
Ávarp til félaga
Nú hefur 2024 runnið sitt skeið og einkenndist árið af lífi og fjöri í starfi SÍNE. Fundir með öðrum stúdentahreyfingum, ráðuneytum, unnið var að breytingum á lögum um Menntasjóð námsmanna, forsetakosningar og nú síðast Alþingiskosningar. SÍNE lítur björtum augum til ársins 2025 og óskar nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi og vonar að lögð verði áhersla á málefni stúdenta og aðgengi að námi með öflugum menntasjóði námsmanna.
Á nýju ári hefja mörg nýja önn, en önnur ganga til lokaprófa eftir jólafrí. Sumir voru að ljúka sinni fyrstu önn úti og aðrir sjá glitta í útskrift á vormánuðum. Framundan eru spennandi tímar fyrir námsmenn erlendis, sama á hvaða stigi þeir eru í náminu.
Vilt þú sýna frá borginni þinni og náminu? SÍNE býður námsmönnum erlendis reglulega til að vera með yfirtökur á samfélagsmiðlunum, þar sem fólk segir frá sjálfu sér, sínu námi og námslandi, og svarar sömuleiðis spurningum sem kunna að berast. Það er alltaf ánægjulegt að sjá frá ævintýrum félagsmanna erlendis og hvetjum við ykkur sem hafið áhuga endilega til að hafa samband á sine@sine.is.
Kæru félagar, SÍNE talar ykkar máli á ýmsum vettvangi og eru skoðanir og reynsla ykkar forsenda sterkrar hagsmunabaráttu. Látið í ykkur heyra í umræðuhóp SÍNE á Facebook eða hafið samband á sine@sine.is. SÍNE tekur einnig á móti fyrirspurnum, greinum og veitir ráðgjöf eftir bestu getu.
Samband íslenskra námsmanna þakkar félagsmönnum öllum kærlega fyrir árið sem er að líða með ósk um spennandi og gefandi komandi ár fyrir íslenska námsmenn erlendis.

Stjórnarskipti urðu á árinu sem leið og komu Sindri Freyr Ásgeirsson og Arna Dís Heiðarsdóttir ný inn í stjórn. Stjórnarkjörið var eftirfarandi:
- Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti
- Sindri Freyr Ásgeirsson, varaforseti
- Nanna Hermannsdóttir, menntasjóðsfulltrúi
- Katla Ársælsdóttir, ritstýra Sæmundar
- Númi Sveinsson, gjaldkeri
- Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, ritari
- Tara Sveinsdóttir, meðstjórnandi
- Arna Dís Heiðarsdóttir, meðstjórnandi
- Sara Þöll Finnbogadóttir, meðstjórnandi


Það var svo sannarlega nóg um að vera hjá SÍNE árið 2024!
- 50 fyrirspurnum svarað sem bárust í tölvupósti, síma og samfélagsmiðlum
- 9 einstaklingar tóku yfir samfélagsmiðla SÍNE og sýndu frá lífi og námi víðsvegar í heiminum, þar af voru tvær sérstakar kosningayfirtökur. Stjórnarmeðlimir SÍNE í Svíþjóð og Skotlandi fræddu fylgjendur um ferlið við utankjörfundarkosningu annars vegar í sendiráðinu í Kaupmannahöfn og hins vegar hjá ræðismanni í Glasgow.
- Stjórn SÍNE skrifaði 3 umsagnir um lagafrumvörp:
- Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu námsmanna (dags. 15. febrúar 2024)
- Umsögn um breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna (ábyrgðarmenn og námsstyrkir), mál nr. S-85/2024 (dags. 22. mars 2024)
- Umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um Menntasjóð námsmanna (dags. 2. maí 2024)

Sara Þöll Finnbogadóttir, meðstjórnandi SÍNE, var í nóvember kjörin fyrst Íslendinga í stjórn Evrópska ungmennavettvangsins. YFJ eru stærstu regnhlífasamtök landssambanda ungmennafélaga og alþjóðlegra frjálsra félagasamtaka ungs fólks í Evrópu. Vettvangurinn leiðir saman yfir hundrað aðildarfélög. Samtökin starfa í þágu hagsmuna ungsfólks í Evrópu á þverpólitískum grunni
Sara Þöll var tilnefnd af Landsambandi ungmennafélaga. Hún hefur tileinkað mörgum árum að sínu lífi til að berjast fyrir réttindum ungs fólk, bæði á Íslandi sem og í Evrópu. Sara segir að reynslan sem hún hafi fengið — í gegnum LUF, OBESSU og ráðgjafaráð Evrópuráðsins um málefni ungs fólks — hafi mótað hana sem ungmennaaktívista. Sara brennur fyrir réttindum ungs fólks og þá sérstaklega réttindum þeirra til að taka þátt í kosningum, stjórnmálum og lýðræði, sem og hlutverki óformlegrar menntunar í að auka borgaralega vitund, gagnrýna hugsun og virkja ungt fólk og styrkja ungmennafélög. Sara leggur áherslu á að vernda, auka og styðja við borgaralegt samfélag og styðja við ungmennafélög sem og að taka þátt í samstarfi Evrópska ungmennavettvangsins og annarra félaga þar sem ungt fólk er í fararbroddi.

Arna Dís Heiðarsdóttir var í nóvember kjörin ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mennta, vísinda og menningar, og fór kjörið fram á 2. Leiðtogaráðsfundi Landssambands ungmennafélaga.
Arna Dís hefur aflað sér reynslu og þekkingu á málefnum ungs fólks og menntunar í gegnum hagsmunastörf í þágu nemenda. Vísindi og rannsóknir eru henni nærri hjarta og hefur hún hefur fengið að kynnast mikilvægi rannsókna í gegnum rannsóknarverkefni sem hún stendur að við Háskólann í Glasgow, þar sem hún stundar meistaranám í Austur Evrópufræðum. Rannsóknarverkefnið felur í sér að berjast gegn falsfréttum og afhjúpa mannréttindabrot í Úkraínu með nýstárlegum aðferðum, svo sem í gegnum staðsetningarkerfi og með myndstaðsetningum. Einnig talar hún fyrir mikilvægi menningar, sem hún hefur kynnst vel í meistaranáminu í Glasgow, þar sem hún lærir bæði pólsku og menningu Austur-Evrópu, sem veitir mikið innsæi í mikilvægi tungumáls og menningu ólíkra þjóða. Þegar kemur að alþjóðastarfi, þá vill hún leggja áherslu á tungumál sem standa frammi fyrir miklum áskorunum, t.d. þau tungumál Austur-Evrópu og Evrasíu sem Sovétríkin reyndu að útrýma á 20. öldinni og Rússland gerir enn atlögu að.
Sæmundur í kosningabúning!

Ritstýra Sæmundar, Katla Ársælsdóttir, ræddi við frambjóðendur flokka í Alþingiskosningunum og beindust spurningarnar aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði og kjörum námsmanna erlendis. Samband var haft við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann bauð einungis fram í einu kjördæmi.Úr varð að rætt var við sjö flokka: Samfylkinguna, Vinstri græn, Sósíalistaflokk Íslands, Sjálfstæðisflokkinn, Pírata, Viðreisn og Framsókn.
Viðtöl við stjórnmálaflokkana má lesa hér.
Kosningavefur SÍNE
Í aðdraganda kosninga útbjó SÍNE sérstakan kosningavef, þar sem mátti finna allar helstu upplýsingum um hvar, hvenær og hvernig námsmenn erlendis geta gengið að kjörborðinu! Hvar getur maður kosið erlendis, hvað þarf maður að koma með á kjörstað og hvað þarf maður að gera til þess að trygga að atkvæðið skili sér heim til Íslands í tæka tíð?

Flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof og búslóðarflutningar. Þetta eru allt atriði sem íslenskir námsmenn erlendis huga að við flutning heim til Íslands að námi loknu. Á þessari síðu hefur SÍNE tekið saman upplýsingar um ýmis atriði sem gott er að hafa í huga við heimkomu. Vakni upp spurningar eða vafamál er velkomið er að hafa samband á sine@sine.is
Viðfangsefnin sem voru tekin fyrir eru:

Fara Bara er upplýsingavefur Upplýsingastofu um nám erlendis, síðan er rekin af Rannís í samstarfi við SÍNE og Eurodesk á Íslandi, og þar má finna helstu upplýsingar um nám erlendis: Hvernig á að sækja um og finna styrki, kynna sér ólík lönd og lesa reynslusögur nemenda.
Kíktu á Fara Bara hér!
Inntökupróf í læknisfræði í Slóvakíu
Jessenius Faculty of Medicine í Martin Slóvakíu heldur inntökupróf á netinu. Að þessu sinni eru dagsetningar prófanna eftirfarandi:
- 21. mars 2025 (umsóknarfrestur: 7. mars 2025)
- 28. júní 2025 (umsóknarfrestur: 14. júní 2025)
- 8. ágúst 2025 (umsóknarfrestur: 27. júlí)
Breytt fyrirkomulag: Stúdentar geta reynt við inntökuprófið þrisvar, ef þau ná ekki prófinu í fyrstu tilraun er hægt að skrá sig í næsta próf, og síðan næsta ef svo ber undir.
Vefsíða skólans: www.jfmed.uniba.sk/en
Nánari upplýsingar veitir Runólfur Oddsson í kaldasel@islandia.is og s. 8201071