Áherslur LÍS skólaárið 2023 – 2024
Á nýliðnu starfsári fór fram lögbundin endurskoðun á lögum um Menntasjóð námsmanna, og því var ein af höfuðáherslum samtakanna sú að berjast fyrir því að samráð yrði haft við stúdenta á öllum stigum. Stúdentar hafa barist fyrir bættu lánasjóðskerfi í áraraðir, en yfir tíu ára tímabil minnkaði aðsókn í sjóðinn um 40% (frá árinu 2010 – 2020), á sama tíma og Ísland útskrifar færri með háskólagráður í samanburði við hin Norðurlöndin og íslenskir stúdentar eiga Evrópumet í atvinnuþátttöku. Til þess að kanna efnahagslega og samfélagslega stöðu stúdenta á Íslandi sem og íslenskra stúdenta erlendis lögðu LÍS og Bandalag háskólamanna (BHM) í fyrsta sinn lífskjararannsókn fyrir stúdenta – niðurstöður kannanarinnar verða svo nýttar til að heyja markvissa hagsmunabaráttu og bæta kjör allra íslenskra stúdenta á komandi starfsári.
Að hausti 2023 réðust LÍS og BHM í sameiginlega herferð sem bar yfirskriftina Mennt var máttur, sem fjallaði alfarið um námslánakerfið og afleiðingarnar sem skortur á stuðningi við stúdenta hefur haft fyrir fólk í námi, vinnumarkaðinn og samfélagið í heild sinni. Herferðin var bæði á samfélags- og vefmiðlum auk þess sem sýning var sett upp í Safnahúsinu og í Smáralind. LÍS hóf svo herferð um námslánakerfið á nýjan leik í aðdraganda umræðu um frumvarp háskólamálaráðherra á Alþingi, en sú herferð bar titilinn Háskólamenntun enn í hættu og lagði áherslu á þrjár grundvallarkröfur stúdenta; sanngjörn framfærslulán, námsstyrki að norskri fyrirmynd og lægri vexti.
LÍS hefur barist ötullega fyrir nauðsynlegum breytingum á fyrirkomulagi námslána hér á landi sem taka mið af fjölbreyttum aðstæðum fólks í námi hérlendis og erlendis og tryggja að Menntasjóður námsmanna uppfylli markmið sitt um að vera félagslegur jöfnunarsjóður sem veitir stúdentum tækifæri til náms óháð efnahag og félagslegri stöðu. Stuðningur við nemendur er forsenda framþróunar, og þær breytingar sem lagðar eru til í nýju frumvarpi ráðherra duga hvergi nærri til ef bæta á raunverulega kjör stúdenta og styðja við íslenskt þekkingarsamfélag.
Taktu þátt í starfi Landssamtaka íslenskra stúdenta!
Ef þú ert íslenskur háskólanemi erlendis, ertu hluti af LÍS! Ef þú vilt taka virkari þátt getur þú sótt um í nefndarstarf á haustin, og á vorin er opið fyrir framboð í framkvæmdastjórn. Í stjórn sitja forseti, varaforseti, gæðastjóri, jafnréttisfulltrúi og alþjóðafulltrúi. Hver meðlimur í framkvæmdastjórn hefur sína nefnd – ef þú hefur áhuga á að vera með í nefndum LÍS fyrir skólaárið 2024-2025 geturðu sent okkur skilaboð á Facebook, Instagram eða í gegnum tölvupóst (lis@studentar.is). Nefndarstörf eru opin öllum stúdentum!
Nefndir LÍS:
- Alþjóðanefnd
- Fjármálanefnd
- Gæðanefnd
- Jafnréttisnefnd
- Lagabreytingarnefnd
Upplýsingar um hlutverk og störf hverrar nefndar og nánari upplýsingar um LÍS – til dæmis það sem við höfum verið að gera, lög og verklag – má finna á heimasíðu okkar studentar.is.