
Viðtal við Borghildi Gunnarsdóttur
Borghildur Gunnarsdóttir er nýflutt til Tókýó þar sem hún stundar nú meistaranám í verkfræði en það hefur lengi verið draumur hennar að búa þar í landi. Katla ritstjóri hitti hana í gegnum netspjall, þar sem klukkan var fimm síðdegis hjá Borghildi en níu um morgun hjá Kötlu enda er tímamismunur milli Íslands og Japan nokkuð mikill. Þær spjölluðu um flutninga milli heimsálfa, menningarmun á löndunum tveim og margt fleira.
„Hvað kom til að þú ákvaðst að fara í nám til Japans?” spyr Katla, enda ekki á hverjum degi sem maður heyrir af því að fólk haldi í svo langt ferðalag til að stunda framhaldsnám.
„Ég lærði japönsku í menntaskóla og elskaði og fór því í japönsku í Háskólanum. Útaf COVID þá komst ég ekki í skiptinámið sem ég átti að fara í sem hluti af náminu og fór því í verkfræði og kláraði tvær gráður. En mig langaði alltaf að prófa að búa í Japan og ná almennilega tökum á málinu af því þú nærð því ekki heima á Íslandi. Þegar ég sá að það væri verið að bjóða upp á fulla styrki fyrir meistaranámi úti í Japan þá varð ég að sækja um í verkfræði þar. Það var aðalástæðan, að ná almennilegum tökum á tungumálinu” segir Borghildur.
„Það er ekkert verra að Japanir eru mjög framarlega þegar kemur að verkfræði. Toyota fann eiginlega bara upp iðnaðarverkfræði og þar er grunnurinn minn. Það heillaði mig alveg og það eru margir í kringum mig í verkfræðinni sem fannst þetta sniðug blanda, japanska og verkfræði. Það mun alveg hjálpa mér að hafa góð tök á japönskunni þegar kemur að verkfræðitengdum vinnum.”
Aðalstressið er að Japan er langt í burtu
Að flytja til Japan er hægara sagt en gert og því fylgir meiri pappírsvinna en að flytja til margra annarra landa. Katla spyr hvernig Borghildi fannst flutningarnir og hvernig ferlið er þegar sótt er um Visa í Japan.
„Ég verð að viðurkenna að það var stressandi” segir hún en bætir síðan við: „en vegna þess að ég er nemandi sem er á styrk frá ríkinu þá var japanska sendiráðið á Íslandi alveg ótrúlega hjálplegt. Þau héldu svolítið í hönd mína þegar kom að Visa umsókninni. Það tekur tíma og er stressandi. Þegar þú sækir um Visa þá þarftu til dæmis að taka fram hvar þú ætlar að búa og á þeim tíma var ég ekki komin með húsnæði hér úti en það var óþægilegt. Aðalstressið er að Japan er langt í burtu. Þetta er ekki eins og að flytja til Danmerkur, ef þú gleymir einhverju þá er ekkert mál að redda því, annað en hér.
Ég bý á heimavist á vegum skólans en ég hefði frekar viljað vera í eigin íbúð, en þú getur eiginlega ekki fengið íbúð ef þú ert ekki í landinu. Þú þarft að vera á staðnum og fólk þarf að getað horft í augun á þér. En ég fékk þessu herbergi úthlutað og ég vissi ekki almennilega hvar það væri í borginni, því ég þekki bara miðborg Tókýó. Ég fattaði strax að þetta var fremur langtí burtu og það var frekar yfirþyrmandi að þekkja ekki hverfið,” segir hún og bætir viðað fyrirkomulagið á leigumarkaðnum í Japansé ólíkur þeim sem við erum vön hér á landi: „Hér þarftu eiginlega að leigja allt sem þúsnertir, ég leigi til dæmis dýnuna í rúminu sem ég sef í. Þannig ég ákvað að ferja sængur og rúmföt með mér svo ég þyrfti ekki að leigja það líka. Flutningarnir voru alveg stressandi, aðallega vegna fjarlægðarinnar og hvað þetta var langt ferðalag, ekki bara í loftinu heldur líka ferðalagið í þetta hverfi sem ég þekkti ekki” segir hún.
„Hvernig finnst þér að vera svona langt frá heimahögum?”
„Þetta er í fyrsta skipti sem ég bý alveg í öðru landi. Ég hef unnið í Danmörku og ég hef komið hingað í langt ferðalag, alveg þrjá mánuði, þannig ég hef verið að heiman. En það er svolítið öðruvísi að búa hérna. Það er aðallega erfitt með svona mikinn tímamismun (sem eru 9 klst). Annaðhvort þarf fólk að hringja í mig áður en það fer í vinnuna og ég er þá kannski ennþá í skólanum og stundum er ég vakandi langt fram á nótt svo ég geti talað við fjölskylduna mína. Sem er svolítið erfitt. En annars þá finnst mér æðislegt að vera komin hingað af því það hefur verið draumurinn minn svo lengi að búa hérna og það hjálpar til.”
„Þú ert með gráðu í japönsku – varstu altalandi á japönsku áður en þú komst? Ef ekki, hvernig hefur verið að læra tungumálið?”
„Ég er ennþá svolítið ryðguð. Ég er með heila gráðu í þessu tungumáli og finnst þess vegna að ég eigi að vera betri í því en ég er. Það er alveg frústrerandi. En ég er alveg altalandi í því sem ég kalla Starbucks-japanska. Ég get pantað mér mat og drykki og ég get farið með fötin mín í hreinsun og bent afgreiðslufólkinu á blettina og eitthvað þess háttar. En það er ekki töluð mikil enska hér sem hjálpar manni og neyðir mann í að ná tungumálinu. Fólk er ekkert að tala við þig á ensku, þau tala bara við þig á japönsku. Það er kannski miðsvæðis í Tókýó og á túristastöðum þar sem enska er töluð. En þar sem ég bý næstum því upp í sveit hér í Tókýó þá er fólk ekki mikið að nota enskuna.”
„Hvað fannst þér vera mesta menningarsjokkið við það að flytja til Japan?”
„Ég verð eiginlega að segja þérunarmenningin. Ég vissi alveg af henni áður en ég kom og ég var búin að læra um þetta í skólanum, að fólk sé þérað. En það er svolítið annað að vera á staðnum og upplifa það og þurfa að gera sjálf. Það er líka mikið lagt upp úr valdastrúktúrum hérna. Eins og á rannsóknarstofunni þar sem ég vinn, ég er fyrsta árs meistaranemi og því er ég þannig séð frekar neðarlega í goggunarröðinni, ég er bara fyrir ofan BA nemendurna. Þess vegna þarf ég að sýna þeim sem eru lengra komnir í náminu en ég, annars árs meistaranemum og doktorsnemunum, ákveðna virðingu með því að þéra þau og tala mjög kurteisislega til þeirra. En síðan er ég eldri heldur en flestir á rannsóknarstofunni, ég er eldri en flestir doktorsnemendurnir til dæmis. Hér er mjög sjaldgæft að taka sér námspásu á milli grunnnáms og meistaranáms og vinna í einhvern tíma. Í Japan á að klára nám innan tiltekins tímaramma. Þannig ég er eldri og því eiga margir erfitt með að staðsetja mig í goggunarröðinni, þeim finnst mörgum mjög ruglingslegt að ég sé eldri en samt styttra komin í náminu.”
„Hvað kom þér mest á óvart?”
„Þessi kurteisismenning var alveg sjokk. Afgreiðslufólk útí búð þérar mig, sem mér finnst alltaf ótrúlega skrýtið. En svo eru það lestirnar. Japan er ótrúlega kurteist land en öll kurteisi gleymist þegar það kemur að lestinni. Þegar það er háannatími þá ýtir fólk hvort öðru, olnbogar sig í gegnum örtröðina. Það ætlar að komast í þessa lest og gerir allt sem þau geta til þess. Það er ekki verið að biðjast afsökunar og yngra fólk er ekki að standa upp fyrir eldri konum eða neitt slíkt. En samt má ekki tala í lestinni. Þar er línan dregin. Ég mun olnboga þig í magann en ekki svara í símann. Svo olnbogar þú þig bara út þegar það er komið að stoppinu þínu. Þetta er algjör martröð. Ég reyni að komast hjá því að taka lestina á þessum tíma. Ég næ því yfirleitt en ef ég er búin í skólanum á sama tíma og fólk er á leið heim úr vinnunni þá fæ ég mér kvöldmat á lestarstöðinni og bíð eftir því að mesta örtröðin sé liðin hjá. Ég er búin að sætta mig við það að vera frekar lengur á leiðinni heim á ákveðnum dögum. Ég nenni þessu ekki. Svo er rosa mikil yfirvinnumenning í Japan. Þú ferð ekki heim á undan yfirmanni þínum. Ef yfirmaðurinn þinn vill ekki fara heim þá ert þú ekki að fara heim. Það er líka mikil drykkjumenning. Ef að yfirmaðurinn þinn segir að þið séuð að fara í drykki eftir vinnudaginn, þá er fátt annað í boði. Það kom mér líka svolítið á óvart, hversu mikið er drukkið. Á Íslandi myndi þetta líklega kallast alkóhólismi, það sem þeim finnst vera venjuleg drykkja á venjulegum degi. Áfengi er geymt á rannsóknarstofunni minni, nemendur fá sér gjarnan áfengi ef þau eru að vinna frameftir. Bara til að vera með einhverja gulrót held ég, en ég vil helst vera komin heim áður en að viskíflaskan er tekin úr frystinum. Ég er persónulega ekki að fara að fá mér viskístaup á mánudegi” segir Borghildur.
Meðvituð um að það kann að vera erfitt að vera útlendingur í Japan
Borghildur segir að ferðatíminn frá Íslandi sem og tímamismunurinn séu það erfiðasta við búsetuna í Tókýó. „Ég myndi líka segja að það alveg erfitt að kynnast fólki. Ég er allavegana ekki að búast við því að kynnast mörgum Japönum fyrir utan rannsóknarstofuna. Og þau eru ennþá að venjast mér, hvað ég er hávaxin og ólík þeim. Þú þarft alveg að leggja þig fram til að eignast vini. En reyndar er umsjónarmaður heimavistarinnar mjög duglegur að hóa okkur erlendu nemendunum saman og skipuleggja eitthvað. Síðan hvetur leiðbeinandinn minn mig mjög mikið að tengjast annarri erlendri stelpu sem er með mér í náminu, hann vill helst að við séum bestu vinkonur. Ég held þau séu mjög meðvituð um að það geti verið erfitt fyrir útlendinga að vera hérna” segir Borghildur. Margt hægt að gera þó maður sé nemi.
Aðspurð hvað sé það skemmtilegasta við að búa í Tókýó segir Borghildur að það sé alltaf eitthvað að gera hérna og borgin sé mjög lifandi. „Það er allt opið nánast allan sólarhringinn. Þú getur í rauninni gert allt sem þér dettur í hug og það kostar ekkert mjög mikið heldur. Það er gaman að gera fjölbreytta hluti og maður á alveg efni á því þó maður sé nemandi. Yen-ið er mjög veikt á miðað við íslensku krónuna þannig það er ekki mjög dýrt fyrir mig að búa hérna. Síðan er ég algjör menningarnördi og mér finnst ótrúlega gaman að rölta um hverfið mitt og sjá öll gömlu litlu hofin sem eru úti um allt. Það er allavegana skemmtilegast núna. Fyrir utan skólann auðvitað” segir Borghildur og hlær. Hawaii Japans og stórt Ísland. Það er ótrúlega margt merkilegt sem hægt er að skoða í Japan utan höfuðborgarinnar en landið býr yfir mikilli fjölbreytni, bæði á sviði menningar og landslags.
Aðspurð hvort hún sé með drauma áfangastað í til að heimsækja í Japan segir Borghildur að margir staðir komi til greina en drauma áfangastaðirnir séu tveir um þessar mundir. „Það er Okinawa sem er oft kallað Hawaii Japans. Þar langar mig að liggja á ströndinni og sóla mig. Síðan langar mig að leigja bíl og keyra til Hokkaido sem er í norður Japan. Það er svolítið eins og stórt Ísland, það verður mjög kalt þar og ekki eins heitt á sumrin og í Tókýó. Þar er rík frumbyggjamenning sem ég væri til í að kynna mér. Mig langar helst að fara þangað að vetri til af því þá er stór vetrarhátíð sem væri mjög gaman að fara á” svarar Borghildur.
„Ertu með ráð fyrir fólk sem langar að fara í nám til Japan?”
„Sækið um. Skoðið skólana vel og nákvæmlega hvar þeir eru. Þú nennir ekki að festast hvar sem er. Og skoðið styrkina! Það eru ótrúlega margir styrkir fyrir fólk frá Skandinavíu til að læra hér í Japan. Kýla á þetta!”