Samband íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) fagnar því að frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN) hafi verið tekið af dagskrá Alþingis. Hér má finna helstu athugasemdir sambandsins við frumvarpið
Það er jákvætt að til skoðunar sé að koma upp námsstyrkjakerfi á Íslandi og því ber að fagna og má búast við að íslenskir námsmenn í heild verði ánægðir með þessa stefnubreytingu. Einnig er jákvætt að lagt sé til að styrkurinn verði verðtryggður. Hins vegar, eins og rökstutt verður hér að neðan, telur SÍNE að þessi styrkur sé of dýru verði keyptur miðað við aðrar breytingar sem koma í kjölfarið.
Sett er í lög veruleg hækkun á vöxtum, heimild til að innheimta lántökugjöld og fleira til að bæta upp fyrir áðurnefnda breytingu sem veldur stjórn SÍNE töluverðum áhyggjum til framtíðar litið. Námstyrkurinn mun fyrst og fremst leiða til mikilla jákvæðra áhrifa fyrir þá sem búa heima hjá foreldrum, jafnvel í vinnu með námi og óska einungis eftir námsstyrk. Það er sá hópur sem má almennt segja að minnst reiði sig á námslánakerfið.
Stjórn SÍNE hefur nú þegar óskað eftir betri skýringum og dæmum frá Lánasjóði íslenskra námsmanna sem sýna með skýrum hætti afleiðingarnar fyrir þá námsmenn sem neyðast til þess að taka há námslán (framfærslu- og skólagjaldalán) en í mörgum tilvikum er slíkt ekki umflúið fyrir námsmenn erlendis jafnvel þó stefnan hafi verið að skerða framfærslulán þeirra allt að 40% síðustu ár. (sjá nánar 11.grein)
Þá er verið að setja heimild í lög til þess að krefja lántakanda um að leggja fram viðunandi tryggingu, að mati sjóðsins, ef hann er ekki talinn tryggur lántaki samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins. Stjórn SÍNE á erfitt með að meta þörfina á slíkri lagaheimild og setur alvarlegar athugasemdir við að ekki sé vísað til þeirra sjónarmiða sem eiga ráða för við það mat stjórnar LÍN í úthlutunarreglum. Ekki verður annað séð en það verður verður algjörlega frjálst og efast stjórn SÍNE um að það standist hreinlega stjórnarskrá. Þá er ljóst að þetta muni helst bitna á lágtekjuhópum og þeim sem minna mega sín í íslensku samfélagi. Þessi breyting mun óhjákvæmilega leiða til þess að jafnrétti til náms verði skert verulega og fer því í bága við 1. gr. þessa frumvarps. (sjá nánar 12. grein)
Nú verður einnig heimilt að mæla fyrir um það í úthlutunarreglum LÍN að hámark skólagjaldalána geti verið takmarkað eftir námslöndum og námsgráðum. Stjórn SÍNE leggst harðlega gegn þessari breytingu og á erfitt með að sjá kosti þess að mismuna þannig námsmönnum eftir því hvar þeir sækja nám sitt og hvers konar nám þeir sækja. Þess konar heimild á skerðingu frelsis einstaklingsins á ekki heima í lögum um Lánasjóðinn. (sjá nánar 14. grein)
Í frumvarpinu er lagt til að hámarki verði veitt námsaðstoð til 420 ECTS-eininga óháð námsferli. Þetta mun bitna helst á doktorsnemum og þeim sem ákveða að skipta um námsleið í miðju námi. Það hefur verið bent á að svipuð takmörkun sé til staðar á öðrum Norðurlöndum. Hins vegar er víðs vegar komið til móts við það með launuðum doktorsstöðum við háskólanna eða styrkjum í þeim efnum. Það að skerða svo harkalega á hagsmunum doktorsnema án þess að neitt slíkt liggi fyrir er alvarlegt mál. Það mun draga úr þekkingu á ákveðnum sviðum, spekileka og jafnrétti einstaklinga til doktorsnáms. Rökin fyrir þessari skerðingu halda einfaldlega ekki vatni. (sjá nánar 9. grein)
Lagt er til að námsmenn muni nú fá greiddan vaxtastyrk en með því er ætlunin að gera námsmann jafn settann og ef hann hefði fengið námsaðstoðina greidda fyrirfram. Þetta er gífurlega jákvætt ákvæði og um margt gott þar sem ekki reyndist tækt að greiða námsaðstoðina fyrirfram, líkt og tíðkast á Norðurlöndum. Á móti kemur þyrfti að bæta við ákvæðið vaxtaprósentu og miða við óverðtryggða vexti Seðlabankans yfir það tímabil sem um ræðir eða aðra vexti sem munu leiða til þess að einstaklingur sé jafn settur og ef hann hefði fengið námsaðstoðina borgaða fyrirfram. Stjórn SÍNE sér þó ekki hvað kemur í veg fyrir að þetta sé gert með fastmótaðri hætti í lögunum sjálfum. (sjá nánar 10. grein )
Vaxtakjör námsmanna verða óviðunandi samkvæmt frumvarpinu eða 2.5%, verðtryggðir auk álags en samkvæmt núgildandi lögum eru þeir 1-3% verðtryggðir. Heimildin til að hækka vextina úr 1% hefur ekki verið nýtt í úthlutunarreglum síðustu ár. Einnig verður viðbætt álag sem jafngildir væntum afföllum af endurgreiðslu námslána bætt við. Samkvæmt skýrslu Summa sem birt var á vefsíðu LÍN verður ekki annað séð en að spáð sé töluverðum afföllum í núgildandi lánakerfi. Það er því alvarlegt mál að innleiða svo opna heimild til þess að hækka vexti. Þannig er engin sérstaklega ákvörðuð prósenta (eða hámark) af afföllum ákveðin í lögum og að því er virðist ekkert sem hindrar það að vextir verði til að mynda 5% í heild. Hér er mikilvægt að benda á að það verður að telja að þetta sé einnig helsta ástæðan fyrir því að það sé sérstaklega tekið fram í lögunum að ekki sé um neytendalán að ræða sbr. 1. gr. frumvarpsins. Það er mjög mikilvægt að þessu verði breytt að mati stjórnar SÍNE og viðbótarálag verði í það minnsta afnumið úr frumvarpi og vextir lækkaðir. (sjá nánar 16. grein)
Þá felst í frumvarpinu veruleg breyting vegna upphafsdags vaxtaútreiknings námslána. Í núgildandi lögum er það eftir lok náms en samkvæmt frumvarpinu munu námslán bera vexti frá þeim degi þegar lán er greitt út til námsmanns. Ekki verður annað séð en að þetta eigi eftir að leiða til verulegs aukins kostnaðar fyrir námsmenn og er þessu mótmælt af stjórn SÍNE. (sjá nánar 16. grein)
Endurgreiðslur námslána munu samkvæmt frumvarpinu hefjast einu ári eftir námslok en samkvæmt núgildandi lögum hefjast endurgreiðslur almennt tveimur árum eftir námslok. Ekki má gleyma í því sambandi að endurgreiðslur samkvæmt núgildandi lögum eru tekjutengdar að hluta. Það verður ekki annað séð en að samkvæmt frumvarpinu munu námsmenn greiða fulla afborgun eftir ár frá námslokum óháð því hvort þeir séu komnir með vinnu. Stjórn SÍNE gerir alvarlegar athugasemdir við þetta og ekki verður séð að við útreikning og samanburð á núgildandi lögum og frumvarpinu sé tekið tillit til þessara breytinga. (sjá nánar 17. grein)
Samkvæmt frumvarpinu verður endurgreiðsla námslána framkvæmd á 40 ára tímabili. Í frumvarpinu segir að námslán skulu endurgreidd sem jafngreiðslulán með mánaðarlegum endurgreiðslum. Þetta mætti vera skýrara til að taka af allann vafa um hvort stjórn LÍN hafi eitthvað mat í þessum efnum. Vart verður annað séð af athugasemdum í frumvarpinu en að heildarláninu verði dreift niður á 12 mánuði ársins í fjörtíu ár. Afborganir verða því mun þyngri eftir því sem lánið er hærra. Það er engin föst upphæð í þeim skilningi heldur er hún miðuð við heildarfjárhæð láns. Það gefur augaleið að þetta ákvæði á eftir að bitna harðast á fjölskyldufólki sem oft þarf að taka hærri lán en aðrir og þeim einstaklingum sem sækja sér nám erlendis en það hefur nánast undantekningarlaust með í för sér hærri kostnað, ýmist í framfærslu eða vegna skólagjalda. Ákvæðið skerðir því jafnan rétt fólks til að stunda nám sitt og fer gegn 1. grein frumvarpsins. (sjá nánar 17. grein)
Þá ítrekar SÍNE orð sín um að fyrirhugaður niðurskurður á framfærslu námsmanna erlendis í nýjum úthlutunarreglum LÍN sé bæði óboðlegur og illa ígrundaður, en SÍNE hefur gert margar athugasemdir við það hvernig skýrslan var unninn.
Það er einróma álit stjórnar SÍNE að það sé ekki tækt að taka frumvarp af þessari stærðargráðu til fyrstu umræðu rétt fyrir sumarfrí og að það krefjist mikilla endurbóta, námsmönnum hér heima og erlendis í hag.