Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – September 2023

By 01/10/2023október 5th, 2023Fréttabréf, LÍN fréttir, SíNE fréttir

Ávarp forseta SÍNE

Sæl öllsömul.

Það er mér mikill heiður að taka við keflinu frá Bjarka og sitja nú sem forseti SÍNE. 

SÍNE á nú að baki sextíu og tveggja ára sögu, saga námsmanna erlendis spannar enn fleiri ár en SÍNE og fjölmörg skref hafa verið tekin í gegnum tíðina til að bæta kjör námsmanna erlendis. 

Mér finnst fylgja því einstakt jafnvægi að vera námsmaður erlendis. Jafnvægis milli hefðar og eigin leiðar. Það má segja að löng hefð sé fyrir því að fara út fyrir landssteinana til að mennta sig, vits er jú þörf þess er víða ratar. Ég er ábyggilega ekki eini íslendingurinn sem las ævintýri Sæmundar Fróða í fjórða bekk og lét sig dreyma um að mennta sig erlendis og semja síðan við Kölska (eða flugfélag) um að bera mig heim til Íslands. En þessi hefð er líka háð því að hver finni sitt, sæki jafnvel í eitthvað sem er ekki til heima, stundum er það nokkuð sem enginn annar hefur lært og flutt með sér heim.  

Í dag hafa hugsanlega aldrei fleiri stundað nám erlendis enda hefur aldrei verið auðveldara að dreifa okkur um allan heim í leit að þekkingu og reynslu. Að sama skapi hefur aldrei verið auðveldara að halda hópinn frá öllum heimshornum og því standa okkur allar dyr opnar, í hagmunabaráttu og félagslífi. Ég sé það fyrir mér í hyllingum að sinna hefð SÍNE og halda boltanum rúllandi í þeim málum sem hafa verið í deiglunni undanfarið. En ég ætla líka að finna nýjar áherslur og stefnur, en fyrst og fremst leggja mitt að mörkum til að bæta aðstæður íslenskra námsmanna erlendis. 


Menntasjóðsfulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðsins spurðist fyrir um framkvæmd þess að veitt sé 30% niðurfelling á höfuðstól námsláns í kjölfar námsloka. 

Samkvæmt reglum sjóðsins þarf lántaki að skila brautskráningarskírteini eða “staðfestingu á lokaprófi” eins og það er orðað í reglunum, að jafnaði innan 6 mánaða frá námslokum til að eiga rétt á 30% niðurfellingu námsloka. Virðist þar ekki duga að skila inn staðfestingu á námsárangri eftir síðustu önnina og þar með staðfesta að námi hafi verið lokið, heldur þarf að vera um brautskráningarskírteini að ræða.

Menntasjóðsfulltrúi SÍNE vakti athygli stjórnar á að hvorki er flipi þess efnis inná Mitt lán vefsvæði sjóðsins né er tölvupóstur sendur út til lántaka sem voru að klára lán sitt sem upplýsir um að skila þurfi þessum gögnum. Þörf sé á sveigjanleika eða betri upplýsingagjafar um þetta atriði til þeirra sem klára nám, enda getur 30% niðurfellingin varðað verulega hagsmuni og háar fjárhæðir, sérstaklega fyrir námsmenn erlendis. 

Vegna þess að gagnaskilum háttar svona hjá Menntasjóðnum fékk Menntasjóðsfulltrúi þau svör að framkvæmd sjóðsins eigi að vera sú að jafnvel þó brautskráningarskírteini hafi ekki verið skilað til sjóðsins innan 6 mánaða, eiga þeir sem uppfylla skilyrði um að klára nám sitt innan þess tímaramma sem þarf til að hljóta 30% niðurfellingu að fá þá niðurfellingu. Hafir þú lent í því, eða veist um einhvern sem hefur lent í því, að fá ekki 30% niðurfellingu því þú skilaðir ekki brautskráningarskírteini innan frests, skaltu hafa samband við Menntasjóðinn og óska endurákvörðunar og endurskoðunar á þínu máli. Reynist það erfitt getur Menntasjóðsfulltrúi SÍNE aðstoðað námsmenn erlendis hvað þetta varðar. 

Um leið minnum við þá á sam eiga eftir að gera það að senda brautskráningarskírteini á sjóðinn um leið og þið fáið það.


SÍNE auglýsir eftir reynslusögum námsmanna erlendis af Menntasjóði námsmanna

Samband íslenskra námsmanna erlendis auglýsir eftir reynslusögum námsmanna erlendis af Menntasjóði Námsmanna. Sambandinu berast reglulega fyrirspurnir frá félagsmönnum þar sem þeir lýsa stirðu regluverki, vafamálum og erfiðleikum í tengslum við Menntasjóð Námsmanna. SÍNE vinnur hart að hagsmunagæslu félagsmanna sinna og kannar nú reynslu námsmanna erlendis af sjóðinum. Svör við könnuninni nýtast í þessari baráttu SÍNE til að bæta regluverk og skilvirkni sjóðsins í þágu stúdenta erlendis. 

Við minnum á að SÍNE býður upp á ráðgjöf við lánþega Menntasjóðs námsmanna, hvort sem þeir eru á leið í nám, á leið heim úr námi eða staddir erlendis við nám. Þjónustan felst í upplýsingagjöf og útskýringum á regluverki sjóðsins. Hafðu samband á sine@sine.is

Könnunina má nálgast hérhttps://forms.gle/w6Zm7JKhMigsUxbv8


Stjórn SÍNE 2023-2024

Sumarráðstefna SÍNE var haldin 11. ágúst og ný stjórn kjörin. Við minnum á ráðgjafaþjónustu okkar við námsmenn erlendis, til dæmis varðandi námslán og framfærslu. Hafðu samband á sine@sine.is


Fyrsti fundur alþjóðaráðs LUF

Fyrsti fundur Alþjóðaráðs Landsambands Ungmennafélaga var haldinn þann 27. september síðastliðinn. Í Alþjóðaráði eiga sæti alþjóðafulltrúar/ábyrgðaraðilar alþjóðamála allra aðildarfélaga auk sendinefndar LUF hjá Sameinuðu þjóðunum. Markmið fundarins var að veita aðildarfélögum LUF innsýn inn í alla alþjóðlega þátttöku og samvinnu LUF, þau tækifæri sem í henni eru fólgin fyrir aðildarfélög auk þess að ræða umgjörð alþjóðlegrar þátttöku ungs fólks á Íslandi. Sérstakur gestur var Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, utanríkisráðherra sem ávarpaði fundinn. 

Jessý Jónsdóttir er fulltrúi SÍNE í stjórn LUF og gegnir embætti alþjóðafulltrúa ásamt því að vera oddviti alþjóðaráðs. Hún ræddi um tækifæri ungs fólks í Evrópu til þátttöku í starfi hjá m.a. Evrópska ungmennavettvanginum, Evrópuráðinu og Evrópusambandinu. Á fundinum tóku einnig til máls Tinna Isebarn, framkvæmdastjóri LUF, Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna, Rebekka Karlsdóttir, ungmennafulltrúi Íslands á sviði sjálfbærrarþróunnar og Viktor Lorange, formaður Ung norræn og verkefna- og samskiptastjóri LUF.