Skip to main content

Samfylkingin hefur svarað SÍNE um námslánakerfið

1. Er það stefna þíns flokks að koma á nýju námslánakerfi? Ef já, munu fulltrúa námsmannahreyfinganna fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi til enda?

  • Já, Samfylkingin styður róttækar breytingar á námslánakerfinu. Við viljum að hluti námslána breytist í styrk að námi loknu að því gefnu að námi sé lokið á tilskildum tíma. Þá viljum við að LÍN taki upp samtímagreiðslur framfærslulána, upphæðir þeirra séu hækkaðar og að frítekjumark sé sömuleiðis hækkað.
    Við teljum brýnt að vinna að breytingunum með víðtæku samráði við hagsmunaaðila, sér í lagi talsmenn lánþega, þ.e. stúdenta.

2. Hvað teljið þið að ætti að vera tilgangur og/eða markmið nýs námalánakerfis?

  • Raunverulegt jafnrétti til náms; óháð efnahag, búsetu, kyni eða fötlun.
    Einnig ætti nýtt námslánakerfi að stuðla að þeirri hugsun að 100% nám sé 100% vinna og stúdentar þurfi ekki nauðsynlega að vinna með skóla til að hafa efni á grunnframfærslu.

3. Hvað teljið þið að séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis?

  • Mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis eru að leiðrétta þær skerðingar sem orðið hafa á framfærslu þeirra á þessu kjörtímabili og fjölga tækifærum til náms erlendis.

4. Hvernig stefnið þið að því að gæta þessara hagsmuna?

  • Við viljum efla samtalið við námsmenn erlendis og námsmannahreyfingar almennt.

5. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að 1/3 af heildarfjárhæð námsaðstoðar frá LÍN verði að styrkjum skilyrðislaust og komið til framkvæmda í síðasta lagi fyrir skólaárið 2018-2019?

  • Stefna flokksins er að styrkir verði ekki alveg skilyrðislausir, heldur séu háðir því skilyrði að nám sé klárað á tilskildum tíma (með vel skilgreindum undanþágum svo sem vegna barneigna eða veikinda). Umræður um hvaða málefni flokkurinn setji sem skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi eru skammt á veg komnar, en innleiðing styrkjakerfis í námslánakerfinu er sannarlega ein höfuðáhersla flokksins í menntamálum.

6. Vill þinn flokkur hafa aukna styrki með skilyrðum, t.d. um að þú setjist að á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins eftir nám?

  • Nei, slíkt fyrirkomulag er ekki á stefnuskrá flokksins, og samræmist illa alþjóðlegri og frjálslyndri hugsjón jafnaðarmanna.

7. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að farið verði í það tafarlaust að endurskoða framfærsluþörf námsmanna erlendis?

  • Ólíklegt er að flokkurinn verði í stöðu til að gera miklar kröfur, en flokkurinn mun berjast fyrir því á þingi enda búið að skerða framfærslu námsmanna erlendis fram úr öllu hófi.

8. Síðustu þrjú ár hefur niðurskurður verið á framfærslulánum og ferðalánum frá LÍN en auk þess hefur frítekjumarkið verið skert. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að leiðrétta skerðingu síðustu þriggja skólaára þannig að framfærslulán til námsmanna erlendis verði aukin á þessu skólaári, 2016-2017, til samræmis við þessa skerðingu?

  • Vísum til fyrra svars og við munum beita okkur fyrir því að þessar skerðingar verði leiðréttar.

9. Er það vilji ykkar að námslán til námsmanna erlendis verði takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum? Ef já, með hvaða hætti?

  • Við viljum sem minnstar takmarkanir á námslánum. Við viljum að fólk hafi sem mest tækifæri til að elta drauma sína.

10. Hvaða vexti vill þinn flokkur hafa á námslánum frá LÍN?

  • Við viljum halda vöxtum óbreyttum.

11. Er það vilji ykkar að hámarksfjárhæð verði á námsaðstoð frá LÍN? Ef já, að hvaða fjárhæð?

  • Það er eðlilegt að það sé einhver hámarksfjárhæð, en við viljum að flestir námsmenn komist í það nám sem þeir vilja.

12. Er það vilji ykkar að námsaðstoð verði einungis veitt upp að ákveðnum einingafjölda? Ef já, að hvaða marki?

  • Við viljum ekki takmarka námsaðstoð við einingafjölda.

13. Munuð þið beita ykkur fyrir því að lántökugjöld verði afnumin af námslánum?

  • Aðalatriðið er að hækka framfærslu námsmanna erlendis og gera fólki kleift að velja það nám sem það vill.