Skip to main content

Dýrmæt reynsla

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur hjá Rannís, verkefnastýra Eurodesk á Íslandi og upplýsingastofu um nám erlendis, skrifar

„Að fara í nám erlendis getur verið eitt heillavænlegasta skrefið sem fólk tekur í sínu lífi.”

Það eitt og sér að fara út opnar ákveðnar dyr. Í bókstaflegum skilningi sjáum við að veröldin er stærri en heimahagarnir – en í eiginlegum skilningi opnast fyrir mikinn persónulegan vöxt
og þroska.

Dvöl erlendis er að vísu ekki til þess eins að kynnast sjálfum sér, heldur er í dvölinni ekki síður fólginn sá fjársjóður að kynnast nýrri menningu og siðum. Það getur verið afar þroskandi að læraað vinna með fjölbreyttu fólki sem hefur kannski alist upp með aðra sýn á lífið en við sjálf.

Val á námi skiptir auðvitað miklu, og það er úr mörgu að velja. Ef ég ætti að hvetja fólk til einhvers er það að hengja sig ekki endilega of mikið á einn skóla heldur vera opin fyrir því að skoða aðra möguleika ef fyrsta valið gengur ekki að óskum.

Ég tel nefnilega sjálf að reynslan utan skólans skipti líka miklu – ég þekki það af eigin raun að það voru ekki endilega áfangarnir eða verkefnin sem voru eftirminnilegust þegar ég lít til baka, heldur fólkið sem ég kynntist og það að búa sjálf í öðru landi.

Það getur verið krefjandi og ógnvænlegt að taka fyrstu skrefin: Að fylla út umsóknir, sækja um styrki, undirbúa flutning og kannski læra nýtt tungumál. En það er líka hluti af ferðalaginu og í því er alltaf fólginn lærdómur. Þótt eitthvað gangi ekki upp í fyrstu, er yfirleitt hægt að finna aðra leið, annan vinkil eða annan áfangastað. Með áttavitann stilltan út í heim, er hægt að bóka að það bætist ríkulega í reynslubankann, sama hvert farið er, og að það muni búa með ykkur það sem eftir er.

Fyrir þau sem eru nú þegar komin með hugann hálfa leið út er gott að vita hvert á að leita að upplýsingum og fá ráðgjöf. Hjá Eurodesk veitum við upplýsingar um nám, skiptinám, starfsnám, sjálfboðaliðastörf og önnur tækifæri erlendis. Á farabara.is er hægt að lesa um ólík lönd og fá leiðbeiningar um nám erlendis, lesa reynslusögur og hafa samband með spurningar.

Nám erlendis er dýrmæt reynsla fyrir okkur sjálf en ekki síður skiptir það máli fyrir íslenskt samfélag, sem eflist af fjölbreyttri hugsun og þeirri flæðandi þekkingu sem við flytjum með okkur til baka.