Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – September 2024

By 04/10/2024október 11th, 2024Fréttabréf, SíNE fréttir

Sæl öllsömul, 

til nýrra meðlima SÍNE: Velkomin, gaman að þið skuluð sjá ykkur fært að vera með í félagsskap námsmanna erlendis. 

Til ykkar sem eruð búin að vera meðlimir lengi – sæl aftur, takk fyrir síðast. 

Nú er ný önn að hefjast og fleiri námsmenn komnir á vit ævintýra og drauma. Fram undan er skemmtilegur vetur, við stefnum á að halda jólafund í desember, málþing næsta vor ef fjármagn og tími gefst. Sæmundur, málgagn okkar námsmanna erlendis verður fjölbreyttur og nýstárlegur í ár. 

Mig langar að minna á að við, námsmenn erlendis, erum samferðafólk í ákveðnum skilningi. Sumir velja að stunda nám í HR eða HÍ, finna þar sitt tengslanet og velja sér félagsskap sem endist þeim stundum ævina. Það er þannig sem ég sé SÍNE fyrir mér. Ég vil að við séum tengslanet fyrir hvert annað, að við förum öll sitt hvora áttina, sækjum þekkingu um allan heim en höldum hópinn, höldum uppi umræðum á stafrænum vettvangi, skrifum í Sæmund og hittumst á viðburðum á Íslandi þegar við erum á landinu. Umræðuhópur SÍNE á Facebook má finna hér.

Og munið að ykkur er alltaf velkomið að hafa samband á sine@sine.is. Við tökum á móti fyrirspurnum, greinum, tengjum þið við aðra nemendur á svipuðum slóðum og margt fleira. Ef þú lumar á hugmynd að einhverju sem vantar hjá námsmönnum erlendis, þarf að bæta eða er til en ekki nógu þekkt máttu láta okkur vita.

Þórdís Dröfn Andrésdóttir, forseti SÍNE



Sæl kæru félagsmenn!

Nýtt skólaár er hafið og með því kemur nýr Sæmundur! Blaðið verður með ólíku sniði en fyrri ár en nú ætlum við að prófa að gefa út greinar á netinu með reglulega millibili í vetur sem endar síðan á útgáfu blaðsins í heild. Það er ýmislegt á deiglunni, pistlar frá fyrrum námsmönnum erlendis sem og reynslusögur frá núverandi félagsmönnum. Ég vil því biðla til ykkar að ef þið eruð með skemmtilegar hugmyndir að greinum, myndaseríum, sögum eða bara hvað sem er, að senda það á okkur! Við viljum heyra frá ykkur! Ég er gífurlega spennt fyrir árinu og vona að þið séuð það líka!

Katla Ársælsdóttir, ritstýra Sæmundar


Sara Þöll í framboði!

Sara Þöll, meðstjórnandi SÍNE, er í framboði í stjórn Evrópska ungmennavettvangsins, hún er tilnefnd af Landsambandi ungmennafélaga. Hún hefur tileinkað mörgum árum að sínu lífi til að berjast fyrir réttindum ungs fólk, bæði á Íslandi sem og í Evrópu. Reynslan sem hún hefur fengið — í gegnum LUF, OBESSU og ráðgjafaráð Evrópuráðsins um málefni ungs fólks — hefur mótað hana sem ungmennaaktívista og hlakkar hún til að halda áfram að berjast fyrir réttindum ungs fólks í Evrópu.

Sara brennur fyrir réttindum ungs fólks og þá sérstaklega réttindum þeirra til að taka þátt í kosningum, stjórnmálum og lýðræði, sem og hlutverki óformlegrar menntunar í að auka borgaralega vitund, gagnrýna hugsun og virkja ungt fólk og styrkja ungmennafélög. Sara leggur áherslu á að vernda, auka og styðja við borgaralegt samfélag og styðja við ungmennafélög sem og að taka þátt í samstarfi Evrópska ungmennavettvangsins og annarra félaga þar sem ungt fólk er í fararbroddi. Hægt er að heyra meira um framboðið hennar á sara@youth.is.

SÍNE óskar Söru góðs gengis í framboðinu!


American-Scandinavian Foundation Fellowship styrkir til náms í Bandaríkjunum

Fulbright stofnunin á Íslandi hefur nú umsjón með American-Scandinavian Foundation Fellowship styrkjum til Íslendinga fyrir nám í Bandaríkjunum. Styrkirnir eru ólíkir Fulbright styrkjum, m.a. að því leyti að hægt er að sækja um ASF styrk eftir að nám er hafið.

Skólaárið 2025-2026 verða veittir tveir styrkir að upphæð USD 15.000 til framhaldsnáms eða rannsókna í öllum námsgreinum við bandaríska háskóla. Umsóknarfrestur er 14. október 2024.

Umsókn skal skilað í gegnum rafrænt umsóknarkerfi ASF.  Nánari upplýsingar um ASF styrkina má finna hér.

Athugið breyttan umsóknarfrest! Umsóknarfrestur um American-Scandinavian Foundation Fellowship er 14. október 2024 fyrir skólaárið 2025-2026.  Umsóknarfrestur um ASF styrki hefur verið síðar undanfarin ár . 

Þó að stjórnsýsla sé í höndum Fulbright stofnunarinnar eru ASF styrkirnir ekki Fulbright styrkir og því ekki háðir sömu skilyrðum. T.d. á tveggja ára reglan ekki við, sækja má um styrk eftir að nám er hafið og sækja má um styrk fyrir nám og rannsóknir í læknisfræði og öðrum greinum sem fela í sér samskipti við sjúklinga.

Fyrirspurnir um ASF Fellowship styrki má senda á ensku á adviser@fulbright.is.


Dagur í lífi námsmanna erlendis

Mánudaginn 30. september voru nýir stjórnarmeðlimir SÍNE með yfirtöku á samfélagsmiðlum. Það eru þau Sindri Freyr Ásgeirsson, varaforseti SÍNE, og Arna Dís Heiðarsdóttir, meðstjórnandi í SÍNE, en þau stunda bæði nám við Háskólann í Glasgow. Þau eru bæði í eins árs meistaranámi, en árið samanstendur af þrem önnum, á haust- og vorönn taka þau þrjá áfanga á önn (sex í heildina) og á sumarönn skrifa þau meistararitgerð. Háskólinn í Glasgow var stofnaður árið 1451 og nú stunda 40.000 nemendur nám við hann. Meðal þeirra sem numu við skólann má nefna Adam Smith, faðir kapítalismans, en ein nýjasta bygging skólans er kennd við hann og Arna átti fyrsta tíma sinn þar þennan daginn. 


Mikil áhersla á tungumálanám

Arna leggur stund á rússnesk, Austur-Evrópu og Evrasíufræði ásamt því að æfa körfubolta með háskólaliðinu. Námið hennar er ekki kennt á Íslandi og spilaði það stórt hlutverk í ákvörðun þeirra að halda erlendis í nám, en þau segja að það sé einnig mjög gefandi að stunda háskólanám í útlöndum. Í námi Örnu veldur maður sér landsvæði og tungumál til að leggja áherslu á í náminu, en það er lögð mikil áhersla á skilning á menningu og tungumál hvers landsvæðis. Arna valdi Mið- og Austur-Evrópu og mun hún læra pólsku. Tungumálanámið spilar stóra rullu í náminu og spannar yfir báðar annirnar, þar sem það eru bara þrír áfangar á önn og einn af þeim er tungumálaáfangi.


Spennandi áfangar í boði

Sindri Freyr leggur stund á nám í stjórnmálamiðlun, sem er hluti af stjórnmálafræðideild skólans. Þennan daginn fór Sindri m.a. í tíma í aðferðafræði og stjórnmálasálfræði þar sem fjallað var um tilfinningar og persónuleika í stjórnmálum. Nám Sindra er ekki til á Íslandi og á vel við hann, þar sem lokaritgerð hans frá HÍ fjallaði um hvernig stjórnmálafólk miðlar sínum afstöðum í gegnum fjölmiðla. Hann langaði að halda áfram með það viðfangsefni, þess vegna varð stjórnmálamiðlun við Háskólann í Glasgow fyrir valinu. Fleiri áfangar sem Sindri er í má nefna „Miðlar og lýðræði“ og „Stjórnmálamiðlun einræðisríkja“, sem er mjög áhugaverður áfangi, en þar rætt um í áróður og hvernig upplýsingum er haldið frá borgurum í einræðisríkjum.

Það kom þeim á óvart hvað það eru margir kúrsar í boði (sem eru ekki skylduáfangar), t.d. upplýsingar um vegabréfsáritanir, um starfsframa eftir útskrift, ritgerðarskrif, o.fl. Það er mjög vel haldið utan um nemendur og skólinn reynir að aðstoða með allt á milli himins og jarðar. Um vegabréfsáritunarferlið segja þau að það tímafrekt og kostnaðarsamt, og til að klára ferlið þarf maður að borga sjúkratryggingargjald. Hafi fólk spurningar megi senda spurningar á @arnadish og @sindrifreyra á Instagram.

Háskólinn í Glasgow rekur töluvert af húsnæði á skólasvæðinu, svo það var tiltölulega auðvelt að útvega sér húsnæði. Háskólinn í Glasgow gefur loforð uppá íbúð fyrir framhaldsnemendur í heimavist á skólasvæðinu. Annars fari húsnæðisframboð eftir háskólum í Bretlandi. Í Glasgow er stórt háskólasvæði og þá er gjarnan nóg af húsnæði fyrir nemendur. 

Borgin, háskólasvæðið og stemmingin heilla

Sindri og Arna segja Glasgow mjög vinalega og líflega borg, hún er stærsta borg Skotlands með miklu mannlífi, en veðrið mætti hins vegar vera betra. Í borginni er mikið um tónleika og leikhúsmenningu, og þetta kvöld fóru þau á tónleika með Ásgeiri Trausta í Glasgow. 

SÍNE þakkar Sindra og Örnu fyrir einkar fræðandi og skemmtilega innsýn í líf þeirra í Glasgow í Skotlandi! Yfirtökuna má nálgast í heild sinni á Instagram síðu SÍNE.