Viðtalið er hluti af röð viðtala sem ritstjóri SÍNE tók við frambjóðendur flokka í komandi Alþingiskosningum en spurningarnar beindust aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði námsmanna og kjörum námsmanna erlendis. SÍNE hafði samband við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann býður einungis fram í einu kjördæmi.
Katla Ársælsdóttir, ritstjóri Sæmundar, ræddi við Svandísi Svavarsdóttur, oddvita Vinstri grænna í Reykjavík suður og formann hreyfingarinnar.
„Hvað vill þinn flokkur gera fyrir íslenska námsmenn erlendis?“
„Um leið og ég hugsa um námsmenn erlendis þá staldra ég við að það eru í raun og veru alls konar hindranir á leiðinni þegar námsmenn íhuga að koma aftur heim. Mér finnst það mikið umhugsunarefni, að það skulu í rauninni vera kerfishindranir þegar það ættu að vera hvatar til þess að fólk komi heim. Við vitum að fólk er að fjárfesta í mjög mikilvægri menntun. Ég vil sérstaklega nefna menntun á heilbrigðissviði en líka í öðrum greinum þar sem væri gríðarlega dýrmætt fyrir íslenskt samfélag að fá fólk til baka. Og fá fólk heim. Til þess að leggjast á árarnar.
Mig langar kannski til að svara þessu þannig að þetta sé tvíþætt: Það er annars vegar umbætur á fæðingarorlofskerfinu og ýmiss konar sjúkratryggingum. Það eru líka ýmis mál önnur sem lúta að því einfaldlega að fara úr einu samfélagi í annað, þar sem við sjáum galla á kerfinu. Síðan er það hin spurningin sem er sú, viljum við gera meira heldur en að ryðja þessum hindrunum úr vegi? Viljum við vera beinlínis með hvata? Til þess að fólk komi heim. Væri það hugsanlegt að það væri að hluta til partur af skattkerfinu? Gætum við verið með hvata sem snerust um endurgreiðslur námslána? Ég held að við þyrftum að setja í gang vinnu við það að greina þessar hindranir, ryðja þeim úr vegi og skoða, í samstarfi við SÍNE, hvaða hvata væri hægt að setja í gang til þess að auka líkurnar á að fólk komi aftur heim. Ég náði reyndar að leggja fram þingmál um þetta mikilvæga verkefni á lokadögum þingsins sem vonandi verður tekið upp aftur á næsta þingi enda mikið hagsmunamál fyrir samfélagið allt.“
„Þannig að telur þú að þau kjör sem er boðið upp á akkúrat núna séu ekki viðunandi?“
„Já, ég nefndi hérna nokkur atriði til dæmis það að umbætur á fæðingarorlofskerfi sem að snúast um það að lyfta botninum því í dag eru nokkur hundruð foreldrar á hverju ári sem eru að fá mjög lágar greiðslur vegna þess að þau hafa verið í námi eða eru í námi. Þau hafa verið erlendis og hafa þá verið utan vinnumarkaðar og þá skiptir máli þá að hækka greiðslurnar upp í lágmarkslaun. Það er sennilega ein besta leiðin til þess að hvetja stúdenta erlendis til þess að koma heim því að við þekkjum mjög mörg dæmi um fólk sem lendir í fjárhagsbasli vegna þess að þau fá ekki greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði og eru þá í raun og veru í afkomuvandræðum þegar þau koma heim. Síðan eru auðvitað dæmi um að fólk lendi í vandræðum út af einhverjum formsatriðum, ritgerðaskilin eru vitlausum megin við áramótin til dæmis og við viljum auðvitað skoða það.
Af því að kjarninn er sá að það eru þúsundir ungs fólks að mennta sig erlendis og vilja koma heim. Þau vilja koma heim og vera partur af íslensku samfélagi og sérstaklega þegar þau eignast börn því við vitum hvaða kosti við höfum hér á Íslandi varðandi uppeldi og menntun og aðbúnað barnafjölskyldna. Og það er einfaldlega þannig að við þurfum að taka betur á móti þessu fólki í staðinn fyrir að hreinlega, eins og kerfið er núna, að bregða fyrir það fæti.“
„Telur þú Menntasjóð námsmanna, í núverandi mynd sinni, þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður?“
„Ég held að það séu miklar áskoranir þarna og ég hef bara verið mjög hugsi yfir því að við sjáum í raun og veru eðlisbreytingu á því hvernig sjóðurinn er notaður, frá því sem var fyrir kannski 20 árum þegar mjög mikill meirihluti stúdenta nýtti lánasjóðinn og var á námslánum frá lánasjóðnum. Nú erum við farin að sjá miklar breytingar þar á. Það er mikið um að fólk sé að vinna samhliða og svo framvegis. Framfærslan er svo lág að fólk er í stórum stíl knúið til þess að sækja sér innkomu annars staðar samhliða náminu. Þetta auðvitað hefur áhrif, á námsframvindu, en það hefur líka áhrif á álag og andlega líðan á meðan námstímanum stendur. Ef það er svo að efnalitlir stúdentar eru frekar neyddir til þess að afla viðbótartekna þá er sjóðurinn ekki að uppfylla hugmyndina um jafnrétti til náms. Og það eru gögn sem sýna okkur fram á það.“
„Sérðu fram á einhverjar endurbætur í Menntasjóðsmálum? Einhverjar svona gagngerar aðgerðir?“
„Ég held að það séu margar aðgerðir sem hægt er að fara í. Og þær þurfa að byggja á þessari grundvallargreiningu, þ.e.a.s. að við höldum okkur við meginmarkmið sjóðsins sem er að tryggja jafnrétti til náms og þar með þurfum við að horfa sérstaklega til þeirra hópa sem að þurfa sannarlega á stuðningskerfi að halda. Vegna þess að það hefur verið einn af okkar styrkleikum í íslensku samfélagi að fólk hefur haft greiða leið að menntun óháð efnahagslegum bakgrunni. Við erum að sjá fleiri og fleiri merki um það núna og það lýtur ekki bara að Menntasjóðnum, heldur líka húsnæðismarkaðnum. Að ungt fólk sem býr við sterkt fjárhagslegt bakland og efnaða foreldra, á greiðari leið inn á húsnæðismarkað og eiga greiðari leið inn í allt kerfið og þetta heitir stéttaskipting. Þetta er í raun og veru eðlisbreyting og ákveðin félagsleg gliðnun sem er að eiga sér stað í samfélaginu. Svo er það líka umhugsunarefni og tengist þessari heildarmynd að fjármögnun háskólastigsins er að dragast aftur úr. Við þurfum að gera betur í að setja tímasetta áætlun í því að verða jafnfætis Norðurlöndunum hvað varðar fjármögnun háskólastigsins. Það skiptir alveg ofboðslega miklu máli að það er menntun og ekki síst menntun á sviði hugvísinda, tungumála, heimspeki, o.s.frv., verður sífellt mikilvægari í ljósi þess að við erum að fara inn í heim gervigreindar. Við þurfum að búa yfir samfélagi sem hefur tryggan og öruggan grunn í gagnrýnni hugsun, mikilli þekkingu á notkun tungumálsins og skilningi á því að tungumálið getur verið margrætt og fjölbreytt. Það er því í mörg horn að líta.
Svo er auðvitað stórmál sem við sjáum að er vaxandi vandamál fyrir ungt fólk hér á landi og fólk sem er að íhuga að koma heim og horfir auðvitað líka til þess að það er umönnunarbil. Það er bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Nú hefur fæðingarorlofið verið lengt í 12 mánuði, en á sama tíma er í raun og veru tímapunkturinn sem börn geta byrjað í leikskóla að ýtast áfram vegna ýmiss konar vandamála sem sveitarfélögin eru að glíma við. Og þessi brú á milli fæðingarorlofs og leikskóla er brú sem verður að klára og hluti af þeirri brú snýst um að það sé á hreinu að leikskólastigið sé lögbundið og að sveitarfélögin beri þar skyldur gagnvart sínum íbúum.
En svo vil ég líka segja svona á jákvæðu nótunum, að ég held að ungt fólk sem er í námi erlendis sé að horfa mjög mikið til samgangna. Það hefur verið, hvort sem það hefur verið í borgunum í löndunum hérna í kringum okkur eða sunnar í Evrópu, vanist þéttu og öflugu neti almenningssamgangna. Það hefur til skamms tíma verið mjög mikill veikleiki hér á Íslandi, hversu strjálar og óáreiðanlegar almenningssamgöngur eru. Áformin um samgöngusáttmálann hér á höfuðborgarsvæðinu og uppbyggingu borgarlínu skiptir líka mjög miklu máli fyrir ungt fólk sem er að koma heim. Að sjá það fyrir sér að geta sinnt fjölskyldulífi, geta verið með börn og geta farið í búð, sinnt störfum, menningu, samveru með vinum í strætó, það er raunverulegur valkostur sem að við erum að fara að sjá á allra næstu árum. Þéttar og öruggar og nútímalegar almenningssamgöngur eru líka kjaramál.“
„Hver er ykkar afstaða til hækkunar á skólagjaldalánum þar sem það er þak sem nemur 7.500.000 milljónum króna og við erum að sjá fram á það að fólk sem er t.d. nemendur í Bretlandi eða eins og læknanemar í Ungverjalandi eru að ná því þaki frekar fljótt?“
„Ég held að ég myndi bara svara því þannig til að svona liggi í hlutarins eðli að það þurfi að meta svona þak á hverjum tíma. Og hvaða áhrif það er að hafa. Frá því að þetta var sett í lög fyrir einhverjum tíma og séð hækkanir, þarf að meta það í sjálfu sér hvort mörkin séu hindrun í því hvaða nám fólk getur valið sér og þetta er sannarlega lán, þannig að það ætti þá ekki að vera hugsað sem bein útgjöld.“
„Hreyfanleiki stúdenta milli landa og tækifæri til náms um allan heim. Hafið þið þetta í huga þegar kemur að alþjóðastefnu og samfstarfi?“
„Ég held að við séum bara mjög meðvituð um það að það er stóraukinn hreyfanleiki ungs fólks. Það er alveg rosalega mikilvægt í heildarsamhenginu að við séum opin fyrir alþjóðlegum straumum og það gerist meðal annars í gegnum fólk sem sækir sér menntun, upplýsingar og reynslu annars staðar í heiminum. Ef Ísland á að vera í deiglunni fyrir alþjóðlega strauma og ef við eigum að vera í fremstu röð meðal háskóla nútímans, sama hvort það eru hugvísindi, menntamál, heilbrigðismál eða loftslagsmál, eða staða kvenna, þá skiptir máli að halda því til haga að fjölbreytt menntun fyrir ungt fólk og þróun samfélagsins eru órjúfanlegir þættir.“
„Hvert er ykkar viðhorf til þess að skattleggja námsstyrki?“
„Ég held að ég svari þessu almennt, það er alveg tilefni til að skoða þessi mörk með það fyrir augum að þau séu sanngjörn.“
„Hverjar eru ykkar skoðanir á tímatakmörkunum á námsárangri, þ.e. að þú færð niðurfellingu ef þú klárar nám á tilsettum tíma?“
„Mér hefur alltaf fundist þetta svolítið vandmeðfarið. Vegna þess að þetta er nálgun sem mismunar fólki eftir félagslegri stöðu. Segjum að ung kona sem er einstæð móðir með tvö börn þar sem annað þeirra er langveikt, og ég geri mér alveg grein fyrir því að það er tekið tillit til alls konar tilvika, en mér finnst þetta vera umhugsunarefni þegar það eru umtalsverðar ívilnanir fyrir fólk sem býr við þær félagslegu aðstæður að geta sett allt annað til hliðar. Það hefur verið styrkleiki okkar háskólakerfis að það hefur verið sveigjanlegt. Og mér hefur fundist það jákvætt, það að fólk hefur getað sótt sér háskólanám fram eftir öllum aldri, og jafnvel í fleiri en einni grein. Þannig að ég vil fyrst og fremst vera með þessi félagslegu gleraugu þegar ég er að svara þessari spurningu og mér finnst að það þurfi að meta það út frá því sjónarhorni.“
Já og nei spurningarnar.
„Viljið þið auka framlag til menntasjóðs námsmanna?“: Já.
„Viljið þið hækka skólagjaldalán?“: Já
„Viljið þið leysa stjórnsýsluhindranir?“: Já
„Viljið þið lækka vaxtaþak námslána?“: Já
„Viljið þið hækka niðurfellingu námslána við námslok?“: Já
„Viljið þið taka upp samskonar lánasjóðskerfi og önnur Norðurlönd?“:
„Sumir sem eru nýbúnir að ljúka námi eru í þeirri stöðu að fara í mjög hátt launað starf og geta þannig borgað til baka, og við höfum talað um vaxtaþak á þeim forsendum að það sé sanngjarnt. Á meðan aðrar greinar og aðrar aðstæður eru þannig að það skiptir mjög miklu máli að fá niðurfellingu. Við erum með takmarkaða fjármuni og maður þarf að hugsa hvernig maður forgangsraðar þeim, þannig að það er punkturinn, það má alveg skoða. Norðmenn hafa gengið lengra en við, nýtt meira hugmyndir sem snúast að því að stúdentar sem ljúka námi og fara í vinnu og koma sér fyrir á fjarlægum slóðum innanlands, að ef þau vinna á svoleiðis svæðum í segjum tvö ár, þá fá þau niðurfellingu. Og það er gert til þess að tryggja að það sé grunnþjónusta á þessum svæðum og þetta er fyrst og fremst notað í sambandi við heilbrigðisstéttir. Þetta fær fólk til þess að hugsa „allt í lagi, ég flyt heim, ég tek tvö ár hérna á þessu svæði og geti svo flutt inn í borgina“. Þá er þetta að borga til baka og samfélagið segir: „já, við þurfum á þér að halda og fellum niður lánin“. Þá þarf að hugsa um byggðarsjónarmiðin, að við þurfum á fólki að halda. Við höfum líka sett fram í okkar kosningaáherslum að við teljum rétt að leggja til niðurfellingu á námslánum til að hvetja til heimkomu þeirra sem leggja stund á heilbrigðisvísinda af ýmsu tagi.“
„Finnst ykkur hlutverk einstaklingsins eða samfélagsins að mennta sig?“:
„Bæði, samstarfsverkefni. Samfélagið þarf á menntun að halda og einstaklingurinn er ekki mikils virði nema í samfélagi við aðra.“
„Er eitthvað sem þú vilt koma á framfæri til háskólanema erlendis í aðdraganda kosninga?“:
„Áfram þið! Notið kosningaréttinn og takið þátt í því að móta samfélagið til framtíðar og það er í ykkar höndum. Ég hef brjálæðislega mikla trú á ungu fólki.“