Skip to main content

Stjórnmálin og námslánakerfið

Spurningar frá stjórn SÍNE um námslánakerfið til stjórnmálaflokka og þá hvernig flokkarnir sjá framtíðina fyrir sér í þeim efnum. Við birtum svörin þegar þau berast – fyrst eru það svör Alþýðufylkingarinnar

1. Er það stefna þíns flokks að koma á nýju námslánakerfi? Ef já, munu fulltrúa námsmannahreyfinganna fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi til enda?
Já hvort það er, – og já, og meira en það: námsmannahreyfingin þarf að vera tilbúinn til að berjast með okkur fyrir nýju kerfi.
2. Hvað teljið þið að ætti að vera tilgangur og/eða markmið nýs námalánakerfis?
Námslán eiga að gera fólki kleift að helga sig náminu.
3. Hvað teljið þið að séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis?
Að fá nógu há námslán til að framfleyta sér í gjaldmiðli og á verðlagi þess lands, og fá þau nógu örugglega til að geta stólað á þau.
4. Hvernig stefnið þið að því að gæta þessara hagsmuna?
Með því að setja það í lög um LÍN, með virkum stuðningi námsmannahreyfingarinnar ef við steytum á mótstöðu.
5. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að 1/3 af heildarfjárhæð námsaðstoðar frá LÍN verði að styrkjum skilyrðislaust og komið til framkvæmda í síðasta lagi fyrir skólaárið 2018-2019?
Flokkurinn mundi styðja slík áform hvort sem hann yrði innan eða utan ríkisstjórnar eða Alþingis, en það yrði ekki skilyrði fyrir stjórnarmyndun að nákvæmlega þessari kröfu væri framfylgt. Tafarlaus leiðrétting á kjörum öryrkja væri það hins vegar.
6. Vill þinn flokkur hafa aukna styrki með skilyrðum, t.d. um að þú setjist að á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins eftir nám?
Við viljum að fyrstu tíu ár við störf á Íslandi að námi loknu séu lánin fryst og eftir þann tima felld niður. En við viljum samt stefna á námsstyrkjakerfi í staðinn fyrir námslánakerfi.
7. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að farið verði í það tafarlaust að endurskoða framfærsluþörf námsmanna erlendis?
Nei. En framfærsluþörf verður auðvitað að vera rétt útreiknuð svo kerfið geti þjónað tilgangi sínum. Annað nær engri átt.
8. Síðustu þrjú ár hefur niðurskurður verið á framfærslulánum og ferðalánum frá LÍN en auk þess hefur frítekjumarkið verið skert. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að leiðrétta skerðingu síðustu þriggja skólaára þannig að framfærslulán til námsmanna erlendis verði aukin á þessu skólaári, 2016-2017, til samræmis við þessa skerðingu?
Ekki sem skilyrði fyrir stjórnarsamstarfi, en að sjálfsögðu styðja það, eða réttara sagt: styðja námsmannahreyfinguna í að krefjast þess.
9. Er það vilji ykkar að námslán til námsmanna erlendis verði takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum? Ef já, með hvaða hætti?
Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér afstöðu til þess, þannig að nei.
10. Hvaða vexti vill þinn flokkur hafa á námslánum frá LÍN?
Enga vexti, hvorki á þeim lánum né á öðrum lánum. Peningarnir fyrir námslánum eiga ekki að koma frá banka með annarleg (gróða)sjónarmið heldur úr félagslega fjármögnuðum, sameiginlegum sjóði.
11. Er það vilji ykkar að hámarksfjárhæð verði á námsaðstoð frá LÍN? Ef já, að hvaða fjárhæð?
Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér afstöðu til þess.
12. Er það vilji ykkar að námsaðstoð verði einungis veitt upp að ákveðnum einingafjölda? Ef já, að hvaða marki?
Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér afstöðu til þess.
13. Munuð þið beita ykkur fyrir því að lántökugjöld verði afnumin af námslánum?
Við munum beita okkur fyrir því að vextir verði afnumdir. Lántökugjöld ættu ekki að dekka meira en kostnað við að reka sjóðinn.
 
 
F.h. Alþýðufylkingarinnar
Vésteinn Valgarðsson
varaformaður