Skip to main content

Samfylkingin

By 15/10/2024nóvember 29th, 2024Alþingiskosningar, SíNE fréttir, Viðtöl við flokka

Viðtalið er hluti af röð viðtala sem ritstjóri SÍNE tók við frambjóðendur flokka í komandi Alþingiskosningum en spurningarnar beindust aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði námsmanna og kjörum námsmanna erlendis. SÍNE hafði samband við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann býður einungis fram í einu kjördæmi. 

„Við viljum að Menntasjóðurinn virki betur sem jöfnunartæki og að við séum krítískari á þetta, er þetta raunverulega að virka út frá raunveruleika ungs fólks?“

Katla Ársælsdóttir ritstýra SÍNE hitti á dögunum Guðmund Ara Sigurjónsson, formann framkvæmdastjórnar Samfylkingar sem skipar jafnframt 2. sæti í Suðvesturkjördæmi fyrir flokkinn og Guðríði Láru Þrastardóttur, starfsmann þingflokks Samfylkingar og spjallaði við þau um málefni sem varða íslenska námsmenn erlendis.

„Hvað vill flokkurinn ykkar gera fyrir íslenska námsmenn erlendis, ef eitthvað?“

Guðmundur Ari svarar: „Góð spurning. Það sem skiptir lykilmáli og er alveg verkefni næsta kjörtímabils, er að tryggja áframhaldandi aðild að öllum Evrópustyrktarsjóðunum sem í rauninni losna á næsta kjörtímabili. Og við höfum alveg fundið í Evrópu sérstaklega að það virðist vera hluti af vegferð þeirra sem eru til hægri og/eða þjóðernisvinkli í pólitíkinni að byrja að setja spurningamerki við þessa fjárfestingu í evrópsku sjóðunum: „Af hverju erum við að styrkja það að fá evrópska háskólanema hingað? Og af hverju er svona mikið af okkar færasta fólki erlendis? Eigum við ekki bara að gera þetta heima fyrir?“

Svo það er lykilatriði hjá okkur að við höldum áfram að taka þátt í þessari Evrópusamvinnu og tökum þátt í Evrópustyrkjarsjóðum. En síðan þurfum við að styrkja hlutverk Menntasjóðs námsmanna sem þetta félagslega jöfnunarkerfi sem það á að vera og tól stjórnvalda til að fjárfesta í menntun. 

Það sem við höfum viljað er að lækka lágmarksframvindukröfurnar úr 22 einingum í 18 einingar. Þetta er svakalegt stökk eins og þetta er núna, 22 einingar. Ef þú fellur í einum áfanga, þá þarftu að endurgreiða námslánin. Það getur endalaust komið upp og ég tala nú ekki um ef maður er í námi erlendis í nýju umhverfi, nýjum skóla. Það þarf að hafa smá svigrúm án þess að missa námslánin og það skiptir lykilmáli.

Svo þarf líka að lækka vaxtaþakið á þeim hluta námsstyrkja sem eru lán, að einingar og tekjutenging afborgana nái til allra stúdenta. Það er nauðsynlegt að grunnframfærsla námsmanna dugi fyrir almennum framfærslukostnaði og haldi í við launaþróun. Leiðrétta verður það ranglæti að námsfólki sé neitað um áunninn rétt til atvinnuleysistrygginga í námi þrátt fyrir að tryggingagjald sé innheimt af launum stúdenta eins og annarra. Það sem skiptir lykilmáli er að við lítum jákvæðum augum á það að fólk fari erlendis og sæki sér háskólamenntun og það að fjárfesta í stúdentum sem fara erlendis og sækja sér háskólamenntun er bara fjárfesting í samfélaginu okkar. Það er fjárfesting í framtíðarverðmætasköpun, fjárfesting í innviðunum okkar. Við lítum mjög jákvæðum augum á þetta, og þetta þarf að vera raunverulegur möguleiki fyrir fólk sama hvaðan það kemur. Að fara í nám erlendis má ekki vera einhvers konar forréttindi sem þú getur notið góðs af ef foreldrar þínir geta fjárhagslega stutt þig. 

Þetta er fjárfesting fyrir samfélagið og við þurfum að styðja vel við námsmenn erlendis.“

„Teljið þið Menntasjóðinn í núverandi mynd þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður?“

Guðmundur Ari: „Ekki að nægilega miklu leyti. Eitt sem hefur alltaf brunnið á mér er til dæmis hvað það er erfitt að snúa aftur í nám ef þú ert búinn að vera á vinnumarkaði. 

Ég veit að þú mátt vera með ákveðin tekjuviðmið en þau eru samt harkaleg fyrir millistéttarfólk sem langar að fara aftur í nám. Svo er það líka bara varðandi upphæðirnar, að þær séu raunverulega að tryggja að fólk geti sótt sér menntun án þess að þurfa að vera að vinna líka og þá detta skerðingarnar inn. Ég meina ef við drögum þetta saman, Menntasjóðurinn hentar ótrúlega vel ef þú getur búið í heimahúsi, hefur gott bakland og þarft ekki að vinna með námi. Þá færðu bara námslánin til að geta notað þau í svona líferni, vasapening og ef það gengur geðveikt vel í skólanum þá færðu endurgreiðslu. En um leið og það fer eitthvað að reyna á lífið, ef þú lendir í námserfiðleikum, þá áttu að endurgreiða. Ef þú þarft raunverulega að halda uppi fjölskyldu og vera á leigumarkaði, þá er þetta of lítið. Ef þú þarft að vinna með þá eru of miklar skerðingar. Það er eiginlega búið að sníða þetta þannig að þetta henti ofboðslega vel ef þú hefur sterkt bakland.“

Guðríður Lára bætir við að staðsetning hefur einnig áhrif, hvar þú sækir nám, hversu hár leigukostnaður er eða hvort þú hafir þá tök á að búa í foreldrahúsum eður ei.

„Við viljum að þetta virki betur sem jöfnunartæki og að við séum krítískari á þetta, er þetta raunverulega að virka út frá raunveruleika ungs fólks?“ segir Guðmundur Ari.

Og hvers konar endurbætur mynduð þið þá vilja sjá?“

Guðmundur Ari: „Það eru annars vegar þessar lágmarks framvindukröfur sem við mótmæltum mikið. Það er nauðsynlegt að grunnframfærsla námsmanna dugi fyrir almennum framfærslukostnaði og haldi í við launaþróun. Það þarf alltaf að vera gagnrýninn, hækka og endurskoða. Það er búin að vera gríðarleg verðbólga hér á landi og það bitnar verst á þeim sem þurfa á þessu að halda. Þegar Menntasjóðurinn heldur ekki í við launaþróun og verðlagsþróun og svo framvegis.“ 

„Þú talar um að fá fólk aftur heim, hvernig finnst ykkur að við getum, að ríkið geti þá stutt við nýstúdenta sem eru að koma aftur heim. Hvað viljið þið gera til að hvetja námsmenn til að koma heim, t.d. fólk sem er búið að vera í sérnámi í Svíþjóð og fólk annars staðar sem sér ekki alveg ástæðu til þess að koma heim, sökum kjara?

Guðmundur Ari: „Húsnæðismálin, vaxtaumhverfið, við þurfum að ná stjórn á þessu. Við þurfum að fara í aðgerðir í húsnæðismálum, fjölga eignum sem eru í framboði til að lækka og halda aftur af hækkunum á húsnæðismarkaði. Þetta er langstærsti útgjaldaliður fólks og þetta er langstærsta breytan. Þegar ég ræði við mína vini ræða þeirhvað það kostar að halda áfram að leigja í til dæmis Danmörku og hvað þeir geta gert ef þeir flytja heim. Þannig að, við þurfum að ná stjórn á þessum kerfum svo það sé raunhæft fyrir ungt fólk að koma heim. Og að það sé raunhæft fyrir ungt fólk að búa hérna sem er ekki einu sinni flutt út.“

Guðríður Lára: „Við erum líka búin að leggja fram frumvarp um breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni. Við viljum gera fæðingarorlofslöggjöfna þannig að hún sé að minnsta kosti jafngóð og á Norðurlöndunum ef ekki betri. Þar eru fullt af tillögum varðandi meiri sveigjanleika fyrir fólk sem er að flytja til landsins. Það eru fjöldamargar tillögur sem við erum búin að setja fram. Að styrkir til námsmanna verði líka hækkaðir verulega. Og að komið verði á svona meðgönguorlofi. Við erum með mjög margar tillögur til að breyta fæðingarorlofslöggjöfinni því hún er stór þáttur fyrir fólk sem er enn þá erlendis. Það hugsar: „Ef ég flyt heim með lítið barn eða ætla að eignast börn þá er bara betra að gera það í Svíþjóð“ og við viljum ekki hafa þetta þannig. Þú sérð að hlutirnir á Íslandi eru ekki jafn góðir. Það er lykilatriði að skapa hér fjölskylduvænt samfélag sem er sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum.“

Guðmundur Ari: „Þegar fólk lýkur námi þá er það að hefja ferilinn, það þurfa að vera góð störf í boði. Fjárfesta þarf í nýsköpun og rannsóknum og búa til öflugt atvinnulíf á Íslandi sem er eftirsóknarvert að starfa við. 

Fæðingarorlof er eitt, maður er að stofna til fjölskyldu. Þá þarf að koma sér upp húsnæði þannig að við þurfum að ná böndum á húsnæðismarkaðnum, verðbólgu og vöxtum. Við spáum þá í hvar lífsgæðin eru? Hvar eru góð kjör? Hvar er gott að alast upp? Við vitum það að flest vilja koma heim í grunninn, ef lífsgæðin bjóða upp á það. Við þurfum að tryggja það, það er helsta ástæðan, ein af mörgum, ef maður byggir á eigin reynslu. Fólk myndi vilja koma heim en það eru fleiri kostir en gallar við að halda áfram að vera erlendis. Við þurfum að einbeita okkur að þessu.

Af hverju ættu þau að koma heim á meðan staðan er eins og hún er? Það er nógu erfitt fyrir ungt fólk þegar ekki er verið að bregða fyrir þau fætinum. Það er mikilvægt að það séu ekki hindranir fyrir íslenska námsmenn að koma sér upp húsnæði, við eigum einmitt að gera það auðveldara með því að bæta markaðinn.“

„Hver er ykkar afstaða til hækkunar á skólagjaldalánum fyrir nemendur erlendis, því núna hafa námsmenn lent í því að það er takmark á hversu mikið lán má taka fyrir skólagjöldum?“

Guðríður Lára: „Við höfum náttúrulega verið að tala um ívilnanir fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem er að koma heim. Ég man ekki nákvæmlega hvernig útfærslan var en við vorum sem sagt með hugmyndir um að hvetja fólk til þess að koma og starfa á landsbyggðinni.“

Guðmundur Ari: „Niðurfelling námslána, fyrir lækna sem ráða sig til lengri tíma á svæðum þar sem læknaskortur er viðvarandi, það er dæmi frá Noregi, það er eitt. Og svo þarf að fjölga námsplássum í læknanámið hér heima. Það var það fyrsta sem ég hugsaði.“

Guðríður Lára: „Við viljum fjölga námsplássum hér, svo það þurfi síður að leita í rándýrt nám erlendis. En síðan einmitt vorum við með þessa tillögu til þess í rauninni hvetja fólk til þess að koma aftur heim og til þess að starfa einhversstaðar annarsstaðar en á höfuðborgarsvæðinu, að það væri einhvers konar niðurfelling á námslánunum. En það kemur kannski ekki beint inn á það sem þú ert að spyrja að, því þú ert væntanlega að tala um fólk sem tekur lán sem eru hærri en, fólk sem er að taka bankalán sem eru umfram.“

„Þú getur bara tekið ákveðna upphæð á skólagjöldum, og það er fyrir allt, BA nám, og þú ert þá með jafnmikið og ef þú værir að taka eitt ár í master.“

Guðmundur Ari: „Ef við förum í hlutverk Menntasjóðsins, hann á að vera jöfnunartæki og stuðla að því að fólk geti farið í nám. Þá þarf að vera mjög gagnrýninn á að öll hámörk séu að fanga veruleikann. Ef við gerum það ekki, þá er þetta aftur bara fyrir þau sem eiga sterkt bakland. Þeir sem eiga fjármagn geta farið og menntað sig þá á þessum stöðum. Auðvitað er það þannig að sumir skólar eru það dýrir að það er ekki hægt að elta þá út í hið óendanlega, en það er út frá markmiðinu sem við þurfum að rýna í Menntasjóðinn og að við vitum alltaf til hvers sjóðurinn er. Mér hefur fundist markmiðið síðustu ár einmitt frekar vera að gera Menntasjóðinn geðveikt næs fyrir þá sem hafa það næs, en ekki að reyna að tryggja að við getum öll tekið þátt og að við getum öll sótt okkur menntun. Við erum kannski ekki einmitt búin að útfæra hvað hámarkið á að vera þarna en við erum búin að vera að nálgast þetta út frá því að við séum að jafna stöðu fólks til að geta farið í nám óháð því hver þú ert og hverra manna þú ert.“

Hreyfanleiki stúdenta milli stúdenta og tækifæri til náms um allan heim, hafið þið þetta í huga þegar það kemur að alþjóðastefnu og samstarfi?“

Guðmundur Ari: „Já, við erum alþjóðasinnaður flokkur og við viljum stuðla að hreyfanleika fólks. Að það geti sótt sér menntun víða. Við eigum að halda úti öflugum styrkjasíðum eins og Farabara, sem er gert í samstarfi ríkisins og SÍNE, líka til að tryggja upplýsingaflæði. Við eigum að vera með öflug stuðningsúrræði, varðandi upplýsingar. Hvernig maður sækir um? Þetta getur verið svolítill frumskógur. Við viljum stuðla að því að fólk geti farið erlendis og tekið þátt í námi, því við lítum á það sem fjárfestingu fyrir samfélagið.“

Já og nei spurningar

„Viljið þið auka framlag til Menntasjóðs námsmanna?“: Já.

„Viljið þið hækka skólagjaldalán?“: Já.

„Viljið þið leysa stjórnsýsluhindranir sem blasa við Íslendingum sem snúa aftur heim?“: Já.

„Viljið þið lækka vaxtaþak námslána?“: Já.

„Viljið þið hækka niðurfellingu námslána við námslok?”: Getum ekki svarað. 

„Eruð þið hlynnt því að taka upp samskonar kerfi og eru á hinum Norðurlöndunum?“ Já.

„Finnst ykkur það hlutverk einstaklingsins eða samfélagsins að mennta sig?“ Samstarfsverkefni.

Er eitthvað sem þið viljið koma á framfæri við íslenska námsmenn erlendis í aðdraganda kosninga:

Guðríður Lára: „Fyrst og fremst að hvetja fólk til að nýta kosningaréttinn, fara og kjósa.“

Guðmundur Ari: „Sömu kjarnaskilaboð og við erum að segja við alla. Við erum að bjóða okkur fram til að fara aftur í kjarnann og laga grunnkerfin okkar. Búa til samfélag sem við viljum flytja aftur til, getum eignast húsnæði, komið okkur upp fjölskyldu, fáum heilbrigðisþjónustu ef við þurfum á henni að halda, getum eignast börn. Það sem við erum að forgangsraða í þessum kosningum er að skapa samstöðu um það að fara aftur í kjarnann. Það er það sem við erum að reyna að berjast fyrir.“