Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Apríl 2023

By 01/05/2023maí 4th, 2023Fréttabréf, LÍN fréttir, SíNE fréttir

Barátta SÍNE og læknanema skilar árangri

Á þessu starfsári hefur Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) gert stöðu íslenskra læknanema erlendis að umtalsefni. Meðal annars var send áskorun á stjórnvöld um að bregðast við þeirri óásættanlegu stöðu að námslán frá Menntasjóði námsmanna eru langt frá því að duga fyrir skólagjöldum í sumum af þeim löndum þar sem íslenskir læknanemar sækja sér sína menntun, t.d. Ungverjalandi og Slóvakíu. Þá setti fulltrúi SÍNE í stjórn Menntasjóðsins umræðu um hag íslenskra læknanema erlendis á dagskrá stjórnarfundar í nóvember 2022 og bar upp að skólagjaldalánin yrðu hækkuð. Nú hafa úhlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna 2023-2024 verið birtar og fagnar SÍNE sérstakri hækkun á skólagjaldalánum vegna læknanáms erlendis. Skólagjaldalán sem læknanemum standa til boða eru hækkuð um 1.500.000 kr. Þessi breyting brúar bilið fyrir læknanema í Slóvakíu sem eru gleðitíðindi. Um leið er bent á að þrátt fyrir hækkunina sé mismunur heildarskólagjalda íslenskra læknanema í Ungverjalandi (15.500.000 kr.-) og heildarskólagjaldalána (6.900.000+3.400.000=10.300.000) hjá Menntasjóðnum 2023-2024 rúmlega 5 milljónir króna. Þar af leiðandi standi enn rök til þess að hækka skólagjaldalánin fyrir þann hóp og bent er á að læknanemar erlendis hafa skerta getu til að afla tekna samhliða námi vegna skipulags og lengdar námsársins. Mikilvægi þessarar sérþekkingar er ótvírætt og bindur SÍNE vonir við að fleiri skref verði tekin á næstu árum til að koma til móts við þennan hóp. 

Þá er gleðiefni að tekið var mið af ábendingum fulltrúa SÍNE í stjórn Menntasjóðsins og svigrúm foreldra í námi til einingaskila aukið með úthlutunarreglunum 2023-2023. Nánar tiltekið geta nú báðir foreldrar í námi fengið 22 eininga svigrúm vegna barneigna, en áður þurftu foreldrar í námi að skipta þessu sama 22 eininga svigrúmi á milli sín. Þetta er mikilvægt framfaraskref til að bæta fjárhagslegt öryggi og sveigjanleika fyrir fjölskyldur þar sem báðir foreldrar eru í námi. SÍNE mun halda áfram að beita sér fyrir bættri stöðu foreldra, enda á mörgu að taka.

Um leið lýsir SÍNE yfir áhyggjum af þróun framfærslu námsmanna en hún tekur aðeins vísitölubreytingum sem eru ófullnægjandi, sér í lagi þar sem húsnæðisgrunnur framfærslunnar byggir enn sem áður á leiguverði á stúdentagörðum og að húsnæðisgrunnur hækkaði ekkert í fyrra, hvorki um krónutölu né vísitölu. Fulltrúar stúdenta hafa gert athugasemd við þetta, enda eru einungis um 11-12% stúdenta á görðunum og því tekur húsnæðisgrunnurinn ekki mið af raunverulegum aðstæðum meirihluta stúdenta.

Jafnframt er frítekjumark Menntasjóðs námsmanna enn það lægsta á Norðurlöndunum. Lágt frítekjumark samhliða of lágri framfærslu leiðir til endalauss vítahrings vinnu og náms. Því eru breytingar á úthlutunarreglunum ófullnægjandi að þessu leyti. 

Fyrir hönd SÍNE

Bjarki Þór Grönfeldt, forseti SÍNE

Jóna Þórey Pétursdóttir, lánasjóðsfulltrúi og fulltrúi í stjórn Menntasjóðs námsmanna


Sæmundur 2023 

Lumar þú á snilldar uppskrift frá námslandi þínu? Hvernig er best að spara svo orkureikningurinn rjúki ekki upp úr öllu valdi? Hefurðu reynslu í prófarkalestri?

Ritstjórn Sæmundar auglýsir eftir aðila til prófarkalestrar sem og skemmtigreinum fyrir næstu útgáfu Sæmundar. Nánari upplýsingar veitir ritstjóri Sæmundar á theodora.listalin@gmail.com.

Skilafrestur á skemmtigreinum er 5. maí. 


Fréttir af SÍNE 


Hagstæðustu lán sem völ er á?

Nanna Hermannsdóttir, stjórnarmeðlimur SÍNE, skrifaði ásamt Maríu Sól Antonsdóttur, lánasjóðsfulltrúa Stúdentaráðs Háskóla Íslands (SHÍ), skoðanagrein sem birtist á Vísi.is. Greinina má lesa í heild sinni hér.


Umfjöllun um nýjar úthlutunarreglur Menntasjóðs námsmanna

Jóna Þórey Pétursdóttir, menntasjóðsfulltrúi SÍNE, ræddi nýjar úthlutunarreglur MSNM í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins, en skólagjaldalán vegna læknanáms erlendis hækka um allt að 1,5 milljónir króna.

Hlusta má á innslagið hér að neðan


Yfirtökur á Instagram

Í apríl var Sara Þöll Finnbogadóttir með yfirtöku á Instagram reikning SÍNE (@sambandine). Sara Þöll er meistaranemi í viðhorfskönnunum og gagnavísindum við háskólann í Michigan. Við þökkum Söru kærlega fyrir virkilega fræðandi og skemmtilegt innlit!