Skip to main content

Ávarp frá Miriam Petru Ómarsdóttur Awad, sérfræðingur hjá Rannís

Kæru lesendur Sæmundar,

Það er mér mikil ánægja og heiður að fá að ávarpa ykkur á opnunarsíðum þessa flotta málgagns SÍNE. Að hafa samtök sem halda utan um hagsmuni íslenskra námsmanna erlendis er mikilvægt og þarft, enda er sú vegferð að fara í nám erlendis oft flókin og getur virkað yfirþyrmandi, þótt hún sé auðvitað frábær á flestan hátt líka. Því er nauðsynlegt að geta speglað sig í öðrum, heyrt reynslusögur og fengið leiðsögn þegar á reynir.

Ég þekki nám erlendis af eigin raun eftir að hafa dvalist í tvær annir í skiptinámi í háskólanum Université Laval í Québec, í Kanada og tekið eins árs starfsnám hjá sendiráði Íslands í París. Það komu stundir þar sem mig langaði að gefast upp og sleppa þessu öllu saman, sérstaklega þegar ég var að undirbúa skiptinámið, því mér fannst ég rekast á svo marga veggi. Átti ég að taka tungumálapróf, senda umsókn um vegabréfsáritun á tvo staði og bíða þolinmóð í margar vikur eftir svörum? Og ekki missa vitið og sinna líka náminu mínu á meðan? 

Skiptinámið undirbjó mig fyrir flutningana til Parísar 7 árum síðar, en í bæði skiptin mætti ég sjálfri mér ótal mörgum sinnum með efasemdarraddir á lofti. „Hvað heldur þú að þú getir gert allt þetta?“ og „af hverju ætti þessi skóli eða vinnustaður að samþykkja þig?“. Eftir á að hyggja þá þakka ég kvíðanum mínum að einhverju leyti fyrir að halda mér á jörðinni og klappa honum á bakið fyrir að hafa haft rangt fyrir sér með svo margt. 

Þegar ég var á leiðinni út í fyrsta skipti fannst mér eins og lífið myndi enda ef ég kæmist ekki til Kanada. Í rauninni veit ég að ef ég hefði ekki komist inn í skiptinámið, þá hefði ég fundið mér einhverja aðra leið út. Alveg eins og lækur sem brýst í gegnum nýjan farveg, þá hefði neitun þar bara beint mér annað. 

Að fá að vera algjörlega ég sjálf, á upphafspunkti á nýjum stað, var spennandi og ég fylltist orku í bæði skiptin. Ég var að vísu alltaf með hausverk eftir skóla fyrstu mánuðina í Québec, enda námið allt á frönsku. Það vandist á endanum og eftir á að hyggja skiptu einkunnir minna máli í stóra samhenginu. Starfsnámið í París opnaði síðar aftur augu mín fyrir mikilvægi alþjóðasamstarfs og tungumálanáms, en ég tók það samhliða námi í hnattrænum tengslum við Háskóla Íslands. Í þessu öllu fannst mér ég læra seiglu og þrek, aukna virðingu fyrir sjálfri mér og jafnvel erfiðu stundirnar sköpuðu einhvern lærdóm. Ísland var líka alltaf þarna, handan hafsins, eins og akkeri sem ég gat huggað mig við. Það fer ekki neitt, þótt ég fari burt í styttri eða lengri tíma. 

Ég vil hvetja öll sem þetta lesa til að njóta hverrar mínútu á meðan á náminu erlendis stendur. Ef þið fáið neitun eða komist ekki inn í eitthvað eitt, þá er lífið ekki búið og alltaf hægt að finna eitthvað annað. Skiptinám er líka alltaf möguleiki fyrir þau sem vilja stíga varlega til jarðar í þessum efnum, en það var t.d. efnahagslega auðveldara frekar en að fara í fullt nám. 

Ég vil að lokum nýta tækifærið og benda á upplýsingastofu um nám erlendis en ég er einmitt verkefnastýra þess verkefnis hjá Rannís og sé um vefinn Farabara.is. Það er mér alltaf ánægja að hvetja annað fólk til að stökkva út og sjá heiminn, og fara bara – hvort sem það er í styttri eða lengri tíma. Að koma með reynslu úr ólíkum aðstæðum aftur heim, ef við kjósum að gera það, er stórkostlegur ágóði fyrir íslenskt samfélag en fyrst og fremst mikilvæg fyrir okkur sjálf – og það er það sem skiptir höfuðmáli. 

Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sérfræðingur hjá Rannís