Skip to main content

Fréttabréf SÍNE – Febrúar 2023

Ávarp ritara SÍNE

Kæri félagi í SÍNE,

Áður en ég hélt út til Maastricht í Hollandi í nám var mér sagt að lærdómurinn yrði mikill – en ekki á þann hátt sem ég byggist við. Lærdómurinn sem á sér stað í skólastofunni væri bara brot af þeirri þekkingu sem maður öðlast við nám erlendis. Restin fælist í hinu dagsdaglega, t.d. hvaða mjólk sé best að kaupa eða hvort maður geti greitt með korti (ég komst yfirleitt að þessu á eftir á með fullt fangið af mat og ekkert reiðufé á mér). Það er nefnilega þannig að þó maður fari ekki langt út fyrir landsteinana þá lærir maður ótrúlega margt á því að komast í kynni við aðra menningu (t.d. setja Hollendingar súkkulaðispænir á ristað brauð, þetta fannst mér virkilega framandi). En að öllu gríni slepptu styrkir nám erlendis mann gríðarlega, og alls ekki bara á bókina, heldur þjálfar það þolinmælina, útsjónasemi og sjálfstæðið, t.d. þegar maður pantar tíma hjá lækni og áttar sig á heilbrigðiskerfinu, rökræðir við háskólaskrifstofuna eða leigusalann. Að búa erlendis getur verið þrautinni þyngri. Maður stendur sjálfur í öllu basli, getur ekki hringt í mömmu og pabba til að redda hlutunum, heldur þarf maður sjálfur að semja við leigusalann sem loksins endar með því að hann kemur og málar yfir risastóra grænu myglublettinn sem hafði myndast í loftinu. Hins vegar er ég þakklát fyrir að búa að þessari reynslu. Námið úti kenndi mér seiglu og þolinmæði. Að taka upp tólið og díla við hlutina. Því það er enginn að fara að gera það fyrir þig. 

Þegar þetta ávarp er ritað er ég á leið heim úr vinnu. Á hverjum degi beiti ég þekkingu sem má rekja beint til meistaranáms míns úti í Hollandi, þekking sem ég bjó ekki yfir áður en ég fór út. Ég mæli með því við hvern sem er að láta vaða og fara út. Það er virkilega frelsandi að mæta í nýja borg, nýtt land þar sem þú kynnist svo ótrúlega mörgum og skemmtilegum karakterum, sum vinabönd haldast styrk þrátt fyrir margra ára aðskilnað og eitt stykki Atlantshaf á milli ykkar. 

Það að fara útí nám er ekki bara verkefnaskilin eða lokaritgerðin. Heldur er það einfaldlega að finna réttu mjólkina í búðinni og allt þar á milli. 

Anna Þórhildur Gunnarsdóttir,
ritari SÍNE



Frá vinstri: Unnur Lárusdóttir, ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda, Jessý Jónsdóttir, alþjóðafulltrúi LUF, og Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson, forseti SÍNE.

Fjölmenni á Sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF)

Sambandsþing Landssambands ungmennafélaga (LUF) fór fram í Háskóla Íslands laugardaginn 25. febrúar síðastliðinn. Í ár átti SÍNE hvorki meira eða minna en þrjá fulltrúa á þinginu, þau Bjarka Þór Grönfeldt, forseta SÍNE, Jessý Jónsdóttur sem var í framboði til alþjóðafulltrúa LUF og Unni Lárusdóttur sem var í framboði til ungmennafulltrúa Sameinuðu þjóðanna á sviði mannréttinda. Unnu þær báðar kjörið og óskar SÍNE þeim innilega til hamingju með sigurinn!


Nærmynd af Jessý Jónsdóttur,
alþjóðafulltrúa LUF

Jessý Jónsdóttir er 26 ára og lauk nýverið skiptinámi við Tækniháskólann í Eindhoven í Hollandi. Hún stundar meistaranám í vélaverkfræði við Háskóla Íslands eftir að hafa klárað bakkalárgráðu í verkfræði við sama skóla. Hún hafði ætlað sér að stunda framhaldsnám erlendis þegar heimsfaraldurinn skall á og hún komst hvorki land né strönd… satt best að segja var þó önnur ástæða að baki þessari niðurstöðu: hún var óvænt kjörin inn í háskólaráð sem er tveggja ára skuldbinding og fór það svo að hún varð eftir á fróninu góða. 

„Af hverju EHV?“ spyrja mörg! Og það er engin furða; fæst hafa heyrt af borginni (t.d. lugu flestir vinir Jessýjar að þau væru að fara til Amsterdam þegar þau heimsóttu hana út). Eindhoven er við það að trenda, alveg að fara að detta í tísku, gasalega vogue. Fimmta stærsta borg Hollands, og þar hafið þið það! Philips, raftækjaframleiðandinn, var nefnilega stofnað á bóndabæ þarna í sveitinni sem þá hét Eindhoven.

Svo það var nú þannig að hún gat hjólað í skólann og vinnuna á víxl. Raunar var téður skóli ofsalega góður og krefjandi, eitthvað sem var ekki í kortunum, hún ætlaði sér í smávegis frí. Svo fór sem fór og hún neyddist til að leggja alúð og góða stund á námið (og græddi á því eftir því). 

Síðasta ár var Jessý stjórnarmaður í LUF f.h. SHÍ og gegndi stöðu alþjóðafulltrúa (á meðan hún var fjarri góðu gamni í persónu), en hún var endurkjörin í stjórn, í sömu stöðu, sem tilefning SÍNE nú um helgina. Hún telur sóknarfærin mörg í starfsemi og umsvifum LUF og þá sérstaklega að kynna starfsemina betur fyrir aðildarfélögunum – kynna ungu fólki fyrir þeim fjölmörgu tækifærum sem hægt er að sækja á erlendri grundu og sjá til þess að rödd ungmenna heyrast sem víðast.


Nærmynd af Unni Lárusdóttur, 
ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda

Unnur Lárusdóttir heiti ég og er 25 ára ung kona úr Laugardalnum. Ég ólst upp á Íslandi en þráin fyrir því að fara út og sjá og upplifa heiminn hófst fljótlega eftir að ég hóf nám í Verslunarskóla Íslands. Ég sótti 15 ára ráðstefnu og sumarskóla á vegum Bandaríska sendiráðsins á Íslandi fyrir hönd Íslands, 16 ára lá leið mín í skiptinám til Parma á Ítalíu, 19 ára í lýðháskóla í Danmörku, og tvítug lá leið mín í grunnnám erlendis við University of Amsterdam í Hollandi. Nám mitt, sem ber heitið Politics, Psychology, Law and Economics (PPLE), fann ég fyrir einskæra tilviljun en námið hentaði mér virkilega vel. Ég sérhæfði mig í stjórnmálafræði en fékk góða innsýn inn í hinar greinarnar og lærði að beita mér þverfaglega með þekkingu á öllum þessum sviðum.

Dvölin í Amsterdam opnaði augu mín enn frekar, gerði mig sveigjanlegri, skilningsríkari, og enn metnaðarfyllri fyrir því að gera heiminn að örlítið betri stað, þó það hljómi klisjulega. Í náminu gafst mér færi á að sérhæfa mig í mínum helstu áhugasviðum sem eru jafnréttis- og mannréttindamál, alþjóðamál, og stefnumótun.

Með nýja þekkingu og hæfni í farteskinu þá flutti ég heim til Íslands og fann fyrir brennandi áhuga fyrir því að sameina þessi áhugasvið á einhvern máta. Staða ungmennafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði mannréttinda gerir það svo sannarlega og er ég afar þakklát fyrir traustið sem mér hefur verið sýnt til þess að gegna þessu hlutverki. Meðal minna helstu verkefna verður að sækja sjötugasta og áttunda allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í haust og efla umfjöllun, þekkingu og fræðslu á sviði mannréttinda hér á landi. Það eru mörg verkefni og tækifæri framundan og hlakka ég mikið til þess að sinna þessu verkefni af öllu hjarta.


Yfirtökur á Instagram

Í febrúar voru tvær yfirtökur á Instagram reikning SÍNE (@sambandine). Það voru þau Finnur Richart Andrason, nemi í hnattrænum sjálfbærnivísindum í Utrecht í Hollandi og Vera Jónsdóttir, gjaldkeri SÍNE sem er stödd í Lilongwe í Malaví. Við þökkum Finni og Veru innilega fyrir fræðandi og skemmtilegar svipmyndir frá borgunum þeirra!

Allar yfirtökur má nálgast á Instagram síðu SÍNE @sambandine!