Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Desember 2022 – Annáll

Annáll SÍNE árið 2022 

Nú þegar áhrifa faraldursins á ferðalög milli landa gætir minna en á undanförnum starfsárum finnur SÍNE fyrir auknum áhuga á námi erlendis og starfi félagsins. Hátt í 300 núverandi námsmenn eru skráð í félagið og enn fleiri eru í námi erlendis á framfæri Menntasjóðsins. Níu manns eru í stjórn félagsins sem heldur reglulega fundi og vinna að málefnum félagsins á milli funda. Í stjórn SÍNE voru kjörin á sumarráðstefnu í ágúst: Bjarki Þór Grönfeldt (forseti), Númi Sveinsson (varaforseti), Anna Þórhildur Gunnarsdóttir (ritari), Vera Jónsdóttir (gjaldkeri), Ásmundur Jóhannsson (meðstjórnandi), Jóna Þórey Pétursdóttir (meðstjórnandi og lánasjóðsfulltrúi), Nanna Hermannsdóttir (meðstjórnandi), Ragnar Auðun Árnason (meðstjórnandi) og Theódóra Listalín Þrastardóttir (meðstjórnandi). Fimm stjórnarmenn eru í námi erlendis núna en fjórir hafa lokið sínu námi og flutt aftur til Íslands. Það er ágætt að minna á að starf SÍNE er ekki aðeins ætlað núverandi námsmönnum, heldur einnig þeim sem hafa lokið námi erlendis á síðustu sjö árum og vilja vinna að hagsmunum námsmanna. 

SÍNE í 61 ár – Jólafögnuður SÍNE

Í fyrra náðist sá merki áfangi að SÍNE hafði starfað í 60 ár. Vegna samkomutakmarkana var ekki hægt að halda upp á tilefnið en við bætum úr því í ár. SÍNE mun halda upp á 61 árs afmæli félagsins þann 29. desember kl. 20 á Stúdentakjallaranum með pompi og prakt.

Húsið mun opna kl. 20.00 og þá ræðir Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndargerðarmaður við okkur á léttu nótunum um stúdentabaráttu fyrri tíma, til dæmis þegar íslenskir stúdentar í hertóku sendiráð Íslands í Stokkhólmi árið 1970 til að mótmæla bágum kjörum íslenskra stúdenta erlendis. Kl. 21.00 mun Ebba Sig leikkona og uppistandari treður upp og upp úr kl. 22.00 stígur Atli Viðar á stokk og þeytir skífur fram eftir kvöldi. Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér

Öll eru velkomin og vonumst við til að sjá sem flest, þar með talið núverandi, fyrrverandi og verðandi félagsfólk, auk annars áhugafólks um starfsemi félagsins.

Stjórn SÍNE hefur beitt sér með ýmsum hætti fyrir hagsmunum félagsmanna á liðnu ári. Ráðgjafaþjónusta SÍNE er einn mikilvægasti hlutinn í starfs félagsins. Þjónustan hefur verið mikið nýtt í ár en lánasjóðsfulltrúi SÍNE reynir eftir fremsta megni að aðstoða núverandi og tilvonandi námsmenn erlendis í sínum samskiptum við Menntasjóðinn. Þá reynir SÍNE eftir fremsta megni að aðstoða við aðrar fyrirspurnir um nám erlendis, t.d. inntökuskilyrði, aðgangspróf og samskipti við erlenda háskóla. Hægt er að senda fyrirspurnir á sine@sine.is  

Í upphafi árs ákvað stjórn félagsins að taka samfélagsmiðla og heimasíðu félagsins í gegn til að geta betur miðlað upplýsingum til félagsmanna og almennings. Merki félagsins var endurhannað og allt útlit uppfært. Þá byrjaði SÍNE að senda út mánaðarleg fréttabréf um starf félagsins til félagsmanna. Skráðir félagsmenn eiga að vera sjálfkrafa á þeim póstlista, en hægt er að skrá sig á listann neðst á síðunni sine.is

Sæmundur — málgagn SÍNE kom út í september undir ritstjórn Veru Jónsdóttur. Sæmundur er fastur liður í starfi félagsins og var útgáfan í ár einstaklega vegleg. Hægt er að lesa blaðið í ár, og eldri tölublöð, hér.

Í haust bárust SÍNE ábendingar frá félagsmönnum um að vandamál væri með notkun rafrænna skilríkja erlendis. Það er mjög mikilvægt að námsmenn hafi greiðan aðgang að rafrænum skilríkjum til að geta haft stjórn á sínum fjármálum. SÍNE fór á stúfana og tók saman upplýsingar um hvernig leysa megi vandamálið sem má nálgast hér.

SÍNE heldur utan um afsláttarkjör sem félagsmönnum bjóðast. Eitt af því sem bæst hefur við á árinu er að námsmenn sem koma til Íslands í styttri fríum (t.d. sumar og jól) geta nýtt sér afsláttarkjör hjá Strætó. Sjá nánari leiðbeiningar hér

Stjórn SÍNE er í reglulegu sambandi við félög íslenskra læknanema erlendis, enda eru um 20% skráðra félagsmanna SÍNE í læknisfræði. Því miður er staða fjölda þessara námsmanna mjög bágborin gagnvart Menntasjóðnum og þeir fá til að mynda aðeins lánað fyrir hluta skólagjalda. SÍNE sendi frá sér áskorun á stjórnvöld um að bæta hag þessa hóps. Í kjölfarið fóru fulltrúar SÍNE og læknanema í viðtöl í fjölmiðlum, á fund með ráðherra háskólamála og málið tekið upp í stjórn Menntasjóðsins. Að mati SÍNE er einfalt mál að leiðrétta kjör læknanema með breytingum á úthlutunarreglum Menntasjóðsins, sem verða endurskoðaðar í vor. Það eina sem þarf er því pólitískur vilji fyrir breytingum. Við í SÍNE erum vongóð um jákvæðar breytingar í næstu úthlutunarreglum en munum halda áfram að fylgja málinu eftir. 

Þá er lögbundin endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna að fara af stað í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. SÍNE hefur unnið með LÍS og öðrum hagsmunafélögum stúdenta að kröfugerð um breytingar á fyrirkomulagi sjóðsins og gerum við ráð fyrir að sú vinna fari á fullt í upphafi árs. SÍNE telur að umtalsverðar breytingar þurfi að gera á lagaumhverfi Menntasjóðsins til þess að sjóðurinn þjóni tilgangi sínum sem jöfnunartæki og mun beita sér af krafti í þeirri endurskoðun sem er framundan.

Að lokum óskar stjórn SÍNE félagsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs!