Skip to main content

Bólumyndun á námslánamarkaði

By 07/12/2015SíNE fréttir

 

jon thor

Bólumyndun á námslánamarkaði Greinin birtist í Morgunblaðinu 18.nóvember 2015

Bólumyndun á námslánamarkaði

Það er líklega ekki tilviljun hve margir íslenskir stúdentar ákveða að leggja stund á háskólanám á erlendri grundu. Að vera háskólanemi í útlöndum eru mikil forréttindi. Burtséð frá hinu formlega námi sem er auðvitað nauðsynlegt þá er ekki síður mikilvæg reynsla að kynnast nýrri menningu og fólki frá ólíkum heimshornum og læra að heimurinn er aðeins stærri en alheimsnaflinn okkar góði.

Þrátt fyrir að ég líti ekki á háskólanám erlendis sem sjálfsögð mannréttindi, þá finnst mér mikilvægt að sem flestir hafi aðgang að því. Ástæðan er sú að ég tel að slíkt nám sé bæði góð fjárfesting fyrir viðkomandi einstakling og samfélagið í heild. Háskólanám erlendis er þó yfirleitt nokkuð kostnaðarsöm fjárfesting og því er lykilatriði að sterkt námslánakerfi sé til staðar sem greiði leið þeirra sem annars hefðu ekki fjárhagsleg tök á því.

Mikið hefur verið rætt um fjárframlög til LÍN á síðustu misserum, einkum í tengslum við skert framfærslulán lánasjóðsins. Sú umræða þarf ekki að koma á óvart, enda liggur í augum uppi að fáir námsmenn erlendis geta lifað sómasamlegu lífi á framfærsluláninu einu saman. Miklar og skyndilegar skerðingar á námslánum hljóta bæði að draga úr tækifærum til að hefja nám og ógna námsferli þeirra sem hafa þegar hafið nám á ákveðnum forsendum. Full ástæða er til þess að vera vakandi yfir þróuninni, einkum vegna þess að tölur frá LÍN sýna að námsmönnum erlendis hefur fækkað jafnt og þétt á síðustu árum. Hins vegar þykir mér miður að umræða um LÍN virðist á löngum köflum einskorðast við niðurskurð og úthlutunarreglur, fáir virðast setja spurningamerki við námslánakerfið í heild.

Íslenska námslánakerfið hefur þróast, nokkurn veginn stefnulaust, út í það að vera lánakerfi með innbyggðu styrkjakerfi, eins skrýtið og það kann að hljóma. Styrkurinn er til kominn vegna þess að LÍN fjármagnar lánin sín á hærri vöxtum en leggjast á lán til námsmanna, sem og vegna affalla. Áætlað er að hátt í helmingur útlána stofnunarinnar sé í formi opinbers styrks!

Hvernig er hægt að halda því fram að þetta sé slæmt kerfi? Megin ástæðan er sú að styrkurinn hækkar eftir því sem námslán hækka. Á meðan þeir sem taka tiltölulega lág námslán þurfa að borga stærstan hluta þeirra til baka, þá fá þeir sem taka námslán upp á 10 milljónir króna ríflega 50% í eftirgjöf að jafnaði. Þá nemur opinber styrkur, sem hlutfall af 20 milljóna króna námsláni, um 80% að jafnaði. Það er sem sagt hvati í kerfinu til þess að taka sem hæst námslán. Það þarf því ekki að koma á óvart að staða lánasjóðsins fari versnandi, námslán hafa hækkað og vanskil aukist, og mun sú þróun að óbreyttu halda áfram. Hvort þeir sem taki hæstu námslánin séu í mestri þörf fyrir opinberan styrk er umdeilanlegt. Sá grunur læðist þó að manni að þeir sem eyði mörgum árum í háskólanám við dýrustu háskóla heims séu ekkert endilega á flæðiskeri staddir.

Eitt helsta hlutverk LÍN, samkvæmt lögum um sjóðinn, er að tryggja námsmönnum jöfn tækifæri til náms óháð efnahag. Margt bendir til þess að illa gangi að uppfylla þetta hlutverk. Vegna þess hve miklum fjármunum er varið í að styrkja þá sem taka hæstu námslánin virðist ekki vera svigrúm til að bjóða lánþegum upp á sómasamleg framfærslulán. Þetta er vaxandi vandamál sem verður ekki leyst með auknum fjárframlögum einum saman.

Ef stjórnvöld vilja stuðla að því að íslenskir námsmenn nái sér í menntun og reynslu á erlendum vettvangi, þá verður að búa til betri umgjörð en þá sem nú er við lýði. Í því samhengi er nauðsynlegt að endurskoða námslánakerfið. Til að mynda hafa verið uppi hugmyndir um að koma á sanngjarnara styrkjakerfi við hlið lánakerfis sem gæti staðið undir sér til lengri tíma. Slíkum hugmyndum ber að veita athygli og menntamálaráðherra hefur reyndar sagst vera tilbúinn að skoða breytingar í þá veru. Mikilvægast af öllu er þó að stjórnvöld móti stefnu í þessum málaflokki og ákveði hvaða leið eigi að fara. Ef ekki, og þróunin fær að halda áfram, þá er hætt við því að háskólanám, einkum kostnaðarsamt háskólanám erlendis, verði bara valkostur fyrir afmarkaðan hóp.

Jón Þór Kristjánsson

Höfundur er meistaranemi í opinberri stefnumótun við Edinborgarháskóla