för með sér.

Það sem felst því að flytja til annars lands vegna náms er dýrmæt reynsla sem flestir Íslendingar hafa gott af. Það minnkar heiminn fyrir manni, maður fattar að útlönd eru ekkert það langt í burtu. Það opnar líka augu manns, maður áttar sig á því að annað fólk með allt annan bakgrunn en maður sjálfur er líka bara fólk að gera sitt besta í því erfiða púsluspili sem lífið er. Oftast eignast maður vini sem endast út ævina. Það er líka fræðilega mjög lærdómsríkt, erlendis má finna flottustu skóla heimsins með merkustu sögu vísinda og fræðimanna. Persónulega er nám erlendis gullið tækifæri, en það er ekki síður mikilvægt í stærra samhengi, í samskiptum ríkja.

Það er mikilvægara í dag en nokkru sinni fyrir fólk að ferðast til, upplifa og læra í útlöndum. Það er hollt og nauðsynlegt að til séu vettvangar fyrir menningarskipti. Vettvangar þar sem fólk frá mismunandi æsku, menningu og þekkingu koma saman til að læra af hvoru öðru og deila reynslu sinni. Þegar lönd lokast af og þjóðir missa tengsl sín á milli er hætta á myndun ranghugmynda og útlendingaandúð. Þess vegna eru skilaboðin mín sú að við svörum þessum óvissutímum með fleiri skiptinemum og námsmönnum erlendis en ekki færri. Heimurinn hefur sjaldan þurft meira á því að halda en í dag.

Bestu kveðjur,
Númi Sveinsson, varaforseti SÍNE

Fréttir af SÍNE – Október 2022

Endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna

Undanfarnar vikur hefur vinna varðandi Menntasjóð námsmanna verið í fullum gangi hjá okkur í SÍNE. Samkvæmt lögum um Menntasjóð námsmanna skulu lögin endurskoðuð af Alþingi á haustþingi 2023. SÍNE stofnaði vinnuhóp innan stjórnar sem hefur unnið hörðum höndum að því að setja fram kröfur sem SÍNE mun halda á lofti fyrir hönd íslenskra námsmanna erlendis þegar háskólamálaráðuneytið fer af stað í endurskoðunina. SÍNE ætlar að mæta undirbúið til leiks ásamt öðrum stúdentahreyfingum. Nanna Hermannsdóttir, meðstjórnandi í stjórn SÍNE, er fulltrúi í vinnuhóp innan Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) um endurskoðunina fyrir hönd SÍNE. Félagsmenn SÍNE eru hvattir til að koma á framfæri hugmyndum að umbótum á lagaumgjörðinni um Menntasjóðinn á sine@sine.is

Umsögn SÍNE um þingsályktunartillögu Pírata

Stjórn SÍNE skilaði inn umsagnar til allsherjar- og menntamálanefndar um þingsályktunartillögu Pírata um niðurfellingu námslána. Stjórn SÍNE fagnar umræðu um námslánakerfið en telur galla á tillögunni eins og hún stendur núna. Hægt er að lesa umsögnina á hér.

Námsmönnum erlendis stendur til boða að nýta sér 50% nemaafslátt Strætó.

1. Senda póst á markus@straeto.is eða kamilla@straeto.is með staðfestingu á skólavist og kennitölu nemanda. Afgreiðsla skráninga tekur um 3 daga.

2. Búa til aðgang að mínum síðum á klappid.is

3. Auðkenna sig með rafrænum skilríkjum á mínum síðum

4. Þegar skráning hefur verið afgreidd koma upp skilaboð þegar nemandi auðkennir sig að viðkomandi eigi rétt á nemaafslætti.

5. Nú getur nemandinn verslað mánaðar-og árskort með 50% afslætti og valið að nota það á Klapp-appi eða með Klapp-korti.

61 árs afmæli + jólafögnuður SÍNE

29. desember 2022, kl. 20
Stúdentakjallaranum

Takið kvöldið frá fyrir jólafögnuð SÍNE, sem mun einnig halda uppá 61 árs afmæli samtakanna. Tímasetningin er hugsuð fyrir námsmenn sem eru heima um jólin. 

Nánari upplýsingar koma bráðlega.