Skip to main content

Meðfylgjandi maki

Þórdís Dröfn Andrésdóttir skrifar.

Mín leið að námi erlendis er hugsanlega aðeins öðruvísi en flestra. Ég fór nefnilega ekki alveg ein eða á eigin forsendum.

Sumarið 2020 fór kærasti minn, sem nú er eiginmaður minn, í nám til Danmerkur. Ég var í vinnu sem mér þótti mjög gefandi og skemmtileg, ég var verkefnaráðin og átti eitt ár eftir í starfinu og ákvað því að fara ekki til Danmerkur. Veturinn sem við vorum í sitt hvoru landinu var skrítnasti tími lífs okkar. Covid var í hæstu hæðum og ég þurfti ýmsa pappíra til að komast á milli Íslands og Danmerkur. Sem betur fer flaug alltaf ein vél á milli í hverri viku. Það gerðist nokkrum sinnum að allt skall í lás á Íslandi. Þá nýtti ég tækifærið og fór til Danmerkur, það var jú hvort sem er ætlast til fjarvinnu.

Mér var gjarnan ráðlagt af eldra og reyndara fólki í kringum mig að elta kærastann ekki til Danmerkur, að ég þyrfti að finna eitthvað fyrir mig. Það var eins og margir litu það hornauga að vera maki í eftirdragi. Skiljanlega. Enda er það kannski mikil persónuleg fórnfýsi á tímabili sem krefst þess alls ekki. Við áttum engin börn og ég setti mitt á pásu bara til þess að fara þangað sem kærastinn fór. Þannig kom það ábyggilega flestum fyrir sjónir. Ég vissi hins vegar alls ekki hvað ég vildi gera næst og var á krossgötum. Tímabilið sem ég var meðfylgjandi maki var mjög mikilvægur þáttur í því að komast að því.

Elsta heimildin um hugtakið „meðfylgjandi makii“ (e. Trailing spouse) er eignuð Mary Bralove og birtist grein í Wall Street Journal árið 1981 undir yfirskriftinni „Vandamál tveggja starfsferla fjölskyldna byrja að neyða fyrirtæki til að aðlagast“.

Frá 2020 til 2021 vorum við í fjarsambandi í miðjum heimsfaraldri, ég kláraði námið mitt hérna og vann samhliða því í Máltækniáætluninni hjá Árnastofnun. En þegar sumarið 2021 rann upp hafði ég fallið fyrir Sonderborg og saknaði kærastans. Við giftum okkur og ég flutti til hans.

Við bjuggum á Suður Alsey, eyja sem býr yfir mikilli fegurð og er friðsælasti staður sem ég hef nokkurn tímann búið á. Stúdentagarðarnir eru við skóg og strönd, göngufæri frá fallegum miðbæ.

Mér finnst ég verða að segja frá því í fullri hreinskilni að mér leiddist ekkert smá mikið. Benedikt fór í skólann alla daga. Fyrstu vikurnar vorum við í 18 fermetra stúdíóíbúð og því þýddi ekkert að hanga heima. Í Sonderborg er nóg til að skoða en ekki mikið um að vera. Ég hafði samt eitthvað fyrir stafni, ég vann sem textasmiður og prófarkalesari og prófaði fjarnám undir lok dvalarinnar.

Þessi tími er mér ótrúlega kær og var mikilvæg upplifun. Áður en ég flutti hafði ég verið í fullu starfi, fullu námi, þátttakandi í félagslífinu og alltaf á fullu. Ég lærði að staldra aðeins við og gera ekkert. Horfa í kringum mig og njóta staðar og stundar.