Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – September 2022

By 12/10/2022SíNE fréttir

Ávarp forseta SÍNE

Kæri félagsmaður í Sambandi íslenskra námsmanna erlendis

Ný stjórn félagsins var kjörin á sumarráðstefnu 19. ágúst og er skipuð níu stjórnarmönnum sem allir hafa reynslu, þekkingu og metnað fyrir hagsmunabaráttu stúdenta. Stjórnin hefur skipt með sér verkum og nokkrir vinnuhópar tekið til starfa. Þar ber helst að nefna bakhóp um endurskoðun Menntasjóðs námsmanna, en í ár fer fram lögboðin endurskoðun á núverandi lánasjóðskerfi sem var innleitt árið 2020. SÍNE ætlar að beita sér með kröftugum hætti í endurskoðuninni sem fer nú í hönd. Við óskum því eftir að félagsmenn deili sinni reynslu af Menntasjóðskerfinu og komi með hugmyndir af umbótum á því. Við viljum mjög gjarnan fá svör frá sem flestum námsmönnum erlendis í ólíkum aðstæðum: Nemendum í grunn-, meistara- eða doktorsnámi, einhleypum, í sambandi, barnlausum og barnafólki o.s.frv. Þá væri einnig dýrmætt að heyra í nemum frá sem flestum löndum, en aðstæður geta verið mjög ólíkar milli landa og menntakerfa. Við í SÍNE viljum að á Íslandi ríki raunverulegt jafnrétti til náms og ætlum að gera okkar besta til þess að endurskoðuð lög um Menntasjóð námsmanna uppfylli það markmið sem best. Hægt er að hafa samband við okkur á sine@sine.is 

Bjarki Þór Grönfeldt
Forseti SÍNE

Stjórn SÍNE 2022-2023

Ný stjórn SÍNE var kjörin á sumarráðstefnu SÍNE 19. ágúst. Við hvetjum námsmenn til að nýta sér ráðgjafaþjónustu SÍNE, en félagið býður bæði upp á ráðgjöf varðandi námslán og nám erlendis almennt.

Sæmundur – málgagn SÍNE

Sæmundur málgagn SÍNE kom út í vikunni og má lesa hér! Blaðið inniheldur viðtöl, ávarp frá ráðherra, upplýsingar um námslán ásamt fleiri hagnýtum upplýsingum og skemmtilegum greinum fyrir námsmenn erlendis. Við hvetjum alla áhugasama til að lesa blaðið sem og kynna sér starf SÍNE og hagsmunabaráttu námsmanna erlendis.

Rafræn skilríki erlendis

SÍNE hafa borist ábendingar um vandamál við notkun rafrænna skilríkja á farsímum erlendis.

Vandamál:Rafræn skilríki á farsímum virka ekki erlendis

Útskýring: Samskipti með rafrænum skilríkjum eiga sér stað með SMS boðum, ferlið brotnar þar sem viðkomandi fær ekki heimild frá sínu símafélagi til að senda boð til baka þegar hann á að staðfesta persónu sína. Boð berast þannig frá Auðkenni en svar notandans ekki til baka. 

Lausn: Það þarf að tryggja að opið sé fyrir þjónustu sem leyfir sms sendingu frá útlöndum í símanúmerinu sem er tengt við rafrænu skilríkin.


Innan Evrópusambandsins/EES*

  • Reglugerð um alþjóðlegt reiki gerir það að verkum að ef farsími er notaður í öðru landi innan EES á notkun að virka eins og á Íslandi
  • Því er nóg að vera með hefðbundna áskriftarleið, mánaðarlega frelsisáfyllingu eða bara inneign.
  • Opið sé fyrir notkun erlendis**.

Utan Evrópusambandsins/EES

  • Inneign í frelsi EÐA hefðbundin farsímaáskrift þar sem rukkað er fyrir notkun***.
  • Opið sé fyrir notkun erlendis**.
  • Athugið að símafyrirtækið rukkar fyrir notkun rafrænna skilríkja líkt og verið sé að senda SMS frá útlandinu (sjá verðskrá hvers fyrirtækis).Sjá lönd í EES
** Þetta er yfirleitt stillt á mínum síðum hjá símafyrirtækjunum, einnig er hægt að hafa samband við þjónustuver. Athugið að passa að ef opið er fyrir þessar þjónustur þá geta fyrirtækin rukkað fyrir meira en notkun rafrænna skilríkja, t.d. símtöl, hefðbundin sms og netnotkun. Sum fjarskiptafyrirtæki bjóða upp á að loka fyrir netnotkun erlendis, þetta á ekki að hafa áhrif á notkun rafrænna skilríkja.
*** Ekki mánaðarleg frelsisáfylling (sbr. Mánaðarleg tilboðsáfylling hjá Nova, Þrenna hjá Símanum eða RisaFrelsi hjá Vodafone).

Að lokum bendum við á Auðkennis appið sem býður upp á notkun rafrænna skilríkja kostnaðarfrítt hvar sem er í heiminum óháð símafélögum, bæði á íslenskum og erlendum farsímanúmerum, svo lengi sem síminn/spjaldtölvan er tengd við internetið. Enn er verið að innleiða þessa tegund auðkenningar hjá mörgum fyrirtækjum/stofnunum en við vonumst til þess að það verði allsstaðar í boði innan skamms.

Samfélagsmiðlar SÍNE

Yfirtökur (e. takeover) stjórnarmeðlima SÍNE hafa notið mikillar hylli að undanförnu! Vilt þú sýna frá námi þínu erlendis? Hafðu samband við SÍNE á samfélagsmiðlum okkar eða á sine@sine.is !

Við minnum félagsmenn á að fylgjast með starfi SÍNE á hinum ýmsu miðlum!
Facebook: @namsmennerlendis
Instagram: @sambandine
LinkedIn: Samband íslenskra námsmanna erlendis

Instagram yfirtaka SÍNE