Þegar kom að því að velja mér skiptinám stóðu mér tveir aðlaðandi kostir til boða. Annars vegar var það Slóvakíski Landbúnaðarháskólinn í Nitru, og hins vegar Wageningen University and Research (WUR), í Hollandi. Holland hefur þá sérstöðu í mínu lífi að vera fæðingarland mitt og bróður míns, en þar bjuggu foreldrar okkar, bæði ungir Íslendingar, meðan pabbi stundaði nám við Konunglega Tónlistarháskólann í Den Haag. Frásagnir þeirra af Hollandi eru fullar af nostalgíu og mig langaði að upplifa þessa sömu tilfinningu; að vera erlendur námsmaður í Hollandi.
WUR er hollenskur landbúnaðarháskóli og er með þeim fremstu í heiminum, að mér skilst, og það lokkaði mig til skólans að vissu marki. Wageningen á sér gott orðspor innan matvæla- og næringarfræðideildar HÍ, og er vinsæll áfangastaður fyrir skiptinema frá deildinni.
Wageningen er lítil borg, en fólksfjöldinn er u.þ.b. 40 þúsund manns. Nokkrir hollenskir nemar hafa haldið því fram við mig að Wageningen sé einungis skilgreind sem borg vegna háskólans. Þetta stenst reyndar ekki skoðun, þar sem Wageningen hlaut fyrst lagaleg réttindi borgar á þrettándu öld.
Námið í WUR er fjölbreytt og krefjandi. Kerfið er áhugavert að því leyti að unnið er í lotum, þar sem haust- og vorönn telja hvor um sig þrjár lotur: Eina stutta og tvær langar. Í hverri lotu er búist við að nemandinn taki uþb sex til tólf ECTS. Síðasta lota vor annar fer næstum alfarið fram um sumar, en henni lýkur um júlí.
Hvað samskipti nemanda og kennara varðar svipar þeim að mörgu leyti til þess sem ég hef orðið var við á Íslandi. Þegar skólinn var kynntur fyrir okkur erlendu nýnemunum var okkur tjáð að alveg óþarft væri að þéra kennarana, né ávarpa með titlum, heldur einfaldlega með eiginnafni „eins og vini.” Þetta gerir aðlögun talsvert auðveldari fyrir unga Íslendinga, sem eru vanir að ávarpa alla frá nánum vinum til yfirmanna sinna og þjóðarleiðtoga með eiginnafni, hugsanlega í fylgd með kenninafni.
Félagslífið í WUR er ríkt og opið. Það er stórmerkilegt hversu fljótir nemendur eru að vingast. Menningin í stúdentasamfélaginu leggur ríka áherslu á umhverfismál og sjálfbærni í daglegu lífi, sérstaklega meðal erlendra nema. Á Fimmtudagskvöldum er mesta stemningin á kaffihúsum og krám miðbæjarins, en þá kveðja hollenskir nemar gjarnan Wageningen til að verja helginni í foreldrahúsum. Á sama tíma taka fjölmargir erlendir nemar helgarfríinu sem tækifæri til að ferðast um Niðurlöndin. Þetta hefur þau áhrif að bærinn er almennt fámennri (og þar af leiðandi friðsælli) um helgar.
Ég bý á gangi með sex samnemendum mínum úr háskólanum. Ég deili með þeim eldhúsi, salernisaðstöðu, og sturtum. Gangurinn er á fimmtu hæð gamallar blokkar, og hver nemandi fær eigið herbergi. Svo vill til að herbergið mitt er með ágætt útsýni, og það hefur komið sér vel að geta lagst niður og horft á vindmyllur í fjarska, eða spörfugla í næsta tré þegar álagið í náminu er mikið og skyggnið út um gluggann gott.
Húsnæðismarkaðurinn í Wageningen er ásættanlegur, a.m.k. miðað við stærri borgir landsins. Einfaldasta leiðin fyrir skiptinema að finna íbúð virðist vera gegnum Facebook hópa, en í aðdraganda ferðar minnar út varði ég dögum mínum með símann opinn á kantinum, endurnýjandi Facebook síður í leit að auglýsingum um húsnæði. Fjölmargar auglýsingar tóku það fram að einungis væri leitað að ýmist kvenleigjendum eða hollenskum/hollenskumælandi leigjendum. Þegar líða fór að náminu, og streita varðandi íbúðaleit fór að segja til sín, var ég svo heppinn að rekast á auglýsingu sem hafði borist inn á síðuna fyrir heilum þrem mínútum. Ég stökk til, skrifaði ég í flýti þessi einföldu skilaboð: „Hi, I’m interested in this room!”
Skilaboðunum fylgdi ég eftir með athugasemd við auglýsinguna, „PM sent.”
Ekki mínútu seinna var komin önnur athugasemd undir sömu færslu. Það er skemmtilegt að skoða athugasemdirnar í dag, því mörg nöfn sem voru á þeim tíma ókunnugir keppinautar eru í dag vinir og góðkunningjar. Þarna má eflaust finna einhverja lexíu um jákvætt hugarfar, lesandi góður.
Þegar ég settist niður til að skrifa greinina var mér bent á að fjalla um hvers ég mun sakna mest úr skiptináminu. Það er verulega góð spurning hvers ég mun sakna mest. Eldri systir mín stríðir mér stundum að ég muni sakna sjálfstæðisins sem fylgir því að búa á eigin vegum. Það er eflaust rétt hjá henni. Ég mun sakna félagslífsins og námsins að vissu marki, en HÍ býr yfir fjörugu félagslífi og áhugaverðu námi sem mun bæta mér það upp. Mest mun ég samt sakna fólksins sem ég fékk að vingast við hérna úti.