Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Janúar 2024

By 01/02/2024febrúar 3rd, 2024Fréttabréf, SíNE fréttir

Ávarp ritara SÍNE

Kæri félagsmaður SÍNE,

Nú er janúar liðinn og allt komið í rútínu eftir nýárið. Ef til vill hafa sum áramótaheit runnið í sandinn en kannski er haldið í önnur. Ef til vill settu einhverjir sér áramótaheit að skella sér loksins í draumanámið erlendis, fara út og skoða heiminn – fara út á vit ævintýranna. Þegar hver lægðin á fætur annarri gengur yfir Ísland, get ég ekki annað sagt en fyrir alla muni skellið ykkur út. Látið vaða!

Nám erlendis kennir manni svo miklu meira en bara það sem maður lærir á bókina. Maður eignast vini alls staðar að úr heiminum og þau vinasambönd endast ævina. Nú eftir örfáar vikur heimsæki ég spænska vinkonu mína í Hamborg, en við kynntumst í meistaranámi okkar úti í Hollandi og vorum stoðin og styttan hjá hvorri annarri í gegnum próf og verkefnaskil. Það er fyndið hvernig samtöl okkar hafa þróast eftir útskrift. Áður kvörtuðum við og kveinuðum yfir ritgerðarskrifum, strákum, hollenskum mat og (að okkur fannst) miður skemmtilegum kennurum. Í dag erum við báðar píanókennarar og sitjum hinum megin við borðið – snúast samtöl okkar um áhrifaríkustu píanóskólana, gagnlegar bækur sem nýtast í kennslu, fyndnar sögur af gullkornum nemenda okkar, sparnað fyrir útborgun á fyrstu íbúð, og já – lífeyrissjóðsmál. Svona verður maður skemmtilegur með aldrinum krakkar mínir. 

SÍNE fær gjarnan fyrirspurnir frá ungu fólki á krossgötum sem leita ráða hvort og hvert þau eigi að fara í nám erlendis. Ég segi alltaf: Láttu vaða! Jafnvel þó svo að þú sért ekki alveg 110% viss hvort þetta sé rétta landið, rétta brautin, rétta fagið, rétti leiðbeinandinn, rétti tíminn, rétta ákvörðunin. Það hlýst svo mikill lærdómur af því að fara erlendis í nám að þú ert alltaf reynslunni ríkari, sama hvað raular og tautar. Láttu bara vaða!

Anna Þórhildur, ritari SÍNE


Hver ber kostnaðinn af því að við­halda læknastéttinni?

Formenn SÍNE, FÍLU og FÍLS vöktu athygli á stöðu læknanema erlendis í grein á Vísi. Íslenskir læknanemar erlendis sem sækja í dýrt nám vegna fárra plássa í Háskóla Íslands hafa fengið afar takmarkaðan stuðning frá Landspítala og Menntasjóði. Á sama tíma og nemarnir eru að fást við þessar stóru áskoranir er talað um læknaskort í íslensku heilbrigðiskerfi. Samband íslenskra námsmanna erlendis fær reglulega inn á borð til sín mál læknanema erlendis, þá sérstaklega í Slóvakíu og Ungverjalandi, sem berjast í bökkum vegna hárra skólagjalda.

Lestu pistilinn í heild sinni hér!


Á heimleið: Búslóðaflutningar

Á heimleið er upplýsingapakki SÍNE er varðar ýmis hagnýt atriði sem gott er fyrir íslenska námsmenn erlendis að huga að við heimkomu, t.d. flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, búslóðarflutningar, greiðslumat, o.fl. 


Öll lokapróf staðin, útskrift handan við hornið og við blasir útrunninn erlendur leigusamningur og flutningur heim til Íslands. Þá er að mörgu að huga, t.d. búslóðinni. Búslóðarflutningar kunna að vaxa mörgum í augum, en ferlið er tiltölulega einfalt og best að vera í góðum samskiptum við flutningafélagið sitt. Fyrsta skrefið er að reikna út magn búslóðarinnar og fá tilboð hjá flutningafélaginu í kjölfarið. Huga þarf að nokkrum skjölum við flutninginn en þar má nefna: 


SÍNE bendir félagsmönnum á að kynna sér vel upplýsingar um búslóðarflutninga hjá Tollstjóraembættisinu hér.

Tollskyldar vörur fluttar inn með búslóð

Greiða þarf gjöld af vörum sem fluttar eru með búslóð til landsins og ekki geta talist vera hluti búslóðar. Ef um tollskyldan varning er að ræða í búslóðaflutningi, ber að greiða tolla og gjöld skv. tollareglum hverju sinni. Tollskyldur varningur er til dæmis bílar á erlendum númerum, bifhjól, bátar, áfengi og hlutir sem fólk hefur verslað erlendis á innan við ári fyrir heimflutning.

Þau sem búið hafa erlendis lengur en í 12 mánuði samfellt eiga rétt á að flytja tollfrjálst inn nýja muni upp að vissri upphæð. Tollstjóraembættið gefur heimild fyrir tollaafgreiðslu. Flytja þarf inn búslóð innan 6 mánaða frá skráningu lögheimilis hjá þjóðskrá til að fá niðurfellingu á tollum á búslóð. Afhending flutningsfélags á búslóð getur farið fram eftir afgreiðslu tollstjóra á tollskýrslu og flutningsgjöld greidd. 

Afsláttur SÍNE félaga af flutningsgjöldum hjá Eimskip

SÍNE félagar njóta 15% afsláttar af flutningsgjöldum hjá Eimskip. Til að þess að eiga rétt á afslættinum þarf félagsmaður að senda upplýsingar um nafn, kennitölu, netfang og flutningsleið til skrifstofu SÍNE. Þegar nafn hans hefur verið skráð á afsláttarlista Eimskips fær hann tilkynningu þess efnis í tölvupósti. Upplýsingar um verð og flutningsleiðir gefur skrifstofa Eimskips í Reykjavík.