Skip to main content

Elvar í Bretlandi – Stærðfræðinám við Háskólann í Cambridge 

Í október 2019 flutti ég til Englands til þess að hefja nám til BA-gráðu í stærðfræði við Háskólann í Cambridge. Ég útskrifaðist úr MR sumarið 2018 en hafði tekið eitt ár í stærðfræði við HÍ áður en ég flutti út til þess að byrja aftur í grunnnámi. Því var ég nokkrum árum eldri en samnemendur mínir, sem vakti bæði áhuga og undrun. Fyrstu vikurnar í grunnnámi á Bretlandi eru fjörugar, fólk kynnist nýjum vinum, og allir voru mjög ánægðir að vera komnir til Cambridge. Yfir skólanum hvílir mikill ævintýraljómi, og fyrst um sinn snerust samtöl mest um það hvað hver hafði lesið. Ég kynntist fljótt góðum vinum, með breitt áhugasvið, svo að heitar umræður sköpuðust jafnan í matsalnum. Námið var krefjandi, en ég hafði hlotið góðan undirbúning í MR og HÍ.

Strembið umsóknarferli 

Stærðfræðideildin við Cambridge er vinsæl og miklar kröfur gerðar, svo ferlið felur í sér fleiri skrifleg próf en annars staðar. Umsóknin er send út í október ári áður en námið hefst, og henni fylgir persónlegt bréf sem útlistar feril námsmanns og áhuga. Sem betur fer hef ég alltaf haft mikinn áhuga á stærðfræði, auk þess sem ég hafði sumarið áður hlotið verðlaunapening á Ólympíukeppninni í stærðfræði, en slíkt getur verið góð leið til að komast að. Mér var boðið til Cambridge í stutt próf og viðtal í desember, sem var stórt ævintýri. Í viðtalinu fékk ég að reyna við dæmi undir leiðsögn kennara sem ég átti síðar eftir að kynnast vel. Mér fannst þetta eins og að tala við ódauðlega menn, enda margfróðir. Viðtalið gekk vel og mér var boðin innganga að því skilyrði að ég stæðist seinna próf um sumarið. Eftir góðan undirbúning stóðst ég það með prýði og var klár til að halda á vit ævintýranna.

Mikil saga og skipulag í Cambridge 

Háskólinn í Cambridge rekur sögu sína til 1209, og er því næstelsti skóli á Englandi á eftir Háskólanum í Oxford. Þessir tveir skólar voru meginmiðstöðvar alls fræðastarfs á Englandi allt til 18. aldar. Enn í dag er Háskólinn í Cambridge í fremstu röð í rannsóknum, ásamt því að leggja mikið kapp á alla kennslu. Háskólinn hefur lengi lagt sérstaka áherslu á rökvísi og raunvísindi, og einn áhrifamesti eðlisfræðingur sögunnar, Isaac Newton, er sennilega þekktasti fræðimaður skólans. Stærðfræðideildin er næstfjölmennasta deild við skólann, og mikill andi raunvísinda yfir vötnum.

Skipulag skólans er með undarlegasta móti. Háskólanum sjálfum er skipt upp í 31 garð (e. college), en þeir virka sem nokkurs konar sjálfstæðar einingar, sem senda síðan nemendur í nám við ólíkar deildir (e. departments). Flesta fyrirlestra sækja nemendur í deildunum í stórum fyrirlestrarsölum, en auk þess fer fram innan garðs kennsla í smáum hópum, oftast tveir nemendur á hvern kennara. Þessir umræðu- og dæmatímar (e. supervisions) eru mikilvægur hluti námsins, og gefa nemendum tækifæri á að hljóta töluvert persónulegri kennslu en býðst á öðrum stöðum. Fyrir tímann skila nemendur inn úthlutuðum verkefnum, dæmablöðum innan raunvísinda eða ritgerðum innan hugvísinda, og ræða svo verkefnin auk annarra spurninga sem hafa vaknað tengt efninu. Þessir dæmatímar voru með því allra skemmtilegasta og lærdómsríkasta sem ég tók mér fyrir hendur þessi ár. Kennararnir voru fróðir og hugulsamir, og vel að öllu staðið. Þessir persónulegu dæmatímar eru auk þess góð leið til að tryggja að nemendur skili af sér vinnu og læri jafnt og þétt yfir árið.

Sjálfur gerði ég Kóngsgarð (e. King’s College) að heimili mínu þessi fjögur ár, en það er afar glæsilegur garður. Í umsóknarferlinu valdi ég mér þann garð eftir að hafa rýnt í myndir á netinu og lesið mér til um persónueinkenni hvers garðs, en mikið er skrafað um slíkt. Kóngsgarður er þekktur fyrir góða kennslu í stærðfræði, sagnfræði, samfélagsfræði og ensku. Garðurinn var stofnaður árið 1441 af Hinriki VI, og var ég svo lánsamur að vera viðstaddur hátíðarhöld í desember 2021 þegar Hinrik VI hefði orðið 600 ára. Þar var fólki gjarnan spurn: Fyrir hvað væri Hinrik VI frægur ef hann væri enn á lífi? Nú, auðvitað fyrir að vera elsti maður í heimi. 

Veislurnar á Kóngsgarði voru hinar glæsilegustu, og ég naut góðs af félagslífinu. Kapellan við Kóngsgarð er ein þekktasta byggingin í Cambridge, en hana má sjá í mynd. 

Bygging hennar tók tæp hundrað ár, og var trufluð af Rósastríðunum milli valdhafa, en það var loks Hinrik VIII sem lauk við byggingu hennar. Meðal þekktra fyrrum nemenda Kóngsgarðs má nefnda rithöfundana E.M. Forster og Salman Rushdie, auk stærðfræðinganna Alan Turing og John Maynard Keynes, en báðir eru þeir þekktir fyrir að hafa beitt aðferðum stærðfræðinnar á áður ókunnum slóðum, Turing í líffræði og Keynes í hagfræði. Fyrir ungan stærðfræðing er mikill heiður og hvatning að ganga sömu stíga og slíkir menn.

Uppbygging náms ólíkt því sem tíðkast á Íslandi

Skólaárinu í Cambridge er skipt upp í þrjár annir, Mikjálsmessu, lönguföstu, og páska (e. Michaelmas, Lent, and Easter). Í fyrstu tveimur önnunum fer fram venjuleg kennsla, en páskaönnin er fyrir prófundirbúning og upprifjun. Prófin fara fram í byrjun júní, og eru alla jafna þung og veigamikil. Í Mikjálsmessu- og lönguföstuönn eru áherslurnar fyrst og fremst á að veita góða og heildræna menntun. Þar fá hinir áhugasömu að njóta sín, og almenn fróðleiksfýsn höfð að leiðarljósi. Prófin eru snar þáttur af menntakerfinu, en þau þjóna ekki þeim tilgangi að halda nemendum við efnið, eins og tíðkast oft á Íslandi. Dæmatímarnir sjá alfarið um það, og lítur skólinn sem svo á að eina hlutverk prófa sé að meta þekkingu og færni. Á páskaönninni er þó stressinu oft boðið í kaffi, undirbúningur fyrir prófin er strembinn, og allt virðist velta á þessum einkunnum. Nemendur fá raðeinkunn, sem ýtir undir óheilbrigða samkeppni. Þrátt fyrir að flestum utanaðkomandi þyki eflaust flott að hafa lært við Háskólann í Cambridge óháð raðeinkunn er mikið gert úr misjafnri færni nemenda innan skólans. Ég viðurkenni að þessu er stundum ofgert.

Annirnar eru átta vikur, stuttar en hnitmiðaðar. Á milli anna fara nemendur gjarnan heim til að sinna lestri og hvíla sig. Á átta vikum tekst okkur að afreka ótrúlegustu hluti, bæði þegar kemur að fjöri og að bæta við sig þekkingu. Fyrirlestrar er sex daga vikunnar fyrir hádegi og dæmatímar eða undirbúningur fyrir dæmatíma það sem eftir lifir dags. Fyrirlestrarnir eru vandaðir, almennt 24 klukkutíma langir fyrirlestrar í hverju námskeiði, þar sem yfirferð er hröð og efnistök góð. 

Sterkt og fróðleiksfúst félagslíf

Allir nemendur búa frekar miðsvæðis í heimavistum á garði. Þar myndast heimilisleg stemmning, fólk eldar saman og fer út í göngutúra til að slaka á og ræða það sem þau hafa lært. Margir af mínum bestu vinum í dag voru nágrannar mínir í Cambridge, og ég undi mér vel í þessu litla samfélagi. Mikið líf er í bænum tengt skólanum. Innan háskólans eru starfrækt margs konar félög, og þetta er góður vettvangur fyrir hvers slags íþróttir. Hörðustu morgunhanarnir kjósa róður á ánni Cam sem rennur um bæinn, en aðrar íþróttir eru í boði fyrir svefnpurkur. Einnig eru rekin félög fyrir áhugamenn á ýmsum sviðum, sem oft halda góða kvöldfyrirlestra, opna öllum. Ég sótti iðulega fyrirlestra stærðfræðifélagsins á föstudögum og mánudögum, sem voru fjölbreyttir og áhugaverðir. Einnig var ég virkur innan eðlisfræði-, heimspeki- og stjörnufræðifélaganna, en þar voru fyrirlesarar gjarnan toppfræðafólk, jafnvel Nóbelsverðlaunahafar. Umhverfið er mjög hvetjandi og allt krökkt af tækifærum til náms.

Kóróna setti strik í reikninginn 

Mín upplifun var lituð af faraldri Kórónuveirunnar sem skók heimsbyggðina 2020 til 2022. Nokkrar annir þurfti ég að húka heima í fjarnámi, og oft voru samskipti við aðra takmörkuð, sem var einmanalegt og erfitt. Til að bæta gráu ofan á svart vann Oxford bóluefnakapphlaupið. Að öðru leyti var vel að öllu staðið og skólinn kom vel til móts við nemendur á þessum erfiðu tímum.

Doktorsnám næst á dagskrá 

Auk þess að hljóta góða alhliða menntun undir leiðsögn helstu sérfræðinga bauðst mér að taka að mér rannsóknarverkefni yfir sumurin. Eftir þriðja og fjórða árið mitt tók ég því að mér nokkurra mánaða rannsóknarverkefni, fyrst við verkræðideildinna og svo við efnafræðideildina. Þessi verkefni voru ólík öðru námi, svipaði meira til hefðbundinna rannsókna við háskóla þar sem lokaniðurstaðan er óþekkt uns yfir lýkur. Ég naut þessara verkefna, og þessi upplifun hafði mikil áhrif á ákvörðun mína um að fara í doktorsnám. Auk þess þótti mér dásamlegt að búa í Cambridge yfir sumar. Sumrin á Englandi eru mild og góð, ber á víð og dreif, og mikið um Shakespeare-sýningar undir berum himni.

Eftir fjögur stórkostleg ár útskrifaðist ég með BA- og MMath-gráðu frá Kóngsgarði í Cambridge. Ég hefði aldrei vitað hvernig þetta var án þess að prófa það, en ég fagna því að hafa fengið tækifærið til að komast að því. Námið erlendis var krefjandi og lærdómsríkt og mæli ég eindregið með því fyrir fróðleiksfúsa og ævintýragjarna.

Í ágúst 2024 flutti ég til Lundúna til að hefja doktorsnám í diffurrúmfræði við UCL. Það hefur reynst mér vel og væri svo sem efni í aðra grein.