
Ellen Geirs skrifar.
Hvenær förum við heim? Hvar drögum við línuna? Í um það bil tíu ár hef ég reynt að sannfæra vini mína og vandamenn um ágæti Bandaríkjanna, eða Bandaríkjamanna öllu heldur. Ég hef reynt að sýna fram á að það sem berist til okkar um Bandaríkjamenn endurspegli ekki endilega raunveruleikann sem þar sé að finna. Í dag er sagan allt önnur.
Í dag berast fréttir af erlendum nemum með fullgildar vegabréfsáritanir sem eru hrifsaðir af götum úti án fyrirvara. Erlendum nemum með landvistarleyfi sem eru teknir af heimili sínu eða erlendu fræðafólki sem ekki er hleypt inn í Bandaríkin, að því er virðist fyrir það eitt að nýta rétt sinn til málfrelsis.
Víða á samfélagsmiðlum er fólk hvatt til þess að hætta við að fara úr landi eða ferðast til Bandaríkjanna. Hvatt til þess að ferðast með símtæki sem er án samfélagsmiðla eða gagna sem gætu komið sér illa gagnvart stjórnvöldum. Hvatt til þess að íhuga vandlega þann möguleika að þeim verði ekki hleypt aftur inn í landið kjósi það að fara.
Í lok mars tók ég áhættuna, ég fór til Evrópu í stutt helgarfrí og ferðaðist svo rakleiðis aftur til Boston þar sem ég hef, líkt og Mahmoud Khalil, einn handteknu háskólanemanna, nýlokið mastersnámi. Ég hugsaði með mér að ég hefði aldrei leyft valdasjúkum karlmanni að ráða mínum ferðum og ætlaði ekki að byrja núna. Þar að auki virtist það ekki vera fýsilegur valmöguleiki fyrir mig að útvega mér nýjan síma til þess að fela stafræna fótsporið mitt. Staðreyndin er sú að ég hef talað gegn Trump og hans líkum of lengi til þess að það sé hægt að fela það.
Svo ég hélt yfir landamærin í Boston, með hjartað í buxunum, alla tilskilda pappíra, sveitta lófa og öryggisráðstafanir virkar með mínum nánustu ef allt færi á versta veg, sem það blessunarlega gerði ekki.
Hér sit ég nú í Boston og íhuga framtíðina mína í Bandaríkjunum, sé hún einhver. Held vinnunni minni áfram eins og ekkert hafi í skorist og hugsa til þeirra erlendu nema sem voru ekki jafn heppnir og ég. Mahmoud Khalil, nýútskrifaðan nema við Columbia háskóla sem tekinn var haldi af bandarískum yfirvöldum í New York og Rumeysa Ozturk nema við Tufts háskóla sem var gripin á götum Somerville, borgar 20 mínútum fyrir utan Boston.
Fyrir tíu árum reyndi ég að sannfæra Íslendinga um ágæti Bandaríkjamanna en nú er komið að þeim að sannfæra heiminn um eigið ágæti. Ef ekki fyrir alþjóðasamfélagið, þá fyrir sögubækurnar.