Ég er ein af þessum týpum sem vissi ekkert hvað ég vildi með lífið. Satt best að segja veit ég það ekki enn. Mér tókst samt einhvern veginn að enda akkúrat á þeim stað sem ég á að vera, og langar að segja aðeins frá því, því ég er viss um að það eru ráðvilltir námsmenn þarna úti sem kannski þurfa að heyra af okkur sem fórum smá krókaleiðir á námsferlinum.
Eftir útskrift úr menntaskóla, vorið 2011, var ég mjög týnd. Ég vann í leikskóla í 9 mánuði og fór svo til Danmerkur í lýðháskóla í nokkra mánuði. Tók síðan tæpt ár í þjóðfræði í HÍ, en fann mig alls ekki þar og fór þá aftur að vinna í leikskólanum. Eftir þetta seinna tímabil þar neyddist ég til að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að það færi mér afskaplega vel að vinna með börnum. En leikskólakennari vildi ég ekki verða, og haustið 2014 skráði ég mig í uppeldis- og menntunarfræði, bara svona til að gera eitthvað. Um sama leyti kynntist ég stráki, og á fyrsta deitinu okkar tilkynnti ég honum að ég stefndi að því að fara til útlanda í meistaranám. Sú fullyrðing var þó meira í kjaftinum á mér en nokkuð annað, eitthvað sem ég ímyndaði mér að töff og spennandi týpur segðu um framtíðarplönin sín. Það virtist í það minnsta virka fínt í þessu tilfelli, því strákurinn varð fljótt kærasti og sambýlismaður.
Deitið þarna um árið dró einnig fleiri dilka á eftir sér en sjálfa ást lífs míns, því þegar líða tók að útskrift minni úr BA náminu, vorið 2017, fór hann að spyrja mig hvernig væri með þessi plön mín um nám erlendis. Hann hafði sjálfur tekið sitt meistaranám í verkfræði í Danmörku 2010-2012, en var á þessum tíma mjög til í að færa sig eitthvað út aftur. Eftir nokkur vinaleg spörk í rassinn druslaðist ég því til að byrja að skoða nám. Ég vildi flytja til lands þar sem hægt væri að læra tungumálið sæmilega auðveldlega, ekki lengra en fjögurra klukkustunda flug til Íslands og með lág eða engin skólagjöld. Því komu eiginlega bara norðurlöndin til greina, og þegar ég fór að skoða þetta fann ég tvö áhugaverð prógrömm, annað í Aarhus í Danmörku, og hitt í Uppsala í Svíþjóð. Ég sótti um bæði. Mig langaði miklu meira að búa í Svíþjóð, en var mun spenntari fyrir náminu í Aarhus. Valið var þó á endanum tekið af mér, því ég komst ekki inn í námið í Danmörku (mér til talsverðs áfalls, enda hélt ég að ég væri með skothelda umsókn, en það er svo önnur saga…). Því varð úr að við seldum íbúðina okkar, kærastinn fann sér vinnu og við fluttum síðsumars til Uppsala, borgar sem við höfðum aldrei komið til áður, með mjög ómótað „fimm ára plan” í farteskinu.
Við höfðum tekið litla íbúð í fallegu hverfi miðsvæðis á leigu, og féllum undir eins fyrir þessari litlu og krúttlegu, en líflegu borg. Kærastinn byrjaði að vinna og bjargaði sér á sinni fínustu blandinavísku, og lífið lék í raun við okkur. Að öllu leyti nema því að mér drepleiddist í skólanum.
Námið sem ég byrjaði í hét Sociology of Education, og þegar ég var búin að fara í nokkra tíma mundi ég hvað mér finnst félagsfræði leiðinleg. Og nú voru góð ráð dýr. Það eina sem var á hreinu var að við vorum ekki á leiðinni til baka með skottið á milli lappanna. Ég tók því að sækja um störf, því ég vissi að ég gæti ekki pínt mig áfram í þessu námi sem mér fannst svona leiðinlegt. Eftir atvinnuleit sem ég viðurkenni að var strembnari en ég hélt (ég reiknaði fastlega með að geta gengið inn í starf á leikskóla með mína menntun og starfsreynslu, en það var aldeilis ekki), fékk ég á endanum starf sem frístundaleiðbeinandi og stuðningsfulltrúi í grunnskóla í bæ nálægt Uppsala, þar sem ég byrjaði strax um miðjan nóvember. Ég talaði auðvitað enga sænsku, en var með ágætan bakgrunn í dönsku þannig að það kom nokkuð hratt. Ég nýtti líka tímann og giftist kærastanum og við keyptum okkur íbúð í Uppsala um vorið.
En ég vissi líka að ég hafði ekki flutt til Svíþjóðar til að vinna á frístundaheimili, og ákvað því að gera aðra tilraun við meistaranám í Svíþjóð. Heppilega er Uppsala ekki nema 45 mínútur frá Stokkhólmi með lest, þannig það opnaði á möguleika minn að sækja nám þangað. Ég rambaði því á námsleið í Stokkhólmsháskóla sem hét International and Comparative Education (sem ég skil ekki hvernig ég missti af þegar ég var að sækja um ári fyrr!), og blessunarlega komst ég inn. Eftir heitasta sumar allra tíma byrjaði ég því í námi í Stokkhólmi. Ég fann strax að þetta átti miklu betur við mig. Námsefnið var skemmtilegra, bekkurinn minn samheldinn og hress og allt var aftur á réttri leið. Og því ekki að nýta tækifærið þegar allt stefnir í rétta átt í að hlaða í krakka. Því það var einmitt það sem við gerðum. Ég rétt náði að klára fyrsta árið í náminu áður en ég var hætt að geta rakað á mér lappirnar, og í sumarlok 2019 fæddist dóttir okkar. Það þýddi auðvitað aðra pásu frá námi. Veturinn 2019 og vorið 2020 var ég því í fæðingarorlofi. Það var svo lán í óláni fyrir mig að þegar ég tók upp stúdíurnar að nýju haustið 2020 var auðvitað öll kennsla komin á netið, enda þýddi það að ég slapp við ferðalagið milli Stokkhólms og Uppsala þegar ég þurfti að fara í tíma. Dóttirin var svo sem í leikskóla (en börn í Svíþjóð eiga rétt á leikskólaplássi frá því daginn sem þau verða 1 árs), en þetta einfaldaði lífið þó talsvert að þessu leyti. Ég kýldist svo í gegnum meistararitgerðina mína á og útskrifaðist loksins loksins með M.Sc. í International and Comparative Education í júní 2021, næstum fjórum árum eftir að við fluttum til Svíþjóðar.
Og hvað nú? Í miðjum heimsfaraldri höfðum við ekki nokkurn áhuga á að flytja aftur til Íslands. Maðurinn minn var kominn með nýja vinnu, við höfðum keypt aðra íbúð og mig langaði að láta á það reyna að finna mér vinnu við hæfi í Svíþjóð. Þannig að eftir útskrift fór ég auðvitað að vinna sem… móttökuritari á dýraspítala. Já, það var víst ekkert gengið inn í hvaða starf sem var með gráðu í alþjóðlegri samanburðarmenntunarfræði, ótrúlegt en satt. En allt leiðir auðvitað eitthvert. Sænskukunnátta mín, sem þarna var þó orðin nokkuð góð þótt námið hefði allt verið á ensku, jókst til muna. Það var svo fyrir einskæra tilviljun að ég rakst á atvinnuauglýsingu sem sænsk kunningjakona mín deildi á facebook. Það vantaði nefnilega verkefnastjóri námsbrautarinnar International and Comparative Education við Stokkhólmsháskóla!
Þannig ég ákvað að sækja um. Ég uppfyllti þó eiginlega engar hæfniskröfur, aðrar en þær að ég var með háskólapróf, og talaði reiprennandi sænsku og ensku, og hafði vissulega bæði stundað námið og verið international student sjálf. Það kom mér því talsvert á óvart þegar ég fékk boð í viðtal, en ábyggilega ekki eins mikið og það kom atvinnurekandanum á óvart að ég skartaði glæsilegri 18 vikna óléttubumbu þegar ég mætti í viðtalið. Ég hafði auðvitað ekki nokkra trú á að ég fengi starfið, en það er hér eins og annars staðar að það hjálpar alltaf að þekkja aðeins til, því sú sem var verkefnastjóri þegar ég var að læra mundi eftir mér, og þó við hefðum ekki átt nein samskipti á sínum tíma agiteraði hún mikið fyrir því að einhver sem þekkti námið frá nemendahliðinni yrði ráðin. Það, ásamt gríðarlegum persónutöfrum mínum (eða eitthvað, ég þyrfti kannski að spyrja yfirmann minn að því) gerði útslagið.
Þannig kom það til að í mars 2022, komin rúmar 20 vikur á leið með barn númer tvö, byrjaði ég í skemmtilegustu, mest gefandi og áhugaverðustu vinnu sem ég hef nokkru sinni haft. Ég fór í fæðingarorlof í júní og sneri aftur í mars 2023 og er þar enn, kátari en nokkru sinni fyrr. Á engum tímapunkti lífsins hefði mig grunað að ég hefði brennandi áhuga á alþjóðavæðingu háskólakerfisins, ég sem ætlaði að verða þjóðfræðingur og svo að vinna með minnstu börnunum. En hér er ég og get ekki beðið eftir að halda áfram að þróast og þroskast innan þessa geira. Við erum núna að sigla í sjö ár í Svíþjóð. Keyptum okkur draumahúsið fyrir tveimur árum, maðurinn minn er kominn með frábæra stöðu í vinnunni, dæturnar blómstra í leikskólanum og akkúrat núna finn ég lyktina af sýrenurunnunum lauma sér inn um stofugluggann. Ég vil hvergi annars staðar vera.
Ég efast ekki um að það eru fleiri svona fiðrildi eins og ég þarna úti. Stundum vildi ég óska þess að ég væri eins og ástkær eiginmaður minn, sem ákvað það á grunnskólaaldri að hann vildi verða verkfræðingur, og varð svo verkfræðingur, og vinnur sem verkfræðingur. En ég held samt að heimurinn þarfnist fólks eins og mín eins mikið og það þarfnast fólks eins og hans. Fólks sem veit ekkert hvað það vill, en endar samt á hárréttum stað.