Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Janúar 2023

By 31/01/2023febrúar 1st, 2023Fréttabréf, SíNE fréttir

Ávarp gjaldkera SÍNE

Kæru félagar í Sambandi íslenskra námsmanna erlendis,

Fyrir hönd SÍNE vil ég óska ykkur gleðilegs nýs árs og þakka fyrir það gamla. Það hefur margt verið á döfinni hjá SÍNE síðastliðið ár og enn meira í bígerð á leiðinni. 

Fréttabréf SÍNE fór af stað í september og var Sæmundur, málgagn SÍNE, gefinn út í sama mánuði. Innan stjórnar SÍNE gegna stjórnarmeðlimir mismunandi hlutverkum en ná þau utan um samfélagsmiðla- og kynningarmál, ritstjórn Sæmundar, menntasjóðsmál, skipulag viðburða, greiningar, framkvæmdastjórn og samskipti við Landssamtök íslenskra stúdenta. Það má því segja að starfsemi félagsins hafi verið mjög mikil þessa mánuði og mikið um að vera seinasta ár. 

Í tilefni 61 árs afmælis SÍNE var blásið til jólafögnuðar í Stúdentakjallaranum. Einnig er stjórn SÍNE að undirbúa málþing fyrir áhugasama um nám erlendis sem mun eiga sér stað í mars og verður betur auglýst síðar.

Hlutverk SÍNE í gegnum árin hefur fyrst og fremst verið að gæta hagsmuna íslenskra stúdenta erlendis. Fréttabréf mánaðarins rifjar upp þegar íslenskt námsfólk í Svíþjóð tóku málin í eigin hendur og hertóku íslenska sendiráðið í Stokkhólmi. Nýlega hefur SÍNE einnig stutt við hagsmuni læknanema erlendis og birti kröfu um endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna. Hagsmunagæsla íslensks námsfólks hefur því verið í forgrunni félagsins í áranna rás.

Vera Jónsdóttir, gjaldkeri SÍNE


Þann 20. apríl 1970 hertóku íslenskir stúdentar sendiráð Íslands í Stokkhólmi til að andmæla skertum kjörum. Gengi íslensku krónunnar hafði verið fellt í tvígang, alls um 60% og í kjölfarið stóðu íslenskir stúdentar skyndilega frammi fyrir því að eiga einungis fyrir broti af kostnaði við námið erlendis.

Stjórn SÍNE reyndi að fá þessa skerðingu bætta en náði ekki eyrum ráðamanna og sendi því áskorun til námsmanna erlendis um að taka málin í sínar hendur. Komu fljótlega upp hugmyndir um að efna til setuverkfalla í sendiráðum Íslands í höfuðborgum Norðurlanda.

Lesið viðtalið við Hjálmtý Heiðdal í heild sinni hér!


Nýr ritstjóri Sæmundar ráðinn

Stjórn SÍNE hefur ráðið Theodóru Listalín Þrastardóttur, meðstjórnanda SÍNE, sem ritstjóra Sæmundar 2023. Stefnt er að útgáfu snemmsumars. 

Theodóra er að ljúka meistaragráðu í menningarstjórnun og opinberri stjórnsýslu í Carnegie Mellon háskóla í Bandaríkjunum. Hún er með B.S. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, var í Stúdentaráði HÍ fyrir hönd heilbrigðisvísindasviðs og fulltrúi Röskvu í ritstjórn Stúdentablaðsins. 


Þeir sem eru áhugasamir um að vera með í ritstjórn, skrifa greinar eða deila upplifun sinni af námi erlendis er bent að hafa samband við Theodóru: theodora.listalin@gmail.com


Áherslur SÍNE vegna endurskoðunar laga um Menntasjóð Námsmanna

Samband íslenskra námsmanna erlendis hefur birt áherslur sínar vegna endurskoðunar laga um Menntasjóð námsmanna. Ráðherra ber að kynna niðurstöður endurskoðunar laganna eigi síðar en á haustþingi 2023 og um leið og SÍNE tekur undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta birtir SÍNE sérstök áhersluatriði vegna endurskoðunarinnar.

Meðal þess sem SÍNE leggur áherslu á er að stjórn Menntasjóðins verði gert skylt að uppfæra fjárhæðir lána milli ára, framfærsla námsfólks skuli tryggð allt árið, frítekjumark þarfnist endurskoðunar, skólagjaldalán skuli þannig útfærð að þau hindri ekki aðgang að námi og að fyrirkomulag niðurfellingar höfuðstóls láns verði endurskoðað. Allir lántakar ættu að eiga rétt á námsstyrk, óháð þeim tíma sem námið tekur. Þá verði að endurmeta vaxtakjör sem sjóðurinn býður upp á, þjónusta sjóðsins og óásættanlega framkvæmd sjóðsins vegna þröngra undanþága þegar kemur að töfum í námi gefur tilefni til að lögunum sé breytt til að leiðrétta það óréttlæti sem af framkvæmdinni og lögunum leiðir.

SÍNE bindur vonir við að tekið verði mið af kröfunum við endurskoðunina, enda eru þær til þess fallnar að gera sjóðinn aðgengilegri, auka jafnrétti til náms óháð efnahag og aðstæðum að öðru leyti líkt og markmið laganna kveður á um, auk þess að jafna leikinn fyrir námsmenn erlendis við aðstæður námsmanna sem stunda nám á Íslandi.

Kröfurnar má lesa í heild sinni hér!


Yfirtökur listnema í Bretlandi á Instagram

Fyrir áramót voru tveir íslenskir námsmenn í Bretlandi með yfirtökur á Instagram reikning SÍNE (@sambandine). Það voru þau Lilja Cardew, nemi í myndlýsingu í Leeds á Englandi og Pétur Ernir Svararsson, sem leggur stund á söngleikjanám í Lundúnum á Englandi. Við þökkum Lilju og Pétri Erni innilega fyrir innlitið og fræðandi og skemmtilegar svipmyndir frá borgunum þeirra!

Allar yfirtökur má nálgast á Instagram síðu SÍNE @sambandine!