Skip to main content

Heimkomu-menningarsjokk

By 31/12/2024Á heimleið

Á heimleið er upplýsingapakki SÍNE er varðar ýmis hagnýt atriði sem gott er fyrir íslenska námsmenn erlendis að huga að við heimkomu, t.d. flutningur lögheimilis, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, búslóðarflutningar, greiðslumat, o.fl. 


Þetta efni er unnið upp úr grein sem Theodóra Listalín skrifaði fyrir síðasta tölublað Sæmundar.  

Heimkomu-menningarsjokk (e. reverse culture shock) er fyrirbæri þar sem einstaklingar sem hafa eytt umtalsverðum tíma í framandi landi, þurfa nú að aðlaga sig aftur að heimamenningu sinni. Samkvæmt Dr. Bruce LaBrack (2006) upplifir fólk heimkomu-menningarsjokk við að snúa aftur í fyrra líf, taka upp gamlar venjur eftir að hafa varið dágóðum tíma í nýju og spennandi umhverfi.

SÍNE hefur tekið saman nokkrar frásagnir fólks sem hefur upplifað heimkomu-menningarsjokk: 

  • „Þegar við vinkonurnar keyrðum í þrjár mínútur til að fara í búð. Við hefðum þannig séð átt að ná að ganga í búðina. En það eru engir öruggir göngustígar að búðinni. Ég upplifði einhverja óútskýranlega tilfinningu um að ég hafi misst –  eða öllu heldur gefið frá mér –  lífsgæði sem væru ekki í boði á Íslandi. Í Danmörku komst ég allt á hjóli eða gangandi, þegar ég flutti heim fannst mér ég alltaf vera undir stýri.”
  • „Ég gekk lengi á milli frystiskápa í matvöruverslunum að leita mér að lakkrísflauginni frá Kjörís. Eftir tveggja mánaða dvöl á Íslandi var ég ekki enn búinn að finna ísinn og sætti mig við að ísinn væri ekki lengur fáanlegur.” 
  • „Bleikur kristall hvarf af markaði á meðan ég lærði í Bandaríkjunum. Tíminn stóð ekki í stað.”
  • „Ein jólin fékk ég svo mikið heimkomusjokk að ég ákvað að það væri alls ekki fyrir mig að koma heim.“
  • „Bjóst aldrei við að segja þetta, en ég sakna vöruúrvalsins í hollenskum matvörubúðum mjög mikið.” 

Hvað er hægt að gera? 
Besta ráðið er að gera ráð fyrir aðlögunarferli að heimahögum. Gott er að undirbúa sig og átta sig á því að mun taka tíma að aðlagast lífinu heima, alveg eins og þegar út var haldið. Gerðu ráð fyrir þessum áhyggjum, ekki fara í vörn og mundu að þessar tilfinningar munu líða hjá. Vertu sveigjanleg, víðsýn og skilningsrík.
Vertu raunsær í væntingum þínum um hversu áhugaverð ferðin þín verður fyrir aðra, það eru margir sem geta ekki tengt við sögu þína og hafa því takmarkaðan áhuga á henni. Finndu fólk sem hefur svipaða reynslu sem gæti haft meiri áhuga og sættu þig við að deila aðeins hápunktunum ferðarinnar til að byrja með. Það er í lagi að miðla ekki öllu vægi upplifunarinnar.

Þú ættir líka að æfa virka hlustun og sýna áhuga á því sem aðrir hafa verið að gera á meðan þú hefur verið erlendis. Þú gætir þurft smá tíma til að rifja upp það sem hefur gerst heima á meðan þú varst úti. Gerðu þér grein fyrir því að þú og fólkið hefur bæði breyst í fjarveru þinni – í sumum tilfellum til hins betra, í sumum til hins verra

Haltu sambandi við vini og samstarfsmenn sem þú hefur hitt erlendis og hlakka til þess tíma sem þú munt fá að tengjast aftur í eigin persónu í framtíðinni.

Gerðu þér grein fyrir því að hvert samfélag hefur sína jákvæðu og neikvæðu þætti, reyndu að einblína ekki á það neikvæða og gerðu þér grein fyrir því að þessar tilfinningar munu hverfa þegar þú aðlagar þig aftur að lífinu heima.

Sjálfsmildi er lykilatriði
Það að koma heim getur vakið upp allskonar tilfinningar; spennufall, vonbrigði, mikill léttir eða auðmýkt. Tilfinningarnar geta líka komið í bylgjum og/eða ólíkar tilfinningar birst samtímis, til dæmis mikil gleði að sjá gamla vini, og sorg við að yfirgefa nýja vini. Það er engin ein rétt tilfinning við það að koma heim, og það sem skipti mestu máli er að þú sýnir þér sjálfsmildi og skilning á því sem þessar flutningar hafa í för með sér. Þetta verður allt í lagi.