Skip to main content

Emil í BNA – Rannsóknardvöl við Hagfræðideild Brown Háskóla

Af hverju Bandaríkin?

Þegar ég tók þá ákvörðun að byrja í doktorsnámi við Háskóla Íslands vildi ég að hluti þess náms væri við erlendan skóla. Ég hafði séð aðra doktorsnema hefja rannsóknardvalir og sitja áfanga við virta háskóla erlendis sem mig langaði líka að gera. Eiginkona mín, Guðbjörg Ríkey, er einnig í doktorsnámi og okkur hafði bæði dreymt um að stunda nám í skólum á austurströnd Bandaríkjanna og vissum við að Fulbright styrkur myndi leyfa okkur að dvelja tímabundið við slíka skóla. Við hugsuðum okkur að við þyrftum að láta á reyna og í versta falli fengjum við bara neitun, þá var bara spurning hvernig væri best að fara að.

Hvernig okkur var boðið

Það var ekki fyrr en mér var boðið á hagfræðiráðstefnu við Hilton Hótel sem ég sá tækifæri hvernig væri hægt að láta slíka dvöl verða að veruleika. Þetta var lítil ráðstefna en þó með virtum fræðimönnum. Á ráðstefnunni benti kollegi minn mér á að einn fræðimannanna sem var viðstaddur ráðstefnuna var John Friedman sem er einn fremsti fræðimaður á því sviði sem mínar rannsóknir eru. Ég komst fljótt á tal við hann þar sem ég sagði honum stuttlega frá rannsóknum mínum og spurði einfaldlega hvort ég mætti koma í rannsóknardvöl við Brown háskóla þar sem hann er deildarforseti hagfræðideildarinnar. Honum leist ágætlega á, ég sendi honum síðan frekari upplýsingar um doktorsverkfenið mitt og í kjölfarið sagði hann mér að það væri áhugi hjá deildinni á slíku efni og bauð mér að koma.

Næsta skref fyrir okkur Ríkeyju var að finna út úr því hvernig hægt væri að gera þetta að raunveruleika, þá með eitt barn og annað á leiðinni. Við Ríkey byrjuðum á að skoða hvernig best væri að sækja um Fulbright styrki og eitt sem við heyrum myndi hjálpa slíkri umsókn væri að vera með boð til Bandaríkjanna. Ríkey sótti þá um stöðu sem rannsakandi á doktorsnemastigi (e. Predoctoral Fellow) við Arctic Initiative við Harvard háskóla en hún hafði kynnst fólki þar þegar hún starfaði áður við Alþjóðamálastofnun HÍ. Eftir nokkur viðtöl ákváðu þau að bjóða Ríkeyju stöðuna sem þýddi að við vorum bæði komin með boð til Bandaríkjanna. Hennar boð kom þó stuttu eftir að við fréttum að við hefðum bæði hlotið Fulbright styrki.

Leikskólar og borgin Providence

Við fluttum út í september 2023 og komum út í rosalegan hita. Við mættum í nýju íbúðina okkar sem er staðsett á háskólasvæði Brown og við hliðina á leikskólanum þar sem strákurinn okkar fékk pláss. Leikskólaástandið hér er álíka því í Reykjavík þar sem víða er yfir árs bið eftir plássi og var það í raun leikskólaplássið sem olli því að við settumst að hér en ekki nær Harvard. Stelpan okkar fékk að lokum pláss í leikskóla en það var ekki fyrr en um hálfu ári síðar.

Brown háskóli er í Providence sem er höfuðborg Rhode Island fylkis en borgin er stundum talin vera einhverskonar litli bróðir Boston. Sumir fjölskyldumeðlimir halda enn að við séum í Boston þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar til að leiðrétta þann misskilning. Borgin er talin lítil þrátt fyrir að vera með svipaðan íbúafjölda og Reykjavík. Sagan og menningin hér er mögnuð. Það eru átta háskólar í borginni, meðal annars Rhode Island School of Design (einn virtasti listaháskóli Bandaríkjanna), og fylgir því skemmtileg flóra af alls kyns kaffihúsum og veitingastöðum. Það eru líka víða söfn í borginni og húsin eru glæsileg, sum þeirra voru byggð á 18. öld og eru enn í notkun. Í stuttu máli þá er þetta falleg og skemmtileg borg og okkur fjölskyldunni líður vel hérna.

Menningarmunur

Það sem kom mér helst á óvart var kannski hvað bandarísk menning er ekki mjög frábrugðin því sem við þekkjum á Íslandi, en það eru þó sumir hlutir sem koma á óvart. Almennt eru Bandaríkjamenn mikið stemnings fólk og það er alltaf verið að huga að einhverri hátíð sem er handan við hornið. Hrekkjavakan var einstaklega skemmtileg en þá vorum við með vinafólki okkar sem búa í klassísku bandarísku úthverfi og þótti krökkunum það virkilega gaman. Hins vegar er vinnumenningin hér öðruvísi. Það er búist við miklu af fólki og sést að fólk leggur mikið á sig. Vinna um helgar er algeng og fólk mætir snemma til vinnu og vinnur fram eftir og ekki fer mikið fyrir tali um stytta vinnuviku. Löng frí eru sjaldgæf, en á móti er mikið um styttri frí, eins og t.d. langar helgar eða jafnvel bara einn frídagur í miðri viku. Sem dæmi um öðruvísi viðhorf til vinnu þá er það heldur algengt að fólk sem býr í Providence vinni í Boston eða bæjum þar í kring, álíka og Ríkey er að gera. Þetta er margra klukkutíma ferðalag í lest sem tekur enn lengri tíma í bíl. Þakkarlega þarf hún þó ekki að mæta á skrifstofuna á hverjum degi. Við héldum upphaflega að það væri kannski skrítið að gera þetta svona en það þykir fólki hér alls ekki.

Skólamenningin er einnig frábrugðin því sem maður þekkir á Íslandi. Nemendur hér nota alltaf viðtalstíma (e. Office Hours) kennara og er hver önn nær fullkomlega skipulögð, hjá bæði nemendum og kennurum nánast niður á klukkutímann. Almennt eru miklar kröfur lagðar á nemendur og mikið lagt upp úr því að taka þátt í kennslustundum. Einnig vegna þess að nemendur byrja í doktorsnámi beint eftir grunnnám gefur það deildunum meiri kost á að vera með áfanga sem eru sérsniðnir að þörfum doktorsnema og þeirra rannsóknum. Nemendum er almennt veitt mikil aðstoð við að koma sér í gegn um námið, með eftirfylgni starfsfólks, góðu úrvaldi áfanga og drífandi menningu meðal samnemenda.

Framhald

Okkar dvöl hér úti hefur verið mjög gefandi. Það er erfitt að flytja erlendis og hvað þá með með tvö lítil börn. Það er erfitt og vera í nýjum aðstæðum en að lokum gefur það manni tækifæri til að rækta sjálfan sig og læra eitthvað nýtt. Við höfum nú ákveðið að lengja dvöl okkar um ár. Eftir að við höfðum búið hér í hálft ár var Ríkeyju boðið að vera annað ár við Harvard háskóla sem við vildum þiggja. Ég fann mér líka fleiri tækifæri og er núna að hefja störf sem aðstoðarkennari við MPA (e. Master of Public Affairs) námið við Brown og mun líka hefja störf sem aðstoðarrannsakandi við hagfræðideild Brown eftir sumar sem ég er virkilega þakklátur fyrir.

Ef það er eitt sem ég mæli með fyrir aðra nemendur sem eru að huga að námi erlendis þá er það að það sakar ekki að láta á reyna. Maður mun aldrei sjá eftir því að leggja sig allan fram og reyna skjóta hátt. Í versta falli þá hittir maður ekki og það er ekkert að því vegna þess að maður reyndi.