Skip to main content

Fréttatilkynning frá stjórn SÍNE

Fréttatilkynning

 

Nýlega tilkynnti LÍN að framfærslulán fyrir námsárið 2016-2017 yrðu leiðrétt fyrir námsmenn í Slóvakíu (http://www.lin.is/lin/Namsmenn/Skilabod_til_namsmanna/Nl-Skilabod63.html) þar sem þau hefðu verið skert umfram fyrri ákvörðun stjórnar LÍN. Þannig var ákveðið á árinu 2015 að framfærslulán yrðu skert að hámarki 20% milli námsáránna 2015-2016 og 2016-2017. Raunin varð sú að þau voru skert um 28% í Slóvakíu sem leiddi til þess að einstaklingur sá fram á að fá 770 EUR á mánuði í stað 860 EUR.

 

Helstu rökin fyrir þessari skekkju eru að sögn LÍN að bókakostnaður hafi verið vanmetinn í framfærslutölum vegna Slóvakíu. Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að nú þegar hafa heyrst fregnir af því að háskóli erlendis kannist ekki við þær framfærslutölur sem koma fram í skýrslu Analytica um framfærslugrunn fyrir LÍN. Stjórn SÍNE hefur áður gagnrýnt skýrslu Analytica og talið hana byggja um of á framfærslutölum frá vefsíðum á borð við www.numbeo.com (sem líkja má við www.wikipedia.com) og framfærslutölur á vefsíðum sem taldar eru tilheyra háskólum út í heimi án þess að gengið sé eftir því að staðfesta framfærslutölur við háskólana sjálfa.

 

Stjórn SÍNE telur fullt tilefni, í ljósi þeirra vankanta sem Lánasjóðurinn hefur nú þegar viðurkennt um vanreiknaðan bókakostnað, að framfærslutölur verði teknar til ítarlegrar skoðunar af óháðum aðilum. Þá ítrekar stjórn SÍNE fyrri kröfu sína um að stjórn LÍN leggist í þá vinnu að reikna raunverulega framfærslu námsmanna erlendis. Í þeim efnum væri hægt að leita til þeirra námsmanna sem stunda nú nám erlendis, lánasjóða annarra landa og líta betur til Eurostat. Ennfremur er sá möguleiki fyrir hendi að hafa samband við háskólana sjálfa og fá milliliðalaust þeirra skoðun á raunverulegri framfærslu erlendra nemenda.