Skip to main content

SÍNE bendir á stóraukinn kostnað við heimferðir íslenskra námsmanna erlendis frá

By 01/04/2021SíNE fréttir

Hertar reglur um varnir á landamærum Íslands gegn COVID 19 fela í sér að stór hópur íslenskra námsmanna, sem dvalið hafa við nám erlendis í vetur, mun að líkindum þurfa að dvelja í 5 daga sóttkví á farsóttarhóteli við komuna til landsins. Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) styður þessar lýðheilsuaðgerðir, en vekur athygli á þeim mikla kostnaði sem af þessum og fyrri aðgerðum hlýst fyrir námsmenn á leið frá námslöndum.

Ráðgert er að kostnaður við gistingu og uppihald í sóttkví verði 10.000 kr. á hvert herbergi, hverja nótt, sem bætist við kostnað við öflun PCR vottorðs sem oft kostar 15.000-45.000 kr. á mann. Þannig gæti algengur aukakostnaður hvers námsmanns við að snúa aftur til landsins numið hátt í 95.000 kr. og umtalsvert meiri ef fjölskylda viðkomandi dvelur einnig í námslandi.

Þrátt fyrir að kostnaðinum við gistingu á farsóttarhóteli sé stillt mjög í hóf, þá er ljóst að fyrir námsmenn á afar lágri framfærslu getur hann verið talsvert íþyngjandi. Stjórn SÍNE beinir því þeirri ósk til stjórnvalda að verðskrá farsóttarhótelanna verði að einhverju leyti miðuð við hversu brýnt viðkomandi ferðalag telst og hvort ætla megi að viðkomandi standi auðveldlega undir þeirri upphæð sem rukkuð er.

Ljóst má vera að kostnaður ríkissjóðs af rekstri farsóttarhótelanna verður nokkur og því eðlilegt að gjaldskráin endurspegli mismunandi stöðu þeirra sem þar munu dvelja. T.d. gætu ferðalangar í skemmtiferðum greitt a.m.k. kostnaðarverð. Þannig væri niðurgreiðslu ríkisins fremur beint til þeirra sem mest þurfa á að halda sökum fjárhags og brýnna erindagjörða. Að öðrum kosti telur stjórn SÍNE að auðvelda mætti námsmönnum að standa undir þessum aukna ferðakostnaði með sérstökum ferðastyrk eða auknu ferðaláni í gegnum Menntasjóð námsmanna.

Sjá umfjöllun á mbl.is

Sjá umfjöllun á visir.is