Hugvitið heim – málþing SÍNE
Föstudaginn 24. mars hélt Samband íslenskra námsmanna erlendis málþing undir yfirskriftinni „Hugvitið heim“ um gildi náms erlendis fyrir íslenskt samfélag. Fjöldi frummælenda tók þátt í hálfsdags-dagskrá og þrátt fyrir ólíka nálgun hvers og eins á viðfangsefnið var skýr samhljómur í erindum frummælenda: Ísland getur ekki orðið að þekkingarsamfélagi án þess að hafa dyrnar opnar og hleypa inn ferskum vindum að utan. Það felst mikil fjárfesting í því fyrir íslenskt samfélag að ráðast í aðgerðir til að laða fólk aftur heim úr námi.
Ísland verði samkeppnishæft
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra háskólamála, sagði í máli sínu að Ísland skorti sérfræðinga á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem og heilbrigðisstarfólk. Því þurfi að skoða hvaða hvötum hægt sé að beita til þess að fá fólk til að velja Ísland. Staðsetningar skipti fólk með góða menntun æ minna máli og því verði Ísland að vera samkeppnishæft hvað varðar launakjör, tækifæri, fæðingarorlof og framboð fjölbreyttra starfa. Ekki síst er mikilvægt að auðvelt sé að koma hugmyndum sínum sem fæddust í námi erlendis í framkvæmd á Íslandi og beisla þannig kraftinn sem felst í því að koma heim fullur af eldmóði.
Sækjum þekkinguna út, en komum svo aftur heim
Kristján Guy Burgess, alþjóðastjórnmálafræðingur, tók í svipaðan streng og sagði í sínu máli að auðvelda þyrfti fólki að „hafa Ísland sem stað en heiminn sem svið“. Stórauka þurfi aðgengi að því að starfa alþjóðlega á Íslandi, sem gæti t.d. verið aðlaðandi kostur fyrir stúdenta sem eru að ljúka námi erlendis og vilja vinna á sínu sérsviði en fá ekki vinnu við hæfi hjá vinnuveitanda á Íslandi. Fólk komi gjarnan heim úr námi en því mæti ekki aðstaða og tækifæri sem eru í samræmi við væntingar. Ísland þarf á öllum sínum kröftum að halda og það er lykilatriði að fá fólk heim. Sögulega séð hafi fólk sem hafi farið utan, aflað sér þekkingar og komið með hana heim verið hreyfiafl Íslandssögunnar, og nægir þar að nefna Sæmund fróða, Fjölnismenn og Bríeti Bjarnhéðinsdóttur.
Finna á eigin skinni hvernig það er að vera innflytjendur
Umræða varð ekki síður persónuleg heldur en um þjóðhagslegan ávinning. Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, baráttukona gegn fordómum og sérfræðingur hjá Rannís, kom inn á það í sínu máli að nám erlendis gæti verið ein besta leiðin til að draga úr fordómum á Íslandi. Það að vera sjálfur innflytjandi í ókunnugu landi opni augu margra og hafi áhrif út lífið. Sú reynsla auðveldi fólki að setja sig í spor annarra og setja hlutina í samhengi. Þá verða fyrstu kynni margra Íslendinga af fjölmenningarsamfélagi einmitt til í námi erlendis.
Menningarsjokkið mest við heimkomu
Dr. Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, hélt einnig erindi um nám erlendis út frá sjónarhóli háskólasamfélagsins, en hún lærði og starfaði sjálf í Bandaríkjunum, Mexíkó og á Spáni. Margrét sagði að það að afla sér menntunnar sé eitt, en viðhorfin, menningin og fólkið sem maður kynnist sé það sem skiptir mestu máli. Menningarsjokkið við heimkomu sé merki um að við höfum breyst við þessa lífsreynslu. Það er lífsspursmál fyrir íslenskt fræðasamfélag að senda sem flesta námsmenn erlendis. Ísland sé örsamfélag þar sem við höfum meira eða minna öll sömu fyrirmyndirnar og lærum með sömu kennsluaðferðunum. Stöðugt flæði háskólafólks, sem hefur farið út og menntað sig, aftur inn í íslenskt háskólakerfi tryggi að fræðasamfélagið staðni ekki heldur komi inn nýir straumar og stefnur.
Þetta er aðeins stutt samantekt á því sem fram kom á málþinginu. Horfa má á upptöku af því hér:
Styrkir til blaðamennskuþjálfunar
Námsmenn í þessum níu Evrópulöndum: Spáni, Hollandi, Þýzkalandi, Austurríki, Frakklandi, Bretlandi, Írlandi, Ítalíu og Póllandi, geta sótt um að taka þátt í Google News Initiative Student Fellowship, en þeim sem valdir eru til þátttöku býðst að vinna í átta vikur í sumar á fullum launum á fjölmiðli í því landi sem þeir stunda nám í (eða eru nýlega útskrifaðir úr námi í). Nánari upplýsingar má finna á vef Evrópsku blaðamennskumiðstöðvarinnar EJC.
Yfirtökur á Instagram
Í mars voru tvær yfirtökur á Instagram reikning SÍNE (@sambandine). Það voru þær Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur á mennta- og menningarsviði Rannís, og Kolbrún Sonja Rúnarsdóttir, læknanemi í Košice í Slóvakíu. Við þökkum Miriam Petru og Kolbrúnu Sonju kærlega fyrir virkilega fræðandi og skemmtilegt innlit!
Allar yfirtökur má nálgast á Instagram síðu SÍNE @sambandine!