Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Nóvember 2022 + Jólafögnuður

Samband íslenskra námsmanna varð 60 ára árið 2021 en vegna COVID varð lítið úr hátíðarhöldum. Við bætum um betur og höldum upp á 61 árs afmæli SÍNE með jólafögnuði 29. desember á Stúdentakjallaranum.
 
Dagskrá:
20.00 – Húsið opnar. 
Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndargerðarmaður ræðir á léttu nótunum um stúdentabaráttu fyrri tíma (sendiráðstaka íslenskra stúdenta í Stokkhólmi árið 1970). 
21.00 – Ebba Sig leikkona og uppistandari treður upp.
22.00 – Atli Viðar þeytir skífur fram eftir kvöldi.

Léttar veitingar í boði. Allir núverandi og fyrrverandi SÍNE meðlimir eru boðnir velkomnir en tímasetningin er hugsuð sérstaklega fyrir námsmenn sem eru í námi erlendis núna og heima yfir jólin. Ekki láta þetta fram hjá þér fara!

Facebook viðburður


Ávarp lánasjóðsfulltrúa SÍNE

Kæri félagi,

Ég skrifa þér, nýkomin af fundi með háskólamálaráðherra. Við ræddum þá fráleitu staðreynd að það er hámark sett á skólagjaldalán frá Menntasjóði námsmanna. Tilefnið var nýleg ályktun SÍNE, Félags íslenskra læknanema í Ungverjalandi og Félags íslenskra læknanema í Slóvakíu vegna stöðu íslenskra læknanema erlendis. Það er algengt að Íslendingar sæki sér læknisfræðimenntun út fyrir landsteinana í skólum þar sem skólagjöld eru miklu hærri en Menntasjóður námsmanna lánar fyrir. Þessu viljum við breyta, enda eiga skólagjöld ekki að vera hindrun fyrir íslenska nemendur. Ég tel óhætt að segja að háskólamálaráðherra hafi verið móttækileg fyrir því sem  við höfðum fram að færa á fundinum. Næst verður málið rætt á stjórnarfundi Menntasjóðsins í desember og við í SÍNE erum hóflega bjartsýn á framhaldið.

Þegar hátíðirnar nálgast fylgja þeim eflaust prófatíð og verkefnaskil hjá einhverjum ykkar og mögulega aukin útgjöld vegna jólanna. Fjárhagsáhyggjur er kannski ekki það sem fólk vill helst hugsa um á þessum árstíma en er engu að síður staðreynd fyrir of mörg. Námsárangur og fjárhagsáhyggjur fara nefnilega stundum saman og við þau ykkar sem lenda í vandræðum gagnvart Menntasjóðnum minni ég á að hægt er að leita til mín sem Menntasjóðsfulltrúa til að aðstoða í samskiptum við sjóðinn, eða senda póst á sine@sine.is. Við í SÍNE erum með ykkur í þessu.

Hvort sem þú ert í námi eða fórst út í nám áður vil ég nýta tækifærið í þessu ávarpi; hámarki skammdegisins en í aðdraganda jóla og verandi nýkomin af eigin útskrift í Edinborg, og minna á að það er afrek að fara erlendis í nám. Það er hollt og það er mikilvægt að stíga þetta skref. Það er þroskandi fyrir sjálfið og jákvætt fyrir samfélagið að íslenskir námsmenn sæki sér þekkingu úr öðru umhverfi og öðlist nýtt sjónarhorn á hlutina. Hvernig sem gengi námsins fer svo býrðu alltaf að reynslunni og af því geturðu, kæri félagi, verið stoltur. Við hjá SÍNE erum einstaklega stolt af þér!

Hvað sem næstu vikur hafa í för með sér fyrir þig, kæri félagi SÍNE, óska ég þess að desember verði þér góður, að þú og þínir eigið gleðilega hátíð og farsælt komandi ár.

Jóna Þórey Pétursdóttir
Lánasjóðsfulltrúi SÍNE


Styðjum við íslenska læknanema erlendis!

Áskorun á ráðherra háskólamála og stjórn Menntasjóðs námsmanna

Menntasjóði námsmanna (sem áður hét Lánasjóður íslenskra námsmanna) er ætlað að vera félagslegt jöfnunartæki sem veitir öllum námsmönnum tækifæri til náms og styður um leið við menntun, nýsköpun og þekkingu í íslensku samfélagi. Fjöldi námsmanna velur að fara erlendis í nám, enda er það þroskandi og gefandi fyrir hvern og einn, en ekki síst gagnlegt fyrir íslenskt samfélag sem vegna smæðar getur ekki boðið upp á nám á öllum sviðum. Margir námsmenn velja síðan að koma heim með þekkingu sína og reynslu og íslenskt samfélag nýtur góðs af. Það skýtur því skökku við að Menntasjóður námsmanna styðji ekki betur við námsmenn erlendis, og það á ef til vill sérstaklega við um íslenska læknanema.

Ísland stendur frammi fyrir miklum áskorunum í heilbrigðismálum. Fyrirséð fólksfjölgun og öldrun þjóðarinnar mun kalla á aukna þjónustu en nú þegar ríkir neyðarástand víðsvegar í heilbrigðiskerfinu vegna manneklu. Það er gömul saga og ný að heilbrigðiskerfið á Íslandi glímir við krónískan læknaskort. Læknafélag Íslands telur að árið 2030 muni Ísland vanta 130 lækna og árið 2045 verði talan orðin 250[1].

Líkt og þekkt er býður aðeins einn háskóli á Íslandi upp á læknanám og getur hann aðeins tekið inn 60 nema á ári, sem dugir ekki til að mæta þörf heilbrigðiskerfisins. Fjöldi Íslendinga hafa því leitað erlendis til að fá menntun og starfsþjálfun við virta og viðurkennda læknaskóla víða um heim. Þessir læknanemar standa straum af öllum kostnaði við nám sitt, sem getur verið gríðarlegur. Til dæmis er kostnaður læknanema í Ungverjalandi vegna skólagjalda um 14.500.000 kr. á núverandi gengi. Íslenska námslánakerfið veitir skólagjaldalán að hámarki 6.300.000 kr. en námsmenn í námi sem er skipulagt í fimm ár eða lengur (sem á við um læknanema) eiga rétt á viðbótarláni allt að 1.900.000 kr. Eftir standa 6.300.000 kr. sem læknanemar þurfa að greiða úr eigin vasa, án möguleika á lántöku, en það jafngildir ríflega þriggja ára framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna. Hafa ber í huga að þessi hópur námsmanna býr einnig við aðrar sérstakar áskoranir, til dæmis er skólaárið í Ungverjalandi lengra en á Íslandi og læknanemar þar hafa í mesta lagi 10 vikur yfir árið til að vinna upp það sem vantar fyrir skólagjöldum og framfærslu[2]. Það er því ljóst að 1. grein laga um Menntasjóð námsmanna nær ekki til læknanema erlendis: „Markmið laga þessara er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms, án tillits til efnahags og stöðu að öðru leyti, með því að veita námsmönnum fjárhagslega aðstoð í formi námslána og styrkja.

Staða íslenskra læknanema erlendis er alvarleg – og það eru vondar fréttir fyrir Ísland. Þessi staða fælir áhugasama frá því að halda út í nám í læknisfræði erlendis yfir höfuð. Það er því í raun tvöfaldur ávinningur fyrir íslenskt samfélag að styðja við íslenska læknanema erlendis. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að vinna gegn læknaskortinum sem nú þegar er til staðar og mun aðeins aukast á komandi árum. Í öðru lagi er kostnaður íslenska ríkisins við menntun þessara lækna aðeins brot af því sem kostar að mennta lækna á Íslandi, enda greiða læknanemar erlendis þorra kostnaðarins við námið sjálfir.

Við undirrituð félög námsmanna skorum á ráðherra háskólamála og stjórn Menntasjóðsins til að gera breytingar á úthlutunarreglum og tryggja að námsmenn erlendis geti fengið lán fyrir öllum sínum skólagjöldum. Þá hvetjum við ráðherra til að íhuga þann möguleika að nýta 1. mgr. 27. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna um sérstakar ívilnanir til handa læknanemum erlendis, til dæmis í formi aukinnar niðurfellingar á þeim hluta námsláns sem var fyrir skólagjöldum, enda alveg ljóst að það felst mikill sparnaður í því fyrir íslenskt samfélag að fólk sæki sér menntun erlendis og skili sér heim að námi loknu. Líta má á slíkan styrk sem tæki til að koma á móti við þann gríðarlega kostnað sem læknanemarnir sjálfir bera og spara ríkissjóði.

Fyrir hönd íslenskra námsmanna um allan heim,

Samband íslenskra námsmanna erlendis

Félag íslenskra læknanema í Ungverjalandi

Félag íslenskra læknanema í Slóvakíu


[1] Sjá https://www.laeknabladid.is/tolublod/2022/09/nr/8102

[2] Ath. að útreikningur framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna miðar við að nám sé stundað í níu mánuði og að stúdentar bæti upp hina þrjá mánuði ársins með vinnu.


Fréttir af SÍNE – nóvember 2022

Bjarki Þór Grönfeldt, forseti SÍNE, og Arna Bjarnadóttir, formaður Félags íslenskra læknanema í Ungverjalandi, ræddu ályktun um stuðning við íslenska læknanema erlendis í Speglinum þann 17. nóvember. Læknanemar sem læra erlendis eiga margir erfitt með að ná endum saman og bera sjálfir hitann og þungann af skólagjöldum. Innslagið má nálgast hér.

Áskorun SÍNE og læknanema erlendis má einnig nálgast á Vísi.is

Öflug hagsmunarbarátta stúdenta skilar árangri!

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir gerði málefni íslenskra læknanema erlendis að umtalsefni í störfum þingsins þann 23. nóvember. Þá hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskólamála fundað með fulltrúum SÍNE og læknanema erlendis um málið og erum við bjartsýn á jákvæðar breytingar. Björninn er ekki unninn en SÍNE þakkar mikil og góð viðbrögð við áskoruninni sem send var fyrir skömmu, hana má lesa hér


Yfirtaka læknanema í Debrecen í Ungverjalandi á Instagram

Arna Bjarnadóttir, formaður Félags íslenskra læknanema í Ungverjalandi sýndi frá lífi læknanema í Debrecen í vikunni sem leið. SÍNE þakkar Örnu, Gunnari, Sögu og Abel fyrir innlitið! Yfirtökuna má nálgast á Instagram síðu SÍNE: @sambandine !