Skip to main content

Sjálfstæðisflokkurinn svarar spurningum SÍNE um námslánakerfið

Spurningar til stjórnmálaflokka um námslánakerfið

 

  1. Er það stefna þíns flokks að koma á nýju námslánakerfi? Ef já, munu fulltrúa námsmannahreyfinganna fá að taka þátt í þeirri vinnu frá upphafi til enda?

Já. Sjálfstæðisflokkurinn telur að taka eigi upp styrkjakerfi að norrænni fyrirmynd. Bent skal á að Sjálfstæðisflokkurinn barðist fyrir því að frumvarp sem kom betur út fyrir a.m.k. 85% námsmanna samkvæmt niðurstöðum óháðrar greiningar yrði samþykkt á þessu kjörtímabili. Fulltrúar um 20.000 stúdenta kröfðust þess enda að frumvarpið yrði samþykkt.

 

Sjálfstæðisflokkurinn vill að samráð sé haft við fulltrúa námsmannahreyfinga við undirbúning, gerð frumvarps og á meðan það er í meðförum Alþingis.

  1. Hvað teljið þið að ætti að vera tilgangur og/eða markmið nýs námalánakerfis?

Meginmarkmið ætti að vera að tryggja jafnt aðgengi til náms óháð efnahag. Námsstyrkjakerfi ætti einnig að stuðla að bættri námsframvindu sem og aukinni fjárfestingu í menntuðu vinnuafli í samræmi við þarfir atvinnulífsins og samfélagsins alls. Námslánakerfið ætti einnig að stuðla að alþjóðlegum tengslum þekkingarsamfélagsins.

 

  1. Hvað teljið þið að séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis?

Námsmenn erlendis eru mjög fjölbreyttur hópur. Sjálfstæðisflokkurinn getur því ekki tekið afstöðu til þess hver séu mikilvægustu hagsmunamál námsmanna erlendis umfram önnur, enda er það fyrst og fremst verkefni hagsmunahreyfinga þeirra að taka afstöðu til þess.

 

  1. Hvernig stefnið þið að því að gæta þessara hagsmuna?

Með því að tryggja öllum námsmönnum aðgengi að fullri framfærslu og gagnsæja, beina námsstyrki að norrænni fyrirmynd.

 

  1. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að 1/3 af heildarfjárhæð námsaðstoðar frá LÍN verði að styrkjum skilyrðislaust og komið til framkvæmda í síðasta lagi fyrir skólaárið 2018-2019?

 

Nei. Sjálfstæðisflokkurinn telur að farsælla sé að taka upp fyrirframgreidda og jafna námsstyrki í stað þess að hygla þeim sérstaklega sem taka hæst námslán. Það er vegna þess að ekki er endilega samhengi á milli þess hve há námslán eru tekin og hve mikil þörf á ríkisstuðningi er. Það er óæskilegt að skapa hvata til þess að námsmenn skuldsetji sig meira en þörf er á, en slíkur hvati felst í því að veita hlutfallslega námsstyrki.

 

  1. Vill þinn flokkur hafa aukna styrki með skilyrðum, t.d. um að þú setjist að á Íslandi eða utan höfuðborgarsvæðisins eftir nám?

Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki æskilegt að námsmenn fái misháa námsstyrki eftir því hvað þeir kjósa að gera að námi loknu. Námsstyrkir eiga að vera háðir námsframvindu, sem er í samræmi við þá hugmynd að jöfn laun eigi að vera fyrir sambærilega vinnu.

Sjálfstæðisflokkurinn telur að afar veigamikil rök þurfi til þess að hygla sumum námsmönnum umfram aðra eftir því hvað þeir ákveða að gera eftir útskrift.

 

  1. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að farið verði í það tafarlaust að endurskoða framfærsluþörf námsmanna erlendis?

Sjálfstæðisflokkurinn mun berast fyrir því að námsmenn geti fengið fulla framfærslu óháð námslandi. Það er því æskilegt að framfærsluþörf námsmanna sé endurskoðuð með reglubundnum hætti og að hún endurspegli þann kostnað og aðstæður sem námsmenn erlendis búa við.

 

  1. Síðustu þrjú ár hefur niðurskurður verið á framfærslulánum og ferðalánum frá LÍN en auk þess hefur frítekjumarkið verið skert. Mun þinn flokkur gera það að skilyrði fyrir ríkisstjórnarsamstarfi að leiðrétta skerðingu síðustu þriggja skólaára þannig að framfærslulán til námsmanna erlendis verði aukin á þessu skólaári, 2016-2017, til samræmis við þessa skerðingu?

Sjálfstæðisflokkurinn mun berjast fyrir því að námsmenn geti fengið fulla framfærslu óháð námslandi. Í því skyni hefur framfærsla til námsmanna á Íslandi verið hækkuð verulega í tíð núverandi ríkisstjórnar, auk þess sem frumvarp um námslán- og námsstyrki gerði í fyrsta sinn ráð fyrir fullri framfærslu fyrir alla námsmenn.

Bent skal á að frítekjumarkið hefur verið hækkað, en ekki lækkað eins og kemur ranglega fram í spurningunni. Forsenda þess að hægt sé að hækka frítekjumark enn frekar er að teknir verði upp beinir styrkir og vaxtaniðurgreiðsla ríkisins minnki samhliða.

Sjálfstæðisflokkurinn telur ekki æskilegt að sumir námsmenn eigi þess kost að fá framfærslu úr félagslegum jöfnunarsjóði sem er umfram framfærsluviðmið á meðan aðrir námsmenn þurfi að láta sér nægja skerta framfærslu. Að því sögðu telur Sjálfstæðisflokkurinn mikilvægt að framfærsluviðmið séu endurskoðuð með reglubundnum hætti og að að þau endurspegli þann kostnað og aðstæður sem námsmenn erlendis búa við.

 

  1. Er það vilji ykkar að námslán til námsmanna erlendis verði takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum? Ef já, með hvaða hætti?

Nei.

  1. Hvaða vexti vill þinn flokkur hafa á námslánum frá LÍN?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að vextir á námslánum eigi að vera eins lágir og mögulegt er, að teknu tilliti til þeirrar styrkupphæðar sem greidd er út með beinum hætti. Sjálfstæðisflokkurinn beitti sér fyrir því á þessu kjörtímabili að tekið væri upp beint styrkjakerfi með 65.000 kr. fyriframgreiddum námsstyrk á mánuði, en að vextir af námslánum væru 3% og niðurgreiddir af ríkinu. Slíkt fyrirkomulag myndi koma sér betur fyrir að minnsta kosti 85% námsmanna.

 

Sjálfstæðisflokkurinn telur hagsmuni námsmanna ekki felast í því að vera bæði með beint, jafnt og gagnsætt styrkjafyrirkomulag samhliða því að vera með óbeint, ójafnt og ógagnsætt styrkjafyrirkomulag í gegnum mikla niðurgreiðslu vaxta.

  1. Er það vilji ykkar að hámarksfjárhæð verði á námsaðstoð frá LÍN? Ef já, að hvaða fjárhæð?

Svo lengi sem vextir námslána eru niðurgreiddir af ríkinu telur Sjálfstæðisflokkurinn æskilegt að hámark sé á veittum námslánum til þess að draga úr ójafnri veitingu ríkisstyrks til námsmanna.

Miðað við það að 2,5 milljörðum króna yrði bætt inn í LÍN árlega úr ríkissjóði, eins og Sjálfstæðisflokkurinn lagði til á þessu kjörtímabili, og aðrar forsendur þess frumvarps, er æskilegt að þak á námsaðstoð sé 18 milljónir króna fyrir hvern námsmann. Rúmlega 99% af öllum lánþegum LÍN falla undir það viðmið.

 

  1. Er það vilji ykkar að námsaðstoð verði einungis veitt upp að ákveðnum einingafjölda? Ef já, að hvaða marki?

Sjálfstæðisflokkurinn telur að farið skuli að fyrirmynd annarra Norðurlanda í þeim efnum, en alls staðar er hámarksfjöldi eininga fyrir veittri námsaðstoð. Sjálfstæðisflokkurinn telur æskilegt að miðað sé við fullt nám í 7 ár, en hægt verði að þiggja námsaðstoð lengur fyrir doktorsnema. Það er ívið meira svigrúm en tíðkast á flestum hinum Norðurlöndunum.

 

  1. Munuð þið beita ykkur fyrir því að lántökugjöld verði afnumin af námslánum?

Afnám lántökugjalda af námslánum felur í sér ríkisstyrk. Lántökugjöldum er m.a. ætlað að standa undir kostnaði við útgáfu skuldabréfa og afnám þess myndi leiða til þess að skattgreiðendur þyrftu að leggja út fyrir þessum kostnaði. Sjálfstæðisflokkurinn telur æskilegra að aðstoð ríkisins til námsmanna sé veitt með beinum hætti í formi námsstyrkja, en síður sé horft til þess að veita ójafna og ógagnsæja styrki.