Skip to main content

Áherslur SÍNE vegna endurskoðunar laga um Menntasjóð Námsmanna

Samband íslenskra námsmanna erlendis hefur birt áherslur sínar vegna endurskoðunar laga um Menntasjóð námsmanna. Ráðherra ber að kynna niðurstöður endurskoðunar laganna eigi síðar en á haustþingi 2023 og um leið og SÍNE tekur undir kröfur Landssamtaka íslenskra stúdenta birtir SÍNE sérstök áhersluatriði vegna endurskoðunarinnar.

Meðal þess sem SÍNE leggur áherslu á er að stjórn Menntasjóðins verði gert skylt að uppfæra fjárhæðir lána milli ára, framfærsla námsfólks skuli tryggð allt árið, frítekjumark þarfnist endurskoðunar, skólagjaldalán skuli þannig útfærð að þau hindri ekki aðgang að námi og að fyrirkomulag niðurfellingar höfuðstóls láns verði endurskoðað. Allir lántakar ættu að eiga rétt á námsstyrk, óháð þeim tíma sem námið tekur. Þá verði að endurmeta vaxtakjör sem sjóðurinn býður upp á, þjónusta sjóðsins og óásættanlega framkvæmd sjóðsins vegna þröngra undanþága þegar kemur að töfum í námi gefur tilefni til að lögunum sé breytt til að leiðrétta það óréttlæti sem af framkvæmdinni og lögunum leiðir.

SÍNE bindur vonir við að tekið verði mið af kröfunum við endurskoðunina, enda eru þær til þess fallnar að gera sjóðinn aðgengilegri, auka jafnrétti til náms óháð efnahag og aðstæðum að öðru leyti líkt og markmið laganna kveður á um, auk þess að jafna leikinn fyrir námsmenn erlendis við aðstæður námsmanna sem stunda nám á Íslandi.

Nálgast má kröfurnar hér í PDF formi.