Skip to main content

Viðtalið er hluti af röð viðtala sem ritstjóri SÍNE tók við frambjóðendur flokka í komandi Alþingiskosningum en spurningarnar beindust aðallega að málefnum tengdum Menntasjóði  og kjörum námsmanna erlendis. SÍNE hafði samband við alla flokka í framboði, að undanskildum Ábyrgri framtíð þar sem hann býður einungis fram í einu kjördæmi.

„Menntun og stuðningur við hana er fjárfesting í framtíðinni.“

Katla Ársælsdóttir, ritstjóri Sæmundar, ræddi við Gísla Rúnar Ólafsson, tölvunar- og þróunarfræðing og þingmann Pírata sem skipar jafnframt 2. sæti  í Suðvesturkjördæmi fyrir hönd flokksins í komandi kosningum.

„Hvað vilja Píratar gera fyrir íslenska námsmenn erlendis?“

„Við höfum verið að horfa mikið á það hvernig kjör námsmanna eru. Framfærslulánin sem nemendur fá eru til dæmis allt of lág, hvort sem það er hér á landi eða erlendis, sjaldnast dugar þessi peningur til að lifa. Ég man sjálfur þegar ég var í námi í Danmörku fyrir 30 árum síðan eða svo, þá var það pasta og samlokur með skinku og osti það sem maður lifði á af því það var það sem maður hafði efni á. Og þá voru framfærslulánin nú samt betri en þau eru í dag. 

Við viljum tryggja að fólk sem fer í nám erlendis geti gert það á mannsæmandi hátt. Við höfum líka verið miklir talsmenn þess að auka til muna styrktarhlutann svo það dragi úr því að þegar fólk kemur síðan úr námi og er kannski að koma heim, að það sitji ekki uppi með heilmiklar skuldir á bakinu sem það getur ekki borgað til baka. Við erum að horfa á að bæta kjörin, en líka að vera með valkosti þar sem fólk getur farið í nám sem það leitast eftir og er ekkert alltaf í boði hérna heima. Það er fullt af námi sem er ekki í boði hér og þá þurfum við að opna á möguleikana fyrir fólk að taka það erlendis. Og þá þurfum við að tryggja að því fylgi ekki mikill baggi, líka þannig að það sé opið að fara á sem flesta staði í nám. Svo getum við alveg sagt að það sé annar vinkill á þessu, sem er sá að leyfa erlendum nemendum að koma hingað og opna enn meira á námið hér, fyrir erlenda aðila. Það gerir það að verkum að það gæti verið hægt að bjóða upp á nám hér sem fólk í dag er að sækja erlendis af því að það var ekki í boði. 

Eins höfum við talað mikið um að efla möguleika á fjarnámi vegna þess að staðsetning á ekki að skipta þig máli. Hvort þú ákveður að taka námið þitt einhversstaðar annarsstaðar, í öðru landi en að vera í námi á Íslandi. Af hverju er það ekki hægt?“

„Hvað vill þinn flokkur gera til þess að hvetja íslenska námsmenn erlendis til að flytja aftur heim? Teljið þið þau kjör sem eru í boði fyrir nýstúdenta hér á landi núna vera viðunandi?“

„Nei. Það er mjög einfalt svar. Það er í raun rosalega erfitt fyrir ungt fólk í dag, hvort sem það er að flytja heim erlendis frá eða klára nám hérna heima, þá er það rosalega erfitt. Húsnæðismarkaðurinn, það er ekkert í boði. Ef þú sérð fram á að þú sért að flytja heim til Íslands og þú þarft að flytja heim til foreldra þinna eða þú þarft að fara og finna þér leiguhúsnæði sem er alltof dýrt eða algjörlega óviðunandi.

Við þurfum að fara að addressa húsnæðismálin og við höfum verið talsmenn þess að horfa út fyrir boxið í þessum málum, sérstaklega þau sem hafa búið erlendis kannast við að það eru alls konar ólík búsetuform til, til dæmis á Norðurlöndunum. Þannig að við höfum verið að tala fyrir slíkum lausnum þegar kemur að húsnæðismálunum.

Það er líka þannig að ekki er allt nám metið á sama máta. Við þurfum að tryggja það að námið sé metið að þeim verðleikum sem það hefur. Síðan almenn kaup og kjör. Námsmenn byrja oft mjög neðarlega og það getur verið erfitt að fara frá því að vera námsmaður sem er með einhverja hugmyndafræðilega þekkingu, yfir í það að fá vinnu, af því að þau  vantar reynsluna. Það getur verið erfitt að byrja á vinnumarkaði. Við höfum lagt til að nemendur, hvort sem þeir eru í námi erlendis eða ekki, hafi rétt á atvinnuleysisbótum. Sem er í rauninni fáránlegt því ef þú vinnur í Bónus hverja helgi með námi, þá ertu að borga í atvinnuleysistryggingasjóðinn. En ef þú færð ekki vinnu yfir sumarið, þá færðu ekki atvinnuleysisbætur og við höfum verið að benda á svona göt og ýmislegt sem þarf að laga. Við höfum líka komið með hugmyndir, eins og ef þú kemur, ert búinn með eitthvað nám og ert með há námslán á bakinu, þá eru ákveðnar stéttir þar sem vantar til dæmis fólk úti á landi. Þá spyr ég mig, hvað ef þér býðst það að fyrir hvert ár sem þú vinnur úti á landi, kannski sem hjúkrunarfræðingur eða eitthvað slíkt, þá myndi kannski 10% af námslánunum þínum falla niður. Við þurfum stundum að búa til hvatana. Af hverju erum við ekki að búa til hvatana? 

Og það er svolítið þannig sem við hjá Pírötum viljum segja: „Getum við hugsað út fyrir boxið, getum við fundið lausnir sem tækla vandamálin með því að hugsa aðeins öðruvísi en við höfum gert síðustu áratugina?“ 

„Teljið þið Menntasjóð námsmanna, í núverandi mynd sinni, þjóna hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður?“

„Nei. Algjörlega ekki. Þær breytingar sem gerðar voru á Menntasjóðnum fyrir 3-4 árum markaðsvæddu hann algjörlega. Í fyrsta lagi er það þannig að það er algjörlega ætlast til þess að hann sé rekinn á núlli. Sem er bara allt annað konsept heldur en lánasjóðurinn var þar á undan. Bara gott dæmi: það sem er gert núna, það er alltaf vitað mál að einhver hluti námsþega mun deyja, eða ekki geta greitt af öllu láninu áður en þeir eru orðnir of gamlir. Það er samt sem áður gert ráð fyrir því, þið eruð rukkuð, hærri vextir og svona, til þess að borga niður fyrir þá sem detta út úr kerfinu. 

Það sem þarf að gera er að endurhugsa þennan sjóð, hann á að vera jöfnunartæki. Hann á að orsaka það að fólk geti farið í nám og hann á ekki að vera þessi svakalegi hlekkur og bara byrði sem fólk er með.

Á Norðurlöndunum er miklu meira um styrkjakerfi. Það er alls konar sem þarf algjörlega að endurhugsa og finna leiðir til þess að Menntasjóðurinn sé tæki sem hjálpar fólki að fara í nám sé félagslegt jöfnunartæki. Menntun og stuðningur við hana er fjárfesting í framtíðinni. Það að þú farir í nám, það að þú lærir, þó ríkið endi á því að afskrifa hluta af þeim kostnaði sem hann er að lána þér, hvort sem það er að breyta lánum í styrki eða eitthvað annað, þá er það peningur sem mun koma tífalt til baka. Það gleymist oft hvað framtíðarkostnaðurinn verður mikill, eða hvað framtíðartekjurnar verða miklar. Við erum mjög mikið að horfa á þetta svona, að horfa ekki bara á það sem er að gerast núna heldur hvaða áhrif mun þetta hafa til lengri tíma.“

„Hvernig endurbætur sjáið þið fyrir ykkur varðandi Menntasjóð námsmanna, ef einhverjar?“

„Við viljum auka möguleika á því að Menntasjóðurinn mætti fella niður lán. Það var hlutur sem við heyrðum, ekki einungis frá nemendum heldur einnig frá starfsfólki Menntasjóðsins. Þau vildu hafa meiri sveigjanleika, sérstaklega ef það koma upp alvarleg veikindi eða slíkt. Lögin eru ekki nógu sveigjanleg til þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna. Þetta eru dæmi um það sem við höfum lagt fram. Við vildum líka að húsnæðisframfærslulánið væri hærra. Þetta er hluti af því sem við höfum lagt fram. Við lögðum þetta fram sem breytingar við núverandi lög en við sögðum að það þyrfti algjörlega að endurskoða lögin, en að þetta væru breytingarnar sem hægt væri að gera um leið.“

„Hver er ykkar afstaða til hækkunar á skólagjaldalánum svo hægt sé að sækja sér fjölbreytt tækifæri til náms (fyrir t.d. læknanema í Ungverjalandi og nemendur í Bretlandi)?“

„Skólagjaldalánin eru náttúrulega eitthvað sem hefur að mestu leyti áhrif erlendis, sérstaklega í þeim löndum þar sem skólagjöldin eru mjög há. Við höfum hins vegar talað fyrir möguleikanum til náms og hluti af því eru skólagjöldin. Þar eru náttúrulega ákveðin vandamál, í sumum löndum hækka skólagjöldin reglulega og mikið. Það sem við höfum horft á þar er að tryggja að ef þú vilt fara í skóla sem kostar þá ertu að borga það til baka með láninu þínu. En á móti kemur ertu mögulega að fá hærri laun, af því að þú fékkst dýrari eða betri menntun. Það er kannski hægt að vera með eitthvað heildarþak á skólagjaldalánum, allt í allt, en þau þurfa að vera miðuð við það hvernig skólagjöldin eru, ekki miðað við það sem eitthvað Excel skjal segir þér.“ 

Hreyfanleiki stúdenta milli landa og tækifæri til náms um allan heim, hafið þið þetta í huga þegar kemur að alþjóðastefnu og samstarfi?“

„Ég myndi segja það. Við erum kannski svolítið spes að því leyti að þinghópurinn sem er núna, við höfum nánast öll lært erlendis og búið erlendis. Það er þannig að þegar þú hefur gert það, þá færðu aðra sýn á heiminn. Fyrir okkur er fjölbreytileikinn mikilvægur, við vitum að menntun erlendis skapar einstakling sem er víðsýnni, getur leyst flóknari vandamál, kann að tækla fjölmenningu og alla þessa hluti, miklu betur en einstaklingur sem hefur ekki þá reynslu. 

Fyrir einhverjum árum skoðaði ég bakgrunn allra þingmannanna í ríkisstjórninni. Enginn þeirra hafði búið erlendis, einn þeirra hafði farið í þrjá mánuði í lýðháskóla í Danmörku. Það var allt og sumt. Og þegar talað var við viðkomandi um eitthvað sem varðaði útlönd, erlenda menningu eða eitthvað slíkt, þá hafði hann engan skilning. Sem betur fer er það ekki alveg svoleiðis með núverandi ríkisstjórn en þetta skiptir svo miklu máli. 

Við höfum verið mjög virk í alþjóðastarfinu, innan þingsins höfum við verið innan EES/EFTA nefndarinnar sem er til dæmis að vinna mikið með þetta ferðafrelsi og námsferli og annað milli Evrópulanda. Við höfum líka verið með fulltrúa í Evrópuráðinu, þar sem mikið er talað um mannréttindi og annað þvert á lönd. Við höfum líka leitast eftir því að vera í alþjóðastarfi innan þingsins, af því að við erum með þennan bakgrunn og af því að við skiljum hvaða áhrif það hefur.“

„Hvert er ykkar viðhorf til þess að skattleggja námsstyrki?“

„Mér finnst það mjög asnalegt. Að skattleggja þá. Af því þarna er verið að verðlauna þig fyrir að sækja þér nám og það er gott að hafa hvata til þess. Af hverju er verið að skattleggja þá? Það er bara verið að letja námsmenn.“

„Hvernig sjáið þið fyrir ykkur að greiða aðgengi fjölskyldufólks að fara út, sem og að snúa heim úr námi erlendis, m.t.t. fæðingarorlofssjóðs námsmanna?“

„Eitt af því sem við tækluðum í okkar frumvarpi sem við settum fram á síðasta þingári, var fæðingarorlofið. Það er tvennt sem þarf að gera þar, annars vegar er það að tryggja það að námsmönnum sé ekki refsað fyrir að eignast börn, því það er þannig í dag. Þú færð lægri framfærslu í fæðingarorlofi en þú færð á námslánum og það er algjört rugl. Ekkert annað. 

Það sem þarf líka að gera er að lögfesta leikskólastigið, við höfum talað um það. Ef þú gerir það þá þarf leikskólapláss að vera mögulegt á þeim tíma sem fæðingarorlofið endar. Þá þarf ríkið að tryggja það að sveitarfélögin fái fjármagn á móti, hluta af skatttekjum eða eitthvað slíkt, sem  „coverar“ þennan auka kostnað sem fylgir því að vera með leikskólapláss frá 12 mánaða aldri. Þetta er liður í því að hjálpa fólki við að koma heim. Það tengist líka húsnæðismálunum. Ýmislegt þess háttar þarf að hafa í huga. Fyrsta skrefið er samt að passa að þér sé ekki refsað ef þú verður ófrísk.“

„Hverjar eru ykkar skoðanir á tímatakmörkum námsárangurs, þ.e. að námsmenn þurfi að ljúka námi innan tilskilins tímaramma til að hljóta 30% niðurfellingu á láninu? Sjái námsmaður ekki fram á að ljúka námi á tilsettum tíma, og sér þar með að útilokað er að fá 30% niðurfellingu, hefur hann ekki sama hvata til að ljúka námi.“ 

„Við lögðum bæði fram frumvarp í fyrra og breytingartillögu á lögin sem að komu fram. Þar vildum við hækka styrktarhlutfallið. Við vildum byrja á því að hækka það upp í 40% og við lögðum líka til meiri sveigjanleika í því hvernig þú klárar. Tókum þar norrænar fyrirmyndir. Við lögðum líka til að einingarnar sem þú þarft að klára á önn myndu lækka niður í 10 ECTS, þá fengirðu þriðjung af láninu, það hefði þau áhrif. Við lögðum fram að það væri fundin ein grunnframfærsla í öllu, s.s. sem allt væri miðað við, hvort sem það væri námslánaframfærslan eða örorkubætur eða atvinnuleysisbætur. 

Það er til dæmis gerð krafa um ákveðið há laun ef þig langar að flytja hingað til lands, til að geta framfleytt þér, en námsmenn eiga að framfleyta sér á ekki einu sinni þriðjungi af því. Þannig að við lögðum til að grunnframfærsla yrði sú sama og atvinnuleysisbætur.“

Já og nei spurningar

„Viljið þið auka framlag til Menntasjóðs námsmanna?“ „Já.“

„Viljið þið hækka skólagjaldalán?“ „Já.“

„Viljið þið leysa stjórnsýsluhindranir sem blasa við Íslendingum sem snúa aftur heim? Einhverjar sérstakar?“ „Já. Fæðingarorlofsstyrkinn, til dæmis.“

„Viljið þið lækka vaxtaþak námslána?“ „Já.“

„Viljið þið hækka niðurfellingu námslána við námslok?„ „Já.“

„Eruð þið hlynnt því að taka upp samskonar kerfi og eru á hinum Norðurlöndunum?“ „Já.“

„Finnst ykkur það hlutverk einstaklingsins eða samfélagsins að mennta sig?“ „Við viljum að einstaklingurinn geti ráðið og valið nám við sitt hæfi. Það á heldur ekki að vera þannig að samfélagið ákveði að nú vanti fólk í ákveðna starfstétt, heldur ef þig langar að læra t.d. list, sem er kannski ekki það sem gefur þér milljónir í laun, en það er skapandi og er þar sem áhugasvið þitt liggur, þá eigum við að styðja þig í því, líkt og við myndum styðja annars konar nám. Þannig að ég myndi segja einstaklingurinn frekar en samfélagið.“

„Lokaspurning: Er eitthvað sem þið mynduð vilja koma á framfæri til íslenskra námsmanna erlendis í aðdraganda kosninga?“

„Í fyrsta lagi minna námsmenn erlendis að þeir geti kosið og að það skiptir máli að kjósa. Sérstaklega vegna þess að ef ungt fólk kýs ekki, þá er það gamla fólkið sem ræður því hvers konar stjórnmálafólk við fáum. Ungt fólk í dag lifir við breytta heimsmynd. Þið hugsið um loftslagsbreytingar á allt annan hátt en fólk á mínum aldri. Ef þið viljið að loftlagsbreytingar séu tæklaðar, þá þurfið þið að kjósa fólkið sem ætlar að gera það. Ef þið viljið að Menntajsóðskerfinu sé breytt og það sé sniðið að því hvernig þið sjáið heiminn, þá þurfið þið að kjósa öðruvísi. Það þarf að kjósa aðra en þá sem markaðsvæða hann og annað. 

Það sem ég myndi vilja undirstrika er að rödd ungs fólks, sér í lagi námsmanna erlendis, þarf að heyrast. Við lögðum fram þingsályktun í fyrra um bætt réttindi og kjör fyrir Íslendinga búsetta erlendis, óháð því hvort þeir væru í námi eða ekki. Það er bara fullt af hlutum sem fólk sem er búsett erlendis lendir í vandræðum með. Þetta er hópur sem gleymist mjög oft. Og þetta er hópur sem er ekki að koma til baka vegna þess hvernig stjórnmálin eru á Íslandi. Við þurfum að breyta því. Við þurfum að fá þetta fólk til baka. Fólk með menntun, reynslu, innsýn inn í aðra menningarheima. Vegna þess að við erum að breytast. Samfélagið okkar er að breytast. Við í Pírötum sem höfum búið erlendis, sum hver í mörg ár, við skiljum betur hvað þið eruð að ganga í gegnum. Þetta er allt hlutir sem við viljum fá fólk til að hugsa. Við þurfum að fá fólk til að taka þátt. Af því hlutirnir breytast ekki ef fólk mætir ekki á kjörstað, eins og við erum að sjá hvað varðar kosningaþátttöku ungs fólks. Kjósið öðruvísi.“