
Sem einhver sem býr ekki yfir miklum hæfileikum í eldhúsinu og finnst almennt fremur leiðinlegt að sinna eldamennsku er mér mjög mikilvægt að vera með rétt sem auðvelt er að elda, er fljótlegur og þrifin séu í algjöru lágmarki. Þegar ég var úti í námi deildi ég eldhúsi með nokkrum öðrum, mér til mikils ama enda hafði ég gjarnan takmarkað eftir að félagsbatteríinu eftir langan dag og enn takmarkaðri þolinmæði fyrir subbuskap annarra. Í þeim aðstæðum var þessi tiltekni kjúklingabaunaréttur mjög vinsæll hjá mér en hann er fullkominn „meal prep” réttur og því þurfti ég að hafa enn minna fyrir kvöldmatnum næstu daga. Auk þess er hann vegan og hráefnin eru ódýr! Ég ætla ekki endilega að segja að þetta sé hinn fullkomni réttur en hann er engu að síður mjög góður kostur.
Hráefni:
⬤ Kjúklingabaunir
⬤ Kókosmjólk
⬤Sólþurrkaðir tómatar
⬤ Kartöflur
⬤ Hvítlaukur
⬤ Laukur
⬤ Ólífuolía
⬤ Tómatpúrra
⬤ Grænmetiskraftur
⬤Spínat eða grænkál
⬤Krydd að eigin vali
⬤Hrísgrjón og brauð eða annað meðlæti að eigin vali
Aðferð:
Skerið hálfan lauk niður í litla bita og steikið á pönnu með dass af ólífuolíu við meðalhita.
Þegar laukurinn er búinn að mýkjast eilítið bætið þið við hálfum söxuðum hvítlauk, eða eins mikið og ykkur lystir! Því næst bætið þið við u.þ.b. 150gr. af sólþurrkuðum tómötum sem ég mæli með að þið skerið niður í litla bita svo þeir blandist vel við þau hráefni sem á eftir koma.
Nú væri tímabært að bæta kryddunum við og hræra vel áður en 600gr. af grænmetiskrafti er síðan hellt á pönnuna ásamt niðurskornum kartöflum en það er gott að leyfa þeim að sjóða í grænmetiskraftinum.
Val á kryddi er mjög persónubundið og algjört smekksatriði en þau krydd sem ég mæli með eru:
⬤ salt
⬤ pipar
⬤ oregano
⬤ chilli
⬤ hvítlaukssalt
Því næst má bæta við einni dós af kókosmjólk eða um það bil 400ml. Hækkið hitann eilítið og látið malla í nokkrar mínútur áður en þið bætið við 400gr. af kjúklingabaunum (skoluðum og án vatnsins ef þær liggja í slíku) og eins mikið af spínati eða grænkáli og ykkur langar. Slökkvið undir og leyfið að malla þar til þið viljið gæða ykkur á þessu!
Ég mæli með að hafa hrísgrjón með en kúskús og kínóa virka einnig vel. Annars má líka bara borða þetta eintómt – eða hvernig sem þið viljið, þetta eru bara tillögur!