Skip to main content

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um niðurfellingu námslána


Nefndasvið Alþingis
b.t. allsherjar- og menntamálanefndar
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Dags: 28.10.2022

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um niðurfellingu námslána, 155.mál, þingskjal 156/153

Sambandi íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) barst umsagnarbeiðni vegna þingskjals 156 — 155. mál, 153. löggjafarþing 2022–2023 – tillaga til þingsályktunar um niðurfellingu námslána. SÍNE fagnar allri umræðu um aukinn stuðning við námsmenn í gegnum námslánakerfið en telur þó vankanta á tillögunni eins og hún stendur.

Stefna SÍNE í málefnum Menntasjóðsins (sjá t.d. umsögn um frumvarp um Menntasjóð námsmanna frá 2019) hefur verið að námslán eigi að vera hagstæð og afborganir ekki íþyngjandi fyrir fjárhag greiðenda. Algjör niðurfelling námsláns (þ.e. afskrift þess) á helst rétt á sér þegar útséð er að greiðandi muni ekki nýta menntun sína framar, til dæmis vegna varanlegs brotthvarfs af vinnumarkaði. SÍNE styður að innleidd verði heimild til að afskrifa lán út frá þeim forsendum. SÍNE bendir á að 20. gr laga um Menntasjóð námsmanna heimilar afskriftir á höfuðstóli láns, að hluta eða öllu leyti, við 66 ára aldur, vegna heilsufarsástæðna, fjárhagsörðugleika eða af öðrum sambærilegum ástæðum. SÍNE leggur til að sú grein sé útvíkkuð og nái til allra lántaka óháð aldri. Sambærilega heimild væri hægt að innleiða fyrir greiðendur eldri lána.

Tillagan snýr að því að veitt verði heimild niðurfellingar á eldri námslánum (þ.e. svokölluðum G-, R-, S- og V-lánum) sem veitt voru áður en ný lög um Menntasjóð tóku gildi (H-lán). Hér ber að taka fram að námsmenn fá aðeins niðurfellingu á hluta höfuðstóls af sínum H-lánum að uppfylltum nokkuð ströngum skilyrðum um námsframvindu, skilyrðum sem voru ekki fyrir hendi í tíð eldri lána (þ.e. frá Lánasjóði íslenskra námsmanna). Grundvallarmunur á Menntasjóði námsmanna og Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) liggur einmitt í þessari niðurfellingu. Hjá LÍN var óbeinn námsstyrkur veittur (til allra lántaka) í gegnum niðurgreidda vexti (vextir G- og R-lána voru 1% en voru lækkaðir í 0,4% árið 2020; S- og V-lán eru vaxtalaus). Hjá Menntasjóðnum felst styrkjafyrirkomulagið eingöngu í niðurfellingu hluta höfuðstólsins við námslok (innan tilskilins tímaramma) en vextir eru breytilegir og háðir lánakjörum sem ríkissjóði bjóðast á markaði hverju sinni að viðbættu föstu vaxtaálagi. Ef sambærilegri niðurfellingu væri bætt við lán sem tekin voru hjá LÍN hefði það í för með sér að greiðendur þeirra fengju í raun tvöfaldan námsstuðning, bæði í gegnum niðurgreidda vexti (óbeinn styrkur) og niðurfellingu höfuðstóls (beinn styrkur).

Líkt og segir í upphafi umsagnarinnar getur SÍNE lýst yfir stuðningi við það að vegna sérstakra aðstæðna geti stjórn Menntasjóðs haft heimild til að fella niður námslán hjá einstaka greiðendum, en almenn niðurfelling á gömul LÍN-lán í anda nýrra H-lána telur SÍNE hvorki raunhæfa né sanngjarna gagnvart núverandi stúdentum sem aðeins hafa val um að taka H-lán.

Að endingu lýsir SÍNE yfir ánægju með anda þingsályktunarinnar um að námslán og námsstyrkir séu fjárfesting sem nýtist Íslandi öllu. Þá bendir SÍNE á að lögbundin endurskoðun laga um Menntasjóð eigi að fara fram fyrir haustþing 2023 og hvetur þingmenn Pírata til að beita sér fyrir hagsmunum námsmanna í þeirri vinnu.

Fyrir hönd Sambands íslenskra námsmanna erlendis,


_______________________________
Bjarki Þór Grönfeldt
Forseti SÍNE