Skip to main content

Framsóknarflokkurinn hefur svarað spurningum SÍNE um námslán

  1. Er það stefna þíns flokks að koma á nýju námslánakerfi? Ef já, munu fulltrúa námsmannahreyfinganna fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi til enda?

Framsóknarflokkurinn vill að lokið verði við endurskoðun laga um LÍN með þeim breytingum sem unnið hefur verið að í þinglegri meðferð málsins. Einnig þarf að hækka frítekjumark, endurskoða reglulega raunverulegan framfærslukostnað í samræmi við aðra launahópa og jafna aðstöðu nemenda óháð búsetu. Hluti námslána verði breytt í styrk og sérstök áhersla lögð á að styrkja iðn- og verknám. Þá geta námsmenn ákveðið að taka eingöngu styrk eða styrk og lán eða jafnvel lán að hluta.

Við skipun stjórnar LÍN er gert ráð fyrir virku og mikilvægu sambandi námsmannahreyfinga við stefnumótun á málefnum LÍN. Framsóknarflokkur styður aðkomu námsmannahreyfinga að stefnumótun á þessu sviði. Samkvæmt lögum skipar ráðherra stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Stúdentaráðs Háskóla Íslands, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra námsmanna erlendis, einn samkvæmt tilnefningu Bandalags íslenskra námsmanna, einn samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra framhaldsskólanema, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra er fer með fjárreiður ríkisins og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður stjórnar og annar varaformaður.

2. Hvað teljið þið að ætti að vera tilgangur og/eða markmið nýs námslánakerfis?

Markmið endurskoðun laga um LÍN er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Í dag er styrkur til námsmanna ógagnsær og mishár þannig að þeir námsmenn sem hæstu lánin taka fá jafnframt hæsta styrkinn. Í námslánakerfinu er því innbyggð mismunun. Einnig er mikilvægt að aðstoð ríkisins í formi lána og beinna styrkja hvetji til bættrar námsframvindu sem skilar auknum þjóðfélagslegum ávinningi. Þá mun endurskoðun laga verða til þess að fjármögnun sjóðsins og fjárþörf verða fyrirsjáanlegri, þar sem óvissuþættir eins og ótakmörkuð upphæð námslána o.s.frv. minnka.

Þá verður hægt að sækja um heimild til að fresta helmingi hverrar endurgreiðslu námslána vegna fyrstu kaupa á íbúðarhúsnæði í allt að 60 mánuði til að auðvelda ungu fólki íbúðarkaup. Við frestun endurgreiðslu er gerð skilmálabreyting og reiknuðum endurgreiðslum lánsins á freststímabilinu bætt við höfuðstól lánsins.

3. Hvað teljið þið að séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis? og  4. Hvernig stefnið þið að því að gæta þessara hagsmuna?

Stefna Framsóknarflokksins og hagsmunir erlendra námsmanna eiga skýra samleið. Framsóknarflokkurinn telur mikilvægt fyrir samfélagið að ný þekking og hugmyndastraumar í greinum háskólastigsins berist jafnt og þétt til landsins. Í þeim tilgangi er mikilvægt að íslenska háskólasamfélagið hvetji nemendur til framhaldsnáms á háskólastigi erlendis. Menntakerfið er ein af grunnstoðum samfélagsins. Framsóknarflokkurinn leggur ríka áherslu á að styrkja það og efla með hagsmuni nemenda sem og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um öflugt menntakerfi er leiðir til hærra menntunarstigs þjóðarinnar, m.a. með aukinni fjölbreytni námsleiða. Þannig má mæta ólíkum þörfum nemenda og að styrkleiki hvers og eins fái notið sín.

5. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að 1/3 af heildarfjárhæð námsaðstoðar frá LÍN verði að styrkjum skilyrðislaust og komið til framkvæmda í síðasta lagi fyrir skólaárið 2018-2019?

Stefna flokksins er skýr, að hluti námslána verði breytt í styrk og sérstök áhersla lögð á að styrkja iðn- og verknám. Þá geta námsmenn ákveðið að taka eingöngu styrk eða styrk og lán eða jafnvel lán að hluta. Þannig sé til staðar sanngjarnar kerfi en nú er.

6. Vill þinn flokkur hafa aukna styrki með skilyrðum, t.d. um að þú setjist að á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins eftir nám?

Það er mikilvægt að fá menntað fólk heim til Íslands sem hefur lært erlendis.

Framsóknarflokkurinn vill að nemendur njóti fulls jafnréttis til náms, m.a. óháð fötlun, getu, búsetu, kyns eða uppruna. Það er því mikilvægt að bjóða fólki upp á að stunda nám, einnig út á landi.

7. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að farið verði í það tafarlaust að endurskoða framfærsluþörf námsmanna erlendis?

Framsóknarflokkurinn hefur og mun áfram leggja höfuð áherslu á jöfn tækifæri allra til náms. Markmið endurskoðun laga um LÍN er að tryggja þeim sem falla undir lögin tækifæri til náms án tillits til efnahags. Þannig þarf að endurskoða hvort núverandi drög að nýju námslánakerfi sé nægjanlega vel til þess fallin, hvað varðar möguleika námsmanna til að stunda nám erlendis.

8. Síðustu þrjú ár hefur niðurskurður verið á framfærslulánum og ferðalánum frá LÍN en auk þess hefur frítekjumarkið verið skert. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að leiðrétta skerðingu síðustu þriggja skólaára þannig að framfærslulán til námsmanna erlendis verði aukin á þessu skólaári, 2016-2017, til samræmis við þessa skerðingu?

Ísland lánar eitt, Norðurlanda, til framfærslu miðað við framfærsluviðmið þess lands þar sem námið er stundað. Önnur Norðurlönd lána samkvæmt framfærslu heimalandsins en bjóða hins vegar upp á annars konar stuðning, t.d. í formi ferðastyrks.

9. Er það vilji ykkar að námslán til námsmanna erlendis verði takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum? Ef já, með hvaða hætti?

Námsaðstoð er veitt til náms sem lýkur með prófgráðu á háskólastigi við viðurkennda háskóla erlendis sem uppfylla sambærilegar kröfur og gerðar eru til háskóla á Íslandi.

10. Hvaða vexti vill þinn flokkur hafa á námslánum frá LÍN?

Vextir af lánum sjóðsins fyrir hvert skólaár skuli vera 2,5% að viðbættu álagi sem jafngildir væntum afföllum af endurgreiðslu námslána. Álag skal ákveðið í úthlutunarreglum hvers árs. Námslán bera vexti frá þeim degi þegar lán er greitt út til námsmanns og skulu vextir greiddir á sömu gjalddögum og afborganir.

11. Er það vilji ykkar að hámarksfjárhæð verði á námsaðstoð frá LÍN? Ef já, að hvaða fjárhæð?

Gert er ráð fyrir að aðstoð sjóðsins hækki úr 92% af framfærsluviðmiði sjóðsins í 100% í níu mánuði ársins. Námsstyrkurinn verður 65.000 kr. á mánuði í alls 45 mánuði sem svarar til fimm hefðbundinna skólaára. Heildarstyrkur getur því numið 2.925.000 kr. miðað við fulla námsframvindu. Fjárhæð námsstyrks tekur breytingum samkvæmt vísitölu neysluverðs. Fyrir sumarnám er greiddur styrkur í þrjá mánuði að því gefnu að lokið sé 20 ECTS-einingum.

Hámark veittrar aðstoðar sjóðsins nemi að frádregnum námsstyrk 15 m.kr., þ.e. með námsstyrk tæplega 18 m.kr.

12. Er það vilji ykkar að námsaðstoð verði einungis veitt upp að ákveðnum einingafjölda? Ef já, að hvaða marki?

Hámarksstyrkur miðast við að lokið sé 30 ECTS-einingum á missiri eða FEIN-einingum eftir því sem við á.

Veitt er námsaðstoð til að hámarki 420 ECTS-eininga eða í sjö ár óháð námsferli en í dag er í úthlutunarreglum miðað við 480 ECTS-einingar en settar eru girðingar varðandi einstök námsstig, t.d. er eingöngu lánað til 180 eininga í grunnámi á háskólastigi.

13. Munuð þið beita ykkur fyrir því að lántökugjöld verði afnumin af námslánum?

Við erum þeirrar skoðunar að LÍN sé heimilt að innheimta lántökugjöld af veittum lánum. Lántökugjöldunum er ætlað að standa undir kostnaði við umsýslu lána, bæði fyrir og eftir veitingu þeirra. Lántökugjöld hjá sjóðnum hafa verið 1,2% af veittu láni.