Áður en ég eignaðist son minn hljómaði tal mitt um barneignir eitthvað á þennan veg: “Já þegar ég er búin með master og búin að vera á vinnumarkaði í smá tíma þá er fínn tími til að eignast barn, þegar maður er kominn með íbúð líka.”
En svo fór að sumarið fyrir síðasta árið mitt í mastersnámi komst ég að því að ég væri ólétt. Ég gladdist við að sjá tvær bleikar línur á þungunarprófinu en tautaði líka “fokk”.
Að eiga von á barni sneri lífi mínu á hvolf á yndislegan hátt. Settur dagur var 1. apríl 2024. Ég átti fram undan haustönn í starfs- og vettvangsnámi og skilafrest mastersritgerðin 2. júní 2024. Ég gat ekki hugsað mér að eiga bara mastersritgerðina eftir þegar barnið kæmi. Ég mætti fljótlega á skrifstofuna hjá leiðbeinandanum og útskýrði fyrir honum af hverju ég þyrfti að skipta um stefnu og skila ritgerðinni fyrr, samtvinna hana með vettvangs-önninni.
Ég hélt líka að fæðingarorlof eða fæðingarstyrkur námsmanna yrði auðfenginn þar sem að ég sneri aftur til Íslands eftir tveggja ára nám með 120 eininga MA-gráðu. Á síðasta starfsári gerðum við einmitt upplýsingapakka um rétt námsmanna til fæðingarorlofs á Íslandi og virtist það nokkuð borðleggjandi.
Þegar sonur minn var níu daga gamall sat ég við tölvuna og tók saman skjöl sem vantaði upp á umsóknina mína. Ég skilaði inn prófskírteini frá Háskólanum í Árósum og yfirliti yfir loknar einingar, á seinna skjalinu sást að á bilinu 1. apríl 2023 og 1. apríl 2024 lauk ég 60 einingum. Ég útskrifaðist með viku gamalt barn í fanginu og prófgráðan staðfesti að ég hefði lokið 120eininga mastersnámi tveimur mánuðum á undan áætlun. Ég hélt því að ég væri gulltryggð og fengi fæðingarstyrk námsmanna um leið og starfsmenn sjóðsins myndu sjá pappírana.
En svo fór ekki.
Ég er enn ekki viss hvernig umsókn mín blasti við starfsfólki Fæðingarorlofssjóðs en þau kusu að hundsa bréf frá skólanum sem útskýrði að ég hafi skrifað mastersritgerðina á haustönn.
Þá var aðeins eitt eftir í stöðunni, að fá læknisvottorð sem sannaði að ég hafi verið of veik til að stunda nám á haustönn 2023. Það reyndist erfitt, eins og fram hefur komið í greininni stundaði ég í rauninni meira en fullt nám haustið 2023. En það bjargaði mér fyrir horn að upprunalegi skilafrestur mastersritgerðarinnar var í lok janúar. Ég varð veik í janúar og fékk þá læknisvottorð til að færa skilafrest ritgerðarinnar um 6 vikur. Þá hófst næsti kafli umsóknarferlisins – að koma læknisvottorði í gegnum nefnd trúnaðarlækna Fæðingarorlofssjóðs og Vinnumálastofnunar. Skólavottorðið sem ég hafði fengið í janúar töldust ekki vera gildir pappírar. Ég fór þá til sama læknis og gaf út skólavottorðið. Hún fyllti út sérstaka pappíra frá Vinnumálastofnun, prentaði þá út, undirritaði með bláum penna og sendi blaðið með bréfapósti á Hvammstanga. Allt samkvæmt reglum. Seinna læknisvottorðið var samþykkt. Ég fékk fæðingarstyrk námsmanna þegar sonur minn var 10 vikna gamall, þá hafði ég staðið í 15 vikna umsóknarferli og eru mínar fyrstu vikur sem móðir litaðir af pappírsvinnu, samskiptum við fæðingarorlofssjóð og tveimur tekjulausum mánaðamótum.
Þetta er vandamál sem námsmenn erlendis reka sig gjarnan á, námið þeirra er skipulagt öðruvísi en íslenskt nám eða lítur einfaldlega öðruvísi út á pappír, stundum gefa skólar ekki út nákvæmlega þau skjöl sem íslenskt kerfi biður um. Það myndi eflaust spara bæði hinu opinbera pening og námsmönnum tíma og streitu að einfalda ferlið og kröfurnar. Vegna Norðurlandasamninga þurfa allir sem fara frá Íslandi til annarra Norðurlanda til að stunda nám að færa lögheimilið sitt. Það flækir tryggingamál oft heilmikið. Í ofanálag virðist Fæðingarorlofssjóður ekki vera í stakk búinn, eða einfaldlega ekki viljugur til þess að lesa úr gögnum sem berast frá erlendum háskólum. Það lendir því á námsmönnum að huga að því hvort skipulag námsins falli að skipulagskröfum íslenska kerfisins. Lotunám virðist ekki litið sömu augum og gæti komið námsmanni í vandræði ef stefnt er á barneignir á meðan námi stendur.
Ég verð því miður að ráðleggja námsmönnum í minni stöðu að gera allt sem þau geta til þess að stunda námið sitt eftir væntingum fæðingarorlofssjóðs.
Höfundur: Þórdís Dröfn Andrésardóttir, forseti SÍNE