Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) harmar þá ákvörðun menntamálaráðherra að skrifa undir nýjar úthlutunarreglur fyrir námsárið 2016-2017. Fulltrúi SÍNE í stjórn LÍN neitaði að skrifa undir umræddar úthlutunarreglur þriðja árið í röð en með þeim er verið að halda áfram þeim niðurskurði sem boðaður var þegar úthluttunarreglur fyrir námsárið 2015-2016 voru samþykktar. Þá var Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, hvattur til að skrifa ekki undir umræddar úthlutunarreglur með bréfi þann 13. febrúar 2015. Þess ber að geta að vegna þeirrar ákvörðunar ráðherra ákvað stjórn SÍNE að kvarta um ákvörðun hans til Umboðsmanns Alþingis en það mál er enn til meðferðar.
Stjórn SÍNE vísar að megin efni til sömu röksemda og í fyrra. Hún telur skerðingu framfærsluláni LÍN til námsmanna erlendis, þriðja árið í röð, með öllu óásættanlega. Með úthlutunarreglum námsársins 2014-2015 lækkaði framfærslulán lánasjóðsins til námsmanna flatt um 10 prósent á mikinn fjölda námsmanna erlendis. Í fyrra var það sama upp á teningnum og fengu námsmenn erlendis margir hverjir annað árið í röð 10 prósent skerðingu á framfærsluláni sínu. Með nýjum úthlutunarreglum er verið að skerða framfærslulánin enn frekar og stefna hagsmunum og lífsviðurværi námsmanna erlendis í tvísýnu.
Stjórn SÍNE hefur ítrekað bent á það við LÍN sem og aðra að í slíkum ákvörðunum þurfi að stíga varlega til jarðar þar sem námsmenn verða fyrir verulegum forsendubresti í miðju námi. Vert er að endurtaka það sem stjórn SÍNE nefndi um slíkar skerðingar í bréfi til ráðherra á síðasta ári sem á enn vel við:
„Þegar námsmaður skoðar úthlutunarreglurnar og metur stöðuna að fara í grunnnám í háskóla erlendis kemur í ljós að þessi lán sem standa til boða af hálfu lánasjóðsins, framfærslu- og skólagjaldalán, eiga að duga samanlagt út námsferilinn. Þessi ágæti námsmaður er nú mættur í nám erlendis og klárar fyrsta árið með sóma. Skyndilega fær þessi sami námsmaður veður að því að LÍN hafi ákveðið að skerða lánamöguleika hans fyrir næstu tvö árin sem eftir eru af námi hans. Hér er ekki um annað að ræða en hreinan forsendubrest fyrir viðkomandi námsmann. Þeirri spurningu er þá ósvarað, af hverju ættu námsmenn að taka þá áhættu að sækja sér menntun erlendis ef það veit af því að löppunum getur verið kippt undan þeim í miðju námi?“
Það sem styður þá fullyrðingu SÍNE að námsmenn muni í auknum mæli hætta við að fara í nám erlendis eru tölur úr fjárlögum en þar hefur verið viðvarandi skerðing á námsmennum erlendis hjá LÍN síðustu árin. Sú skerðing heldur áfram og stefnir í undir 1000 námsmenn erlendis sem treysta á framfærslu frá LÍN.
Þá hefur ekkert verið gert til að koma til móts þá staðreynd, sem fáir mótmæla, að skólagjaldalán duga mörgum námsmanninum ekki. Ætlunin var að koma til móts við það þetta árið en það hefur ekki verið gert með nýjum úthlutunarreglum sem vekur vægast sagt furðu.
Það hefur margsýnt sig að sú menntun sem námsmenn hafa öðlast erlendis hefur skapað þjóð okkar gífurlegan efnahagslegan ávinning með því að fyrirtæki fái starfsmenn með nýja sýn og aukna færni sem og þekkingu.
Að lokum á vel við að minna enn og aftur á orð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra sem hann lét falla í myndbroti sem framleitt var fyrir Rannís á síðasta ári:
„Fyrir alla þá sem eru í þeim sporum að taka slíka ákvörðun (að fara í nám erlendis), þá mæli ég eindregið með því að fara út, búa erlendis, læra erlendis, það hjálpar manni á svo margan hátt og eitt af því sem það gefur manni að þegar maður kemur heim, og auðvitað vil ég að sem flestir komi heim aftur eftir námið er það að maður fær svolítið öðruvísi sýn á samfélagið sitt maður sér betur bæði kostina og gallana og það er þess vegna að það er svo nauðsynlegt fyrir okkar samfélag sem er jú fámennt og svolítið úr alfara leið að sem flest okkar ef við eigum tækifæri til nýti sér slík tækifæri sem felast í því að fara í nám erlendis.“
Stjórn SÍNE gagnrýnir harðlega ákvörðun ráðherra að staðfesta úthlutunarreglurnar fyrir skólaárið 2016-2017 og veltir þeirra spurningu fram hvort það sé skoðun ráðherra að einungis þeir efnameiri eigi nú rétt til náms erlendis og farið sé gegn 1. gr. laga um LÍN þar sem allir skulu eiga jafnan rétt til náms.
F.h. stjórnar SÍNE
Jóhann Gunnar Þórarinsson
formaður