
If you don’t have plans for the Verslunarmannahelgi, Gimli in Manitoba is the place to be!
Jody Arman Jones, býr í Minnesota í Bandaríkjunum. Hún tók þátt í Snorri Plus verkefninu þar sem fólk frá Norður Ameríku kemur til Íslands til að fræðast um söguna og menninguna. Þetta var árið 2012 og dóttir hennar tók þátt ári síðar, hún endaði svo á að flytja til Íslands í kjölfarið. Jody hafði ferðast áður til Íslands, en ekki varið löngum tíma hér. Hún var síðan beðin um að hjálpa til með prógrammið og hefur verið annar formaður Snorra West prógrammsins síðan 2015.
„Ég er svo lánsöm að eiga fjölskyldu hér að ég get komið hingað tvisvar á ári, sem er frábært,” segir Jody en hún var einmitt stödd á landinu þegar stjórnarmeðlimir SÍNE hittu á skipuleggjendur Snorra West. Dagrún Jónsdóttir var þátttakandi í Snorra West árið 2018, og hefur verið viðloðandi við verkefnið síðan þá. „Ég heillaðist af Íslendingaslóðum í Vesturheimi! Ég hjálpaði til við að skipuleggja Snorra hópinn sem kom hingað 2022 og árið 2024 fór ég í mína eigin Snorra West ferð þar sem ég hitti allt fólkið sem ég kynnist í fyrstu ferðinni minni 2018 og sótti nokkrar íslenskar hátíðir á svæðinu. Í sumar ætlar öll fjölskyldan mín með mér út og ég hlakka til að kynna þeim fyrir samfélaginu sem ég er nú hluti af” segir Dagrún. Atli Geir Halldórsson er annar verkefnastjóri Snorra verkefnisins. Hann er í fullri vinnu allt árið að stýra verkefninu, og það eru tvö sem hafa slíka stöðu núna. Hann og Julie Summers frá Washington fylki, sem tók þátt í verkefninu árið 2012. Þau eru á fullu að undirbúa komu næsta hóps og það er sko sannarlega nóg um að vera hjá þeim. Um Verslunarmannahelgina er haldin stór Íslendingahátíð í Gimli, Manitoba í Kanada. Í ár fagna þau 150 árum frá því að Íslendingar settust fyrst að á svæðinu og því er búist við mörgum gestum og viðamikilli dagskrá. Það eru fimm prógrömm innan Snorra verkefnisins, þar af tvö starfsnema prógrömm fyrir fyrrum þátttakendur Snorra verkefnisins, þ.e. Snorri Plus, Snorri West og upprunalega Snorraverkefnið.
Snorri Program: Fyrir norður-amerísk ungmenni á aldrinum 20-30 ára til að ferðast til Íslands.
Snorri West: Fyrir íslensk ungmenni á aldrinum 20-30 ára til að ferðast um Norður-Ameríku.
Snorri Plus: Tveggja vikna ferð um Ísland fyrir Norður-Ameríkana komna yfir þrítugt.
Þetta er mjög gefandi og fólk verður mjög náið gestgjöfunum sínum, sem eru oftar en ekki skyldmenni þeirra
Samtökin voru stofnuð árið 2001 en hugmyndin kviknaði árið 1995, að stofna prógram svipað Nordjobb nema á milli Íslands og VesturÍslendinga. Saga Vestur Íslendinga hefur verið ótrúlega lifandi síðustu 170 árin og markmið verkefnisins er að halda í og efla tengslin. Hugmyndin þróaðist og úr varð 6 vikna skipulögð ferð fyrir unga Vestur-Íslendinga, þar sem þau kynnast Íslandi, ferðast um landið og læra um menninguna og tungumálið. Mikilvægur hluti prógrammsins er að dvelja hjá ættingjum sínum hér á landi, kynnast þeim og vinna ýmis störf, til dæmis við búskap. Það er það sem gerir Snorra verkefnið svona ótrúlega sérstakt. Þegar þú kemur þá ertu ekki í hefðbundinni túristaferð, heldur ertu að mynda tengsl við ættingja þína og kynnast Íslandi eins og nútíma Íslendingar. Fyrsti Snorra hópurinn kom til landsins árið 1999 og síðan þá hefur dagskráin lítið breyst. Markmiðin eru þau sömu og fyrirkomulagið eins nema núna er það samtals fimm vikur í stað sex. Stór hluti af upplifuninni sem felst í verkefninu er að dvelja hjá ættingjum, og eitt af stærstu verkefnum skrifstofunnar að gera það að veruleika. „Þetta er mjög gefandi og fólk verður mjög náið gestgjöfunum sínum, sem eru oftar en ekki skyldmenni þeirra,” segir Jody.
Árið 2022 kom stærsti hópurinn í langan tíma og mikil vinna fór í að finna gestgjafa. „Það spretta falleg samtöl þegar við hringjum í mögulega gestgjafa og eldra fólk tekur sérstaklega vel í samtölin” segir Dagrún. Símtal við eina konu að austan var Dagrúnu minnisstætt. Móðir hennar hafði verið eftir á Íslandi meðan öll fjölskyldan flutti vestur yfir haf, og vissi konan um afdrif allra nema eins – móðurbróður hennar. Uppúrdúrnum kom að Snorra West þátttakandinn var afkomandi þessa bróðurs, og var því ráðgátan leyst um örlög bróðursins. Snorra verkefnin styrkja tengslin milli þessara tveggja heima, segja þau, milli afkomenda Vestur-Íslendinga og ættingja þeirra á Íslandi. Það er virkilega gefandi fyrir Íslendinga að tengjast sömuleiðis ættingjum sem þau vissu ekki að þau ættu Vestanhafs. Einnig eru dæmi um að margir hafi flúið ástandið, svo það eru fleiri tengingar vestur fyrir utan Vesturfarana.
Á háum hest sem „alvöru Íslendingur”
Aðspurð hvernig það kom til að hún hafi tekið stökkið og tekið þátt í svona ferð, segir Dagrún segir það frekar skondið og tilviljanakennt. Hún hafi fengið póst upp úr þurru frá gamla framhaldsskólanum sínum um kynningu á verkefninu og hún alveg heillaðist. Við tók langt umsóknarferli því þau vilja gjarnan finna ættingja fólks Vestanhafs, sem og viðtal til að athuga hvort að maður sé góður kandídat í verkefnið. Dagrún elskar að ferðast og kynntist sögu Vestur-Íslendinga í gegnum ferðina en hana óraði ekki fyrir allri sögunni og að hún tengdist eigin fjölskyldu. Hún segist hafa kynnst æðislegu fólki sem hún er enn í sambandi við í dag. Dagrún tók þátt í verkefninu árið 2018 og segir að dagskráin hafi verið mjög stíf. Þau lögðu af stað eldsnemma morguns og komu ekki aftur heim fyrr en seint á kvöldin. Þau ferðuðust á fjölmarga staði, bæði í Kanada og Bandaríkjunum, svo sem Washington D.C., Toronto, Nýfundnaland, Halifax og fleiri staði.
„Þau eru svo spennt að sýna þér allt, túristastaði og staði sem tengjast Íslandi” segir Dagrún og bætir síðan við: „Það sem kom mér mest á óvart er hversu lík Vestur-Íslendingar eru okkur, í hugsanahætti og fleira. Þó þau hafi ekki fæðst hér, vilja flestir kynnast þér. Mér fannst gjarnan eins og fólk setti mig á háan hest, verandi „alvöru Íslendingur.” Ég kynntist ótrúlega mörgum í þessari ferð og eignaðist vini fyrir lífstíð. Ég get gist á ótrúlega mörgum stöðum þegar ég ferðast á þessar slóðir” segir Dagrún.
Sumir þátttakendanna í Snorra verkefninu tala íslensku, en það er mjög einstaklingsbundið. Mörg nota hins vegar orðin „amma” og „afi” í daglegu tali, og halda einnig uppá íslensku jólasveinana og Þorrablót. Svo fjölskyldur þeirra reyna að halda uppi íslensku hefðunum í Ameríku. Í ferðinni skoðaði hópurinn einnig slóðir landnámsmanna og Leifs heppna, fyrsta Íslendingsins sem ferðaðist til Ameríku.
Snorra verkefnið sjálft er þó nefnt eftir öðrum Íslending, honum Snorra Þorfinnssyni, sem talinn er vera fyrsta barnið af evrópskum uppruna sem fæddist í Ameríku. Foreldrar hans voru Þorfinnur karlsefni og Guðríður Þorbjarnardóttir, sem héldu til Vínlands og ætluðu að setjast þar að en dvöldu þar eingöngu í þrjá vetur áður en þau héldu aftur til Íslands.
„Þið fóruð í sitthvora ferðina á ólíkum tímum í ykkar lífi, hver var upplifun ykkar og hvað kom ykkur mest á óvart?“ Jody vissi ekki mikið um Ísland eða sögu Vestur-Íslendinga. Afi hennar var íslenskur en hann talaði lítið um uppruna sinn. Einn daginn fékk hún símtal frá frænku sinni sem var að læra við Háskólann í Minnesota. Sú frænka hafði verið að fara í gegnum símaskrána og leita að öllum með nafnið Ármann en þannig kynntust þær fyrst. Hún lærði um Snorra verkefnið og var áhugasöm en hún átti börn og var í vinnu og gat því ekki farið í ferð af þessu tagi fyrr en hún var orðin eldri. Þegar það kom loksins að því að fara í ferðina upplifði Jody sig tilheyra hér á landi og hún lærði heilmikið. Þau læra um íslenska sögu, Kvennafrídaginn og fleira en þau læra einnig íslensku, eða eins mikið og hægt er á svo stuttum tíma. Þetta eru miklar upplýsingar og mikill lærdómur á stuttum tíma. Síðan fá þau einnig tíma til að kanna landið sem Jody segist vera töfrum líkast. Flestir sem hingað koma enda á Norðausturlandi en flestir Vesturfararnir voru af þeim slóðum. Þeir sem hingað koma enda fæstir á höfuðborgarsvæðinu en þau dreifast mikið um landið. Meira en helmingur þátttakanda enda á að dvelja á sveitabæjum þar sem húsnæði eru gjarnan stærri og þar vantar vinnuhjálp yfir sumartímann en hluti af prógramminu er að þátttakendur sinna sjálfboðaliðastörfum. „Þú býrð til þitt eigið tengslanet, því þú vinnur með fólki á þínum aldri” segir Dagrún.
Þau eru öll sammála um að ferðin geti einnig opnað dyr fyrir þá sem vilja fara út í nám, bæði er varðar þekkingu og tengsl. Dagrún segir að ferðin veiti þér öryggisnet en sjálf er hún á leið til háskólans í Manitoba á næsta ári í skiptinám og mikið traust felst í því að vita af fólki sem hægt er að reiða sig á.
Stórkostleg ferð sem skilur mikið eftir
En við hverju má búast þegar farið er í ferð af þessu tagi? Jody og Dagrún segja að þetta sé stórkostleg ferð sem er ótrúlega skemmtileg. Þær eru einnig sammála um að þær hafi lært mikið meira en þær bjuggust við, sjá og læra um staði sem þær vissu ekki að væru til. Margir þátttakendur í Snorra West hafa skrifað um reynslu sína í tengslum við háskólanám sitt og jafnvel snúið aftur á þessar slóðir til að sækja sér nám.