Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Mars 2024

By 01/04/2024apríl 5th, 2024Fréttabréf, SíNE fréttir

Ávarp forseta SÍNE

Sælir kæru félagsmenn SÍNE!

Ég vona að það sé hlýrra veður þar sem þið eruð stödd en á Íslandi um þessar mundir. Eins og sjá má á lengd fréttabréfsins að þessu sinni höfum við stjórnin verið að bauka ýmislegt upp á síðkastið og munum halda því áfram. Einnig hafa orðið breytingar á stjórninni en undirrituð hefur tímabundið tekið við störfum forseta SÍNE á meðan Þórdís fer í barnseignarleyfi. Ég vil enda á því að hvetja öll að sækja um ritstjórn Sæmundar og/eða senda inn greinar fyrir blaðið! Það er ótrúlega skemmtilegt tækifæri til að segja frá ykkar upplifun af námi erlendis, eða bara eitthvað annað skemmtilegt sem þið hafið áhuga á að deila.

Gleðilega páska!


Glænýr Sæmundur: Ritstjórn og reynslusögur óskast!

Sæmundur, málgagn SÍNE, hefur komið út á prenti frá 1981 eða í rúma fjóra áratugi. Í ár verður Sæmundur gefinn út með nýju sniði, og munu greinar koma reglulega út á nýju svæði Sæmundar á heimasíðu SÍNE!

SÍNE vill heyra í þér og óskar eftir fólki í ritstjórn sem og eftir reynslusögum og viðmælendum fyrir Sæmund. Nafnleynd og fullum trúnaði er heitið.

Áhugasamir hafi samband á theodora.listalin@gmail.com


Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) lýsir yfir vonbrigðum með hve litlar úrbætur er stefnt á í fyrirætluðum breytingum á lögum um Menntasjóð námsmanna. Þessa vinnu má rekja aftur til ársins 2020 þegar lög um Menntasjóð námsmanna tóku gildi en í þeim má finna bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að ráðherra skuli kynna niðurstöður endurskoðunar laganna eigi síðar en á haustþingi 2023. Stúdentahreyfingarnar byrjuðu að undirbúa sig fyrir endurskoðunina á vormánuðum 2022, fyrir tæpum 2 árum, og birtu bæði SÍNE og LÍS ítarlegar kröfugerðir um haustið sama ár (sjá hér og hér). Þá gaf ráðuneytið út skýrslu í lok árs 2023 um mat á endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna, þar sem rakin eru fjölmörg tilefni til úrbóta. Það eru því vonbrigði að sjá að ráðherra ætli ekki að nýta alla þessa vinnu, bæði stúdenta og ráðuneytisins, til þess að gera raunverulegar og heildstæðar úrbætur á námslánasjóðskerfinu.


Þrátt fyrir að einstaka breytingar sem frumvarpið boðar séu smávægilegt skref í rétta átt þá telur SÍNE að ráðast verði í umtalsverðar breytingar til þess að sjóðurinn sinni jöfnunarhlutverki sínu sem skyldi. Umsögnina má lesa í heild sinni hér.


Fara Bara er upplýsingavefur Upplýsingastofu um nám erlendis, síðan er rekin af Rannís í samstarfi við SÍNE og Eurodesk á Íslandi, og þar má finna helstu upplýsingar um nám erlendis: Hvernig á að sækja um og finna styrki, kynna sér ólík lönd og lesa reynslusögur nemenda.

Kíktu á Fara Bara hér! 


Styrkir til náms í Frakklandi

Hefur þig alltaf langað til að fara í masters eða doktorsnám í Frakklandi? Vissir þú að það er líka hægt að fara í ýmiskonar nám á ensku?

Umsóknarfrestur er til 19.maí!

Styrkirnir, sem í boði eru, ná til allra fræðasviða og eru einkum ætlaðir nemendum í meistara- eða doktorsnámi sem hyggjast stunda að minnsta kosti tveggja missera nám í Frakklandi (Erasmus+ nemar geta ekki sótt um).

Allar upplýsingar á slóðinni sem fylgir:
https://is.ambafrance.org/Styrkir-til-nams-i-Frakklandi-1943
 


Inntökupróf í læknanám í Slóvakíu

Jessenius Faculty of Medicine í Martin Slóvakíu heldur inntökupróf á netinu í læknisfræði á eftirfarandi dagsetningum:

  • 21. mars 2024
  • 12. júlí  2024
  • 10. ágúst  2024

www.jfmed.uniba.sk/en

Nánari upplýsingar veitir Runólfur Oddsson í netfangið kaldasel@islandia.is eða í síma 8201071.
 


Opið fyrir umsóknir um styrki til náms frá Rótarýsjóðnum

Rótarýsjóðurinn (Rotary Foundation) veitir árlega um 50 styrki til tveggja ára meistaranáms í friðarfræðum við einn af fimm háskólum sem í boði eru. Námið er ætlað leiðtogum og leiðtogaefnum á sviði friðar- og þróunar.

Nú er opið fyrir umsóknir um friðarstyrk Rótarý! Umsóknarfrestur er til 15. maí 2024.

Frekari upplýsingar um námið, háskólana, hæfniskröfur og umsóknarferlið eru á slóðinni https://on.rotary.org/3J6sYLP

Vinsamlega deildu upplýsingum um einstök tækifæri fyrir námsárin 2025-27 með friðar- og þróunarleiðtogum í þínu samfélagi.

Skoðaðu Rotary Peace Centers til að sjá nýjustu uppfærslur á Facbook.

Fanney Karlsdóttir, sem var við nám við Brisben segir: „Styrkurinn veitti mér ógleymanlegt tækifæri til að vera í góðu námi með fjölbreyttum hópi fólks sem myndaði gott tengslanet. Styrkurinn var veglegur og að auki bættist við gestrisni Rótarýfélaga sem ég og maðurinn minn áttum ekki orð yfir“.

Fyrirspurnir má senda til rotarypeacecenters@rotary.org
 


Styrkir til náms í Austurríki

Ráðuneyti menntamála, vísinda og rannsókna í Austurríki tilkynnir að námsstyrkir verði aftur í boði fyrir nemendur, útskriftarnema og vísindafólk fyrir skólaárið 2024/25. Styrkir eru auglýstir í gegnum austurríska gagnagrunninn fyrir námsstyrki og rannsóknarfjármögnun www.grants.at (á þýsku og ensku). Auk námsstyrkja frá ráðuneyti menntamála, vísinda- og rannsókna, má einnig finna í þessum gagnagrunni upplýsingar um námsstyrki frá öðrum stofnunum.

Upplýsingar um þessi forrit er að finna í samsvarandi færslum í gagnagrunninum www.grants.at.


Yfirtökur á samfélagsmiðlum

Í mars tóku þau Birta Dís Jónsdóttir, Ásgerður Magnúsdóttir, Sturla Jónsson og Þórunn Jakobsdóttir yfir samfélagsmiðla SÍNE. Viðfangsefni þeirra voru einkar fjölbreytt.

Birta Dís Jónsdóttir er meistaranemi í jarðfræði og sýndi frá skiptinámi sínu við Otago-háskólann í Dunedin á Nýja-Sjálandi. Otago-háskólinn er elsti háskóli Nýja-Sjálands, stofnaður 1869 og í dag eru 21.500 nemendur við skólann. Einnig fjallaði Birta um húsnæðismál stúdenta, félagslíf og klúbbastarf, og það mikla og skemmtilega flakk sem fylgir jarðfræði náminu.

Ásgerður Magnúsdóttir er meistaranemi í hagsögu við London School of Economics and Political Science á Englandi. Ásgerður sýndi frá náminu, t.d. tímunum Population Dynamics and Economic Growth og The Development and Ingegration of the World Economy. Námið er aðeins 12 mánuðir, haustönn og vorönn eru klassískir áfangar og sumarönn fer í skrif á meistararitgerð. Einnig fjallaði Ásgerður um hvað skólinn er ferilsmiðaður, og mikil áhersla lögð á tengsl við atvinnulífið og tengslamyndun. 

Sturla Jónsson er skiptinemi í stjórnmálafræði við háskólann Sciences Po Bordeaux í Frakklandi. Sturla fjallaði um sögu og arkitektúr í Bordeaux. Námið er kennt á ensku og byggist helst á fyrirlestrum og lokaprófum, og minna um ritgerðir og verkefnaskil. Dæmi um áfanga í náminu má nefna: Theory of International Relations og Theory of Security Policy and the EU. Félagslífið í skólanum er mjög gott og það er vel haldið utan um Erasmus-hópinn. 

Þórunn Jakobsdóttir er verkefnastjóri fyrir meistaranám í Alþjóðlegri samanburðarmenntunarfræði við Menntavísindasvið Stokkhólmsháskóla. Þórunn fór ítarlega yfir allt er varðar inntökuferlið í sænska háskóla, en starf hennar felst í því að vera tengiliður milli nemenda og deildarinnar. Sjálf lærði Þórunn við Stokkhólmsháskóla og er námið tveggja ára M.Sc. nám í Education with International and Comparative Specialisation (ICE) við Menntavísindasvið Stokkhólmsháskóla. Inntökuskilyrði í námið eru 180 ECTS einingar í félags- eða hugvísindum eða kennsluréttindi, ásamt því sem Svíar kalla „Enska 6 eða sambærilegt“. Helstu kostir þess að læra í Svíþjóð, að sögn Þórunnar, eru úrvals námsleiða, fjölmenningin í Svíþjóð og hvað það er vel haldið utan um alþjóðlega nemendur, námið er frítt (fyrir ESB/EES nemendur), og íslenskir nemendur geta átt rétt á sænskum námsstyrk og námslánum sem eru hagstæðari en sambærileg lán á Íslandi. Yfirtaka Þórunnar er virkilega fræðandi fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að hefja nám í Svíþjóð og hvetjum við alla til að skoða yfirtökuna í heild sinni á Instagram síðu SÍNE. 

Yfirtökunar má nálgast í heild sinni á Instagram síðu SÍNE á @sambandine !