Skip to main content

Er stefna íslenskra stjórnvalda að fækka námsmönnum erlendis?

By 19/11/2015SíNE fréttir

tveir

Er fækkun námsmanna erlendis hluti af stefnu íslenskra stjórnvalda í menntamálum?

Námsmönnum erlendis sem taka námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) fer fækkandi ár hvert. Hver skyldi vera skýringin á því?

Við sem störfum að málefnum námsmanna erlendis höfum áhyggjur af því að niðurskurður á framfærslu námsmanna sem hefur verið framkvæmdur tvö ár í röð geti haft mikið um það að segja. Ekki nóg með að framfærslan hafi verið lækkuð heldur hafa ferðalán, sem stóðu námsmönnum til boða, verið skorin niður að stórum hluta. Vegna þessa niðurskurðar, sem enn er ekki séð fyrir endann á, hefur þeim fækkað sem líta á LÍN sem valkost við fjármögnun á námi sínu erlendis. Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um framtíðina eru námsmenn því margir hverjir hikandi við að taka ákvörðun um að fara út.

Á tyllidögum tala stjórnmálamenn um mikilvægi þess að íslenskir námsmenn sækji sér menntun utan landsteinana en því miður virðast athafnir ekki fylgja orðum. Nú er kominn tími til að ráðamenn þjóðarinnar sýni að þeir eru að meina það sem þeir segja og að niðurskurði á framfærslu námsmanna erlendis verði hætt og þeim frekar sýndur stuðningur. Þessi mannauður er og verður dýrmætur fyrir land og þjóð um ókomna framtíð. Ef við hlúum vel að námsmönnum erlendis mun það skila sér margfalt til baka í verðmætasköpun sem og ríkara og fjölbreyttara samfélagi.

Í fjölmiðlum var nýlega vakin athygli á því að íslenskir námsmenn sæki í ríkara mæli í erlenda námsstyrki m.a. SU í Danmörku. Opnast hefur gluggi sem auðveldar þeim að fá aðgang að styrkjunum sem áður fyrr var háður strangari skilyrðum. Það er auðvitað jákvætt að námsmenn hafi fleiri möguleika til að fjármagna nám sitt. Það er þó hættulegt að treysta á SU styrkinn. Ekki er hægt að reikna með honum í framtíðinni því hann er háður ákvörðunum danskra stjórnvalda.

Nýverið hóf forsetafrú Bandaríkjanna herferð þar sem hún hvetur bandaríska námsmenn að skoða í meira mæli þann kost að sækja nám sitt utan landsteinana. Hún bendir á að því fylgja augljósir kostir. Það eykur víðsýni, menningarlæsi, tungumálakunnáttu, sjálfsbjargarviðleitni, sjálfstæði, frumkvæði og svo lengi mætti telja. Í Danmörku er það sama sagan. Ráðherra menntamála lýsti yfir að stefna stjórnvalda, fram til ársins 2020, væri að 50% þeirra sem sæki sér framhaldsnám myndu taka hluta þess erlendis. Slíkt  gerist að sjálfsögðu ekki af sjálfu sér, heldur með nákvæmri stefnumörkun yfirvalda og eftirfylgni í formi stuðnings við eigin stefnu. Ef þau lönd, bæði í vestri og austri, sjá greinilegt mikilvægi þess að vinnuafl framtíðarinnar sæki sér þekkingu og lærdóm utan landsteinana hlýtur að vera eitthvað til í því.

Stjórn SÍNE óskar eftir því að mennta- og menningarmálaráðherra, Illugi Gunnarsson, lýsi yfir hver sé stefna stjórnvalda í málefnum námsmanna erlendis. Er ætlunin að fækka þeim um helming? Er æskilegt að flestir námsmenn stundi framhaldsmenntun sína hér á landi? Ef svo er, þá má ekki gleyma að því að stóraukin útgjöld íslenskra háskóla (þ.a.l. stjórnvalda) eru fylgifiskur þess að beina öllum í nám hérlendis. Það er nefnilega ákveðinn sparnaður fólginn í því að beina íslenskum námsmönnum erlendis í nám. Því miður virðist ekki vera hægt að koma auga á stefnu stjórnvalda í menntamálum og því ítrekar stjórn SÍNE: Hver er stefna mennta og menningarmálaráðherra í málefnum námsmanna erlendis?

Stjórn Sambands íslenskra námsmanna erlendis

Dagur Skírnir Óðinsson og Þórður Jóhannsson stjórnarmenn í SÍNE

Grein sem birtist í Fréttablaðinu 19.nóvember 2015