Skip to main content

Ávarp ritstjóra

By 28/06/2025júní 29th, 2025Sæmundur, Sæmundur 2025

Kæri lesandi Sæmundar,
Mikil gleði fylgir því að sjá vorútgáfu Sæmundar líta dagsins ljós.

Síðastliðið ár hefur vægast sagt verið viðburðaríkt og það um heim allan, ekki síst hjá námsmönnum. Það hefur eflaust ekki farið framhjá mörgum að við lifum á skrítnum tímum og það er aldrei að vita hvers konar frétta bíða manns á fréttaveitum á morgni hverjum. Því fylgir mikil óvissa, ekki síst hjá námsmönnum erlendis, sér í lagi eftir að fréttir bárust að Bandaríkjaforseti vill meina erlendum nemum aðgang að menntun við Harvard háskóla.

En þó svo að við lifum á fordæmalausum tímum, eins og frægt var til orða tekið hér fyrir nokkrum árum og á ekki síður við í dag, tel ég að sjaldan hafi verið jafn mikilvægt að ríða á vaðið og fara út fyrir landsteinanna. Þegar fólk fer í nám erlendis er það ekki einungis að afla sér þekkingar sem það mun búa að ævilangt en að kynnast nýjum menningarheimum, hefðum, tungumálum og öllu jafna betra veðurfari er ávinningur á sviði hins persónulega og samfélagsins. Við kynnumst sjálfum okkur ekki einungis betur en að læra af, skilja og vera í kringum ólíka menningarheima er forsenda fyrir því að streitast á móti rísandi þjóðernishyggju og fordómum.

En að fara út í nám er ekki alltaf dans á rósum. Með blaðinu í ár töldum við mikilvægt að sýna fram á allskyns kima þess að fara út í nám, bæði það góða og slæma við reynsluna og allt þar á milli. Við fáum því greinar og reynslusögur frá ólíkum áttum, heilræði, ráðleggingar og margt fleira sem ég vona að lesendur hafi bæði gagn og gaman af.

Ég finn mig þó knúna til að nýta þetta ávarp til að minna á að í þessu flókna pólitíska landslagi er þó eitt sem ég tel ekki vera flókið og það er sú staðreynd að það eru mikil forréttindi að fá að stunda nám og hvað þá á erlendri grundu. Fólk í stríðshrjáðum löndum eru mörg hver slíkum forréttindum ekki aðnjótandi sökum grimmdar og græðgi annarra og grundvallarmannréttindi þeirra eru ekki virt. Að því sögðu vil ég enda ávarpið á þessum orðum. Lifi frjáls Palestína.

Takk fyrir mig!
Katla Ársælsdóttir, ritstjóri Sæmundar 2024-2025