Skip to main content

„Svo eftir á muntu rómantísera þetta tímabil í döðlur”

Viðtal við Fjölni Gíslason og Vilhelm Þór Neto.

Á sólríkum eftirmiðdegi hitti Katla, ritstjóri Sæmundar, vinina, leikarana og áhugakokkana Fjölni Gíslason og Vilhelm Þór Neto yfir kaffibolla á Kaffi Vest. Þar ræddu þau ýmislegt er varðar leiklistina, hversdaginn í útlöndum og margt fleira. Fjölnir og Villi hafa brallað ýmislegt síðastliðin ár, báðir hafa þeir leikið í fjölbreyttum verkefnum, bæði á sviði og í sjónvarpi en þeir vinirnir halda einnig úti vinsælu hlaðvarpsþáttunum Já ok! þar sem þeir fjalla um fjölbreytta kima íslenskrar sögu á skemmtilegan máta. Þeir kynnast fyrst þegar þeir byrjuðu saman í bekk í Copenhagen International School of Performing Arts, þar sem þeir útskrifuðust báðir með BA gráðu í leiklist. Fjölnir og Villi eiga margt fleira sameiginlegt en leiklistina. Þeir eru pottamenn báðir, Fjölnir er þó mikið meiri sundmaður og Villa þykir gaman að lesa og segir að Goodreads sé sitt Strava.

„Hvað kom til að þið fóruð í CISPA?”

Villi ríður á vaðið: Ég var endanlega búinn að gefast upp á LHÍ. Ég var tvisvar búinn að komast í lokahóp en komst ekki inn. Eftir það þá bara nennti ég þessu ekki og fór í prufur í aðra skóla. Pabbi minn þrýsti mikið á mig að fara í prufur í CISPA og ég fór í þær. Eftir að hafa upplifað prufuferlið var þá var ég mjög sáttur, ákvað að ef ég kæmist inn þá færi ég í þennan skóla. Ég var svo ánægður með prufuferlið.”

„Pabbi þinn uppgötvaði CISPA á undan þér?” spyr Fjölnir og Katla bætir við: „Hvað kom til? Hvernig vissi hann af honum?”

„Hann var bara alltaf eitthvað að lesa sig til og hafði farið til Köben stuttu áður og elskaði Köben og við erum dálítið svipaðir” segir Villi en pabba hans þótti gaman að getað heimsótt Villa til Kaupmannahafnar, sem og systur hans en hún býr þar um þessar mundir.

Fjölnir segir að hann hafi endað í skólanum af hálfgerðri slysni. „Ég var í fríi í Kaupmannahöfn yfir Verslunarmannahelgina. Ég hafði reynt þrisvar við LHÍ og hafði líka reynt við skóla í London. Það var lítið að frétta nema í nokkrum skólum í London þar sem að ég var oft að komast í lokahópinn en fá síðan ekki inngöngu. Það er mannskemmandi dæmi. Ég var eiginlega byrjaður að stefna á að fara í skóla úti í London en svo fór ég í frí til Köben, fór að hitta systur mína sem var sjálf í fríi þar. Ég var að velta því fyrir mér hvort ég ætti að fara út til hennar eða fara á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Á meðan ég var úti frétti ég af þessum prufum í CISPA og ætlaði fyrst ekkert að fara. En síðan hugsaði ég að þetta væri ágætis æfing fyrir prufurnar í London, halda mér heitum og svona. Þannig ég sótti um og prufan var daginn eftir. En af því að ég ætlaði mér ekkert að komast inn þá var ég svo slakur í prufunni, þá meina ég rólegur á taugum. Ég var ekki arfaslakur en mér leið bara vel og var eiginlega bara að leika mér. Þá gerðust einhverjir töfrar.

Mér fannst prufurnar líka frábærar og ég fékk það strax á tilfinninguna að þetta væri ekki beint hinn týpíski akademíski leiklistarskóli. Þetta nám yrði líkamlegra. En já svo bara blessunarlega komst ég inn og þá held ég að það hafi verið tvær vikur í að skólinn ætti að byrja. Þannig ég sagði upp leigunni, seldi bílinn minn og hætti í Borgarleikhúsinu en ég vann þar sem ljósamaður. Síðan var mikið traust lagt í mann” bætir Fjölnir við. „Við fengum til dæmis lykil að skólanum, við þurftum ekki að vera farin fyrir einhvern ákveðin tíma eins og er oft í öðrum skólum.” Strákaranir segjast oft hafa æft langt fram eftir nóttu og jafnvel brugðið á það ráð að gista í skólanum þegar svo var.

„Hvernig var inntökuferlið í skólann?”

„Það var bara mikið verið að leikstýra manni áfram. Það var mjög mikið verið að hlusta” segir Villi. „Fyrir fólk sem hefur farið í prufur í London, þá er fyrsta roundið, ég veit ekki hvort það hefur breyst þar sem mikið af prufunum eru nú í myndbandsformi. En ég man bara í fyrstu roundunum, prófdómararnir gátu ekki verið meira sama um þig. Það var svo oft sem að mér leið eins og það væri varla verið að hlusta á það sem ég var að segja.”

Fjölnir líkir prufunum við það að vera á færibandi. „Svo þarna ertu bara allt í einu komin í skóla þar sem kennararnir fylgjast grannt með þér, vilja vita hluti um þig og leiðbeina þér og vilja að þú prófir þig áfram” segir Villi. „Þetta er kannski eitthvað sem gerist í lokaprufum í öðrum skólum, en þau byrja á því strax þarna” bætir Fjölnir við.

„Hvernig var inntökuferlið annars? Var eitthvað meira sem þið þurftuð að gera fyrir utan prufurnar sjálfar?” spyr Katla.

„Voða lítið. Við fórum í prufurnar, sendum þeim einhverjar upplýsingar um okkur og svo sungum við líka í prufunum. Dönsuðum eitthvað smá. Þetta var mjög líkamlegt” svarar Villi.

„Hvað er jákvætt við það að fara erlendis í listnám?”

Villi svarar: „Ég held kannski sérstaklega fyrir listamenn þá er mjög gott og gaman að opna augun fyrir öðrum menningarheimum, kynnast öðru landi og öðru tungumáli. Mér finnst það frekar mikilvægt. Mér finnst eins og það væri best ef flestir gætu eytt einu eða fleiri árum í útlöndum, einhvern tímann á ævinni, sérstaklega ungri ævi til að leyfa því að móta sig aðeins sem manneskju. Ekki það að Köben sé eitthvað stórkostlega öðruvísi en Ísland en samt margt nýtt sem maður kynnist þar, sérstaklega í Nörrebro.”

Fjölnir bætir við: „Ég held að það besta sem hver sem er geti gert fyrir sjálfan sig á æviskeiðinu er að prófa að búa erlendis, þó það sé ekki nema bara í smá tíma. Mér finnst líka mikilvægt að við sem Ísland, svona lítil eyja, án þess að gera lítið úr því að sækja sér nám hérna heima, þá er mjög gott að sækja sér nám erlendis og koma með námið sitt heim aftur. Bæta í flóruna. Af því svo veit maður aldrei með árunum hvort maður fái að kenna sjálfur og ert þá að kenna eitthvað sem margir hérlendis þekkja kannski ekki. Ég veit til dæmis að mikið af okkur aðferðarfræðum sem að við lærðum í skólanum eru ekki kenndar í LHÍ. Þó þetta sé í grunninn svo allt voðalega líkt.”

„Er eitthvað sem ykkur finnst neikvætt við það að fara erlendis?”

Villi segir að það erfiðasta við hafi verið að missa tengsl við vinina hér heima. „Fjölskyldan er alltaf til staðar en það er eitthvað við það að fara frá vinum sínum sem er svo leiðinlegt. Ég er svo vinakær. Mér finnst vinir mínir mjög mikilvægur hluti af mínu lífi og mér fannst það alveg langleiðinlegast. Og kannski það eina sem mér fannst erfitt við að vera í Köben, mér fannst allt hitt bara vera frábært. Meira að segja að læra nýtt tungumál.”

Fjölnir er sammála því að söknuðurinn hafi verið erfiður en að það hafi einnig verið mikill söknuður fólginn í því að flytja aftur heim. „Ég hugsaði mikið um, eins og útskriftirnar hérna heima. Þú ert búin að vera með bekknum þínum í þrjú ár en síðan þegar þið útskrifist, þá eru þið í raun og veru ekki að kveðja hvort annað. Við útskrifuðumst, ellefu manna bekkur og svo þurftum við að kveðjast. Mörg af þeim hef ég síðan ekkert séð síðan” segir Fjölnir.

„Það er ekki að við höfum ekki reynt” bætir Villi við. „Ég veit að við tveir erum mjög góðir í því að heyra í fólki en svo er það upp á annað fólk komið hversu mikið það nennir sjálft að heyra í manni. Stundum, því miður, þá er það þannig þegar maður er í svona alþjóðlegum skóla að allir fara í mismunandi hluta heimsins.”

Fjölnir bætir við að vonandi verða endurfundir hjá bekknum í náinni framtíð.: „Já vonandi, ef fólk drullast til þess að svara” segir Villi.

„Hvernig er að fóta sig í þessum bransa eftir heimkomu?”

Villi segir að viðvera hans á netinu í nokkur ár áður en hann flutti erlendis hafi hjálpað honum mikið. „Ég vildi halda því áfram af því það var að virka. Þannig ég hafði nú þegar verið með einhverja viðveru hér heima þó svo ég væri í útlöndum. Það var kannski þar með „auðveldara” fyrir mig af því ég var búinn að koma mér fyrir í vitund fólks sem grínari og fór því að vinna svolítið í því og leika í auglýsingum og svoleiðis. Eftir það þá þróaðist það í eitthvað meira sem var alveg æði.”

Fjölnir: „Það væri kannski skrítið að nefna það ekki að við urðum svo góðir vinir þarna úti. Við bjuggum saman í einhvern tíma og svo búum við til hlaðvarpsþáttinn. Það hjálpaði mér að ná einhverju platformi hér á Íslandi. Svo hafði ég ómeðvitað myndað helling af tengslum áður en ég flutti út með því að vinna sem tæknimaður og vera í bransanum þó ég hafi ekki verið uppi á sviðinu eða fyrir framan myndavélina. En þetta fór nokkuð hægt af stað hjá mér verð ég að viðurkenna. Það er kannski fyrst núna, sex árum eftir útskrift sem mér finnst eitthvað vera að gerast hjá mér.”

Villi bendir á að Covid hafi líka sett töluvert strik í reikninginn. „Það er satt” segir Fjölnir og bætir síðan við: „En það hefur líka kennt manni að vera sjálfstæðari í sinni list og ekki bara sitja og bíða eftir að einhver hringi.” Villi segir að skólinn hafi lagt mikið upp úr því. „Já, við þurftum að búa okkur til verkefni og ferlið við að vera bæði leikari og höfundur” segir Fjölnir.

„Hvað er það sem þið lærðuð við að búa erlendis sem snýr ekki að náminu?”

„Bíllaus lífsstíll” segir Fjölnir og þeir hlæja. Villi segist hafa orðið enn tengdari Norrænum gildum og fengið að kynnast Norrænni menningu enn betur: „Hvað heilbrigðiskerfið og samgöngur varða, samgöngumátar og þess háttar” segir hann. „Það er margt sem Danmörk gerir rétt, en auðvitað rangt líka. En það er áhugavert að hugsa til þess hvað maður lærði mikið um pólitíkina í landinu og hvernig landið er rekið” bætir hann við.

Fjölnir segist hafa lært mikið um pólitíkina og hvernig hún hafði beintengingu við margt í hversdeginum. Hann bætir við: „Hérna heima verður maður kannski svolítið samdauna pólitíkinni og sínum bergmálshelli. Það er ekki fyrr en maður fer út og maður þarf ekki að vera lengi í burtu, ég var í London fyrir stuttu og þar fattar maður hvað samgöngur eru stór hluti af lífsgæðum.”

„Lífsgæðum allra, pöpulsins og bara allra stétta. Góðar samgöngur auka lífsgæði allra” bætir Villi við. „Því fleiri sem nota almenningssamgöngur, því færri úti að keyra og svona. En þetta eru svo þreyttar umræður hérna heima, þær eru alveg galnar, ég bilast á þessu.”

Fjölnir: „Kannski var maður líka í ákveðnum bergmálshelli þarna úti en mér fannst Danir ekkert endilega hafa sama hugarfar og margir hér heima, að ef þú berst fyrir einu þá þarf það að þýða skerðingu fyrir eitthvað annað. Ef við bætum samgöngur þá verður ekkert pláss fyrir einkabílinn er orðræða sem maður heyrir til dæmis hér heima, eins og eitthvað þurfi að víkja.”

Villi segir að fólk læri að verða sjálfstæðara þegar það flytur erlendis: „Maður þarf mikið að redda sér. Að panta tíma hjá lækni og svoleiðis er til dæmis allt önnur upplifun.”

Fjölnir skýtur inn í: „Ég man til dæmis eftir því að hafa farið upp á spítala einhvern tímann á meðan ég bjó í Köben. Þegar ég var að fara heim þá ætlaði ég að borga og læknirinn botnaði ekkert í mér.”

„Sama hér, manni leið eins og einhverjum algjörum sveitalúða að draga fram veskið” segir Villi.

„Mælið þið með að fara í leiklistarnám erlendis?”

Það gera þeir báðir og Fjölnir segir að það sé einna helst vegna þess hve mikið sé að græða á því. Villi segir að einnig sé mikilvægt að skoða ýmsa skóla í ýmsum löndum eins og til dæmis í Þýskalandi og á Norðurlöndunum. „Leiklist hefur ekki alltaf verið bara London” segir hann.

Fjölnir bætir við: „Þó svo að skólinn sé að prófa ykkur, þá eru þið líka að prófa skólann. Síðan þarf ekki að vera að skólinn sé góður af því að hann er sá fyrsti sem kemur upp þegar þú leitar á Google. Sá skóli er ekki endilega sá rétti.

Ég held það séu kostir og gallar við þetta allt saman. Ég þekki eina leikkonu sem ætlaði í CISPA en fór í LHÍ og hún hefur það mjög gott í dag. Það var þá bara rétt ákvörðun fyrir hana. Ég held að það sé ákveðið innsæi sem maður þarf að fylgja. Ef maður fer í skóla hérna heima þá er styttra í að einhver taki eftir manni og maður býr til tengslanetið fyrr. Ef maður fer hins vegar í skóla úti þá græðiru á því að hafa búið úti, kynnst annarri menningu og mynda tengsl út fyrir landsteinanna. En þú þarft kannski að hafa aðeins meira fyrir því að mynda tengsl hérna heima.”

„Haldiði að þið búið yfir einhverri sérstöðu vegna þess þið fóruð í nám erlendis? Ef svo er, hver er hún?”

Villi svarar: „Kannski þessi Norrænna kunnátta, vera með hreimana þaðan og svona, tala dönsku og svona. Ég veit það ekki, vera með ríkan bakgrunn. Fólk er með svo mismunandi bakgrunna til þess að draga úr og ég er þá með þann bakgrunn sem ég get nýtt mér.”

Fjölnir bætir við: „Mér finnst ég vera mjög agaður. Og mér finnst það oft vanta, alls ekki hjá öllum en stundum finnst mér agann vanta í kringum þennan iðnað sem leikari. Ég er mjög líkamlegur, ef það meikar sens.”

„Eigið þið minningu sem stendur sérstaklega upp úr í Köben dvölinni?”

Villi segir að hann eigi margar ljúfar minningar frá námsárunum í Kaupmannahöfn. „Ég held að gegnumgangandi minning hjá mér, sem er mjög hversdagsleg, eru tíðar heimsóknir okkar Fjölnis á Fresh Kebab sem er alls ekki fresh en hann hét það. Hann var með mjög ódýrt og mjög gott kebab kjöt en þetta var algjört sull. En það er minning sem að stendur upp úr hjá mér. Bara einhver grallaraskapur að fara í einhverja búð sem myndi aldrei ganga upp hér heima, Fresh Kebab búllan sem er algjört sull á horninu sem maður getur alltaf kíkt á.”

Fjölnir: „Ég er með tvær. Ég skrifaði fyrsta handritið mitt af stuttmynd í Köben. Ég man bara að ég var á Mikkeller bar og kláraði að skrifa fyrsta draft, svo var ég að hjóla heim. Þessi minning, að hafa klárað fyrsta draft af handriti og vera að hjóla heim í þessari stórborg var draumkennt. Svo er önnur minning, en ég var að glíma við áráttu- og þráhyggjuröskun á þessum tíma, Villi fékk að kynnast því. En ég man að ég átti ZOOM tíma við sálfræðinginn minn og var heima. En ég átti svo góðan fund við hann og mér leið svo vel eftir hann. Við kláruðum fundinn og á þeim tíma var Villi að vinna á Hamborgarabúllu Tómasar í Köben og ég hjólaði til hans til að fá mér hamborgara og mér fannst eins og ég svifi um á bleiku skýi. Átti góðan sálfræðitíma, var í Kaupmannahöfn og á leiðinni að fá mér góðan hamborgara.

Villi: „Það eru náttúrulega geggjaðir hamborgararnir á Búllunni í Köben.”

Fjölnir: „Já, allt öðruvísi en hér heima.”

Villi: „Ég gerði oft hamborgara fyrir sjálfan mig sem ég kallaði Hræsnarann, sem var grænmetisborgari með osti og beikoni.”

„Hvað er það skemmtilegasta við að vera leikari?”

Fjölnir segir að sjálf vinnan sé líklega það skemmtilegasta en þeir eru báðir sammála um að fá að blása lífi í persónurnar sé mjög gefandi. „Að fá að lifa öll þessi líf” eins og Villi lýsir því.

Fjölnir er um þessar mundir í tökum á nýjum þáttum sem heita Flóðið eða Avalanche á ensku en einn tökudagur fyrir stuttu minnti hann á töfra leiklistarinnar. „Ég ætla ekki að segja að ég hafi ekki nennt þessum tökudegi en ég var þreyttur og eitthvað lengi að koma mér af stað. En þá fékk ég hugsun um hvað þetta væri samt geggjað. Þú ert með þessa persónu og þú færð smá glugga til að gefa honum líf, fá að lifa sem hann og það er eiginlega galið góð hugsun. Ég held sko að ef þú ert að vinna í leikhúsi og þú ert kannski komin á sýningu númer 40, ég trúi því vel að það geti stundum orðið erfitt að vinna vinnuna sína þá en þá finnst mér svo gott að hugsa: Ég fæ bara þennan smá glugga til að blása lífi í þessa persónu. Það finnst mér gefa mér einhvern eldmóð” segir hann.

Villi bætir við: „Mér fannst ég læra það í CISPA, að geta gert sýningu endalaust svo lengi sem þú ert að koma að henni úr mismunandi áttum, samt alltaf með sömu persónuna. Blása í hana lífi sem margir eru að sjá í fyrsta sinn.”

„Eru þið með einhver ráð fyrir fólk sem er að fara út í leiklistarnám?”

„Kannski bara að það gæti orðið smá erfitt peningalega séð” segir Fjölnir.

„Og kannski svolítið einmanalegt í byrjun” bætir Villi við og segir: „Þá er bara spurning um að muna að það varir ekki að eilífu. Og muna að njóta þess.”

Fjölnir er sama sinnis. „Svo er það. Njóta rómantíkurinnar við þetta. Að vera blankur námsmaður í erlendri borg.”

„Svo eftir á muntu rómantísera þetta tímabil í döðlur” segir Villi.

Strákarnir telja það einnig mikilvægt að vera opin fyrir tungumálinu í landinu sem þú býrð í, þó svo þér finnist það ljótt eða leiðinlegt, þá sé það mjög dýrmætt veganesti út í lífið.

„Sérstaklega sem leikari en líka sem manneskja” segir Villi. „Það hefur svo mikil áhrif á heilann að læra nýtt tungumál og hugsanahátt. Ég tala nokkur tungumál og mér finnst það gefa mér svo mikið.”

„En þeirra sem eru að koma heim úr leiklistarnámi?”

„Búið ykkur til vinnu” segir Villi og Fjölnir er sammála honum og bætir við: „Það er allt í lagi að senda tölvupósta og komast í samband og svona en besta leiðin til að koma sér á framfæri er að búa sér til vinnuna strax. Skrifa leikrit sjálfur, einleiki, uppistand, koma með hugmyndir af þáttum, búa til sketcha.”

Villi: „Spyrjið bara fullt af fólki, ef þú ert með einhverjar pælingar, fólk er alltaf til í að svara. Ef það gerir það ekki þá er það bara þeirra.”

Fjölnir: „Það gæti líka verið að maður þurfi svolítið að gefa vinnuna sína, allavegana í byrjun, þá er þetta meira svona eftir vinnu verkefni. Ekki búast við því að fara að mokgræða alveg strax. En þannig er það með allan iðnað, maður þarf að koma honum af stað.”