Skip to main content

Jól í Skotlandi

Arna Dís Heiðarsdóttir skrifar.

Við fögnum öll hátíðunum á ólíkan hátt. Höldum til dæmis í mismunandi hefðir og siði og verjum þeim í ákveðnum félagsskap. Fyrir mér snúast hátíðarnar um samveru með nærfjölskyldunni og að snæða ekta hátíðarmat. Alveg frá því að ég man eftir mér varði ég jólunum á Íslandi, með foreldrum, ömmu og afa og systkinum – og hef í raun ekki þekkt annað fyrirkomulag yfir hátíðarnar. Því fannst mér hugmyndin um að verja jólunum fjarri fjölskyldunni og auk þess í öðru landi bæði fjarstæðukennd og óhugsandi.

Við unnusti minn, Sindri, héldum til Glasgow í Skotlandi í mastersnám í september síðastliðnum, án þess að vera með flugmiða heim til Íslands aftur. Ég hafði það alltaf á bakvið eyrað að bóka flug heim fyrir jólin; því auðvitað ætlaði ég ekki að missa af jólunum á Íslandi, heldur verja þeim þar líkt og öllum hinum 22 jólunum í mínu lífi. Skólinn, Skotland og félagslífið tók meira og minna yfir í október og við veltum desember ekki mikið fyrir okkur. Enda væru alveg tveir mánuðir þangað til og „við skulum ræða það seinna” varð vinsæl lína á heimilinu. En svo allt í einu hófst desember mánuður og þá kom í ljós að Sindri hafði ekki mikinn áhuga á að fara heim. Bæði vegna praktískra ástæðna eins og fokdýrs flugmiða en einnig vegna þess að Sindri er ekki jafn mikið jólabarn og ég. Sindri hefur varið ótal mörgum jólum erlendis, þar á meðal dvaldi hann einn í Brasilíu um jólin 2013; svo að uppeldi okkar og reynsla er fremur ólíkt er kemur að hefðum hátíðanna.

Ég ætla ekki að ljúga og segja að þetta hafi verið auðvelt, af því að ég hef aldrei fundið fyrir jafn mikilli heimþrá og desember dagana sem liðu hver af öðrum fram að jólum. Mér þótti erfitt að fylgjast með jólahefðum, sem ég hef tekið þátt í síðastliðna tvo áratugi, í gegnum símann. Það sem hreinlega bjargaði mér frá því að bóka flug heim með dags fyrirvara var þolinmæði Sindra. Hann var ekki að upplifa jólin erlendis í fyrsta skipti og gerði allt sem honum datt í hug til þess að lyfta mér upp og skapa nýjar jólahefðir sem við eigum núna saman. Sindri eldaði vegan wellington frá grunni og ég lagaði jólagraut að hætti mömmu minnar. Við sköpuðum mörg dýrmæt augnablik á aðfangadag, í fyrsta skipti við tvö saman ein um hátíðarnar.

Eftirá að hyggja er ég innilega þakklát fyrir að hafa varið jólunum 2024 erlendis. Það urðu til nýjar og dýrmætar minningar sem við Sindri geymum í hjörtum okkar. Ég leyfði mér að takast á við annars konar áskoranir og síðast en ekki síst verð ég ævinlega þakklát honum Sindra fyrir að skipuleggja ótal kósýkvöld, elda góðan mat og sýna mér hvað jólin geta verið dásamleg, eftirminnileg og hlý, jafnvel og kannski einmitt vegna þess að þau eru ólík öllum fyrri jólum og öllum hefðum og siðum sem ég taldi áður ómissandi.